Laugardagur 30.11.2019 - 19:41 - Rita ummæli

Ritdómur um bók Øygards

Í 20. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt.“ Vitanlega gilda sömu hæfiskilyrði um setningu í embætti. Ef maður er vanhæfur til skipunar, þá er hann vanhæfur til setningar og það í eitt æðsta embætti landsins, þar sem öllu varðar að gæta hagsmuna þjóðarinnar gagnvart öðrum. Þegar vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hafði breytt lögum um Seðlabankann í febrúar 2009 í því skyni að flæma þrjá þáverandi seðlabankastjóra úr bankanum og síðan sett norskan fjármálamann, Svein Harald Øygard, í embættið, var hún því að brjóta stjórnarskrána. Øygard hafði verið virkur í norska Verkamannaflokknum og meðal annars verið aðstoðarfjármálaráðherra á vegum flokksins, en rak nú ráðgjafarstofu. Eitt fyrsta embættisverk Øygards var að taka á móti landa sínum og flokksbróður, Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sem staddur var á Íslandi. Spígsporuðu þeir ásamt lífvörðum Stoltenbergs um bankann, brostu breitt og töluðu norsku. Hið ágæta starfsfólk bankans, sem hafði lagt nótt við dag í bankahruninu, hlustaði á hnípið. Var Ísland aftur orðið hjálenda Noregs?

Fundurinn heima hjá Davíð 2006

Í nýútkominni bók Øygards um starf hans í Seðlabankanum, Í víglínu íslenskra fjármála (Reykjavík: Vaka-Helgafell, 2019), viðurkennir hann (bls. 192), að ganga þeirra Stoltenbergs um bankann hafi verið mistök. Af ritinu má ráða, að honum sé hlýtt til Íslendinga, og þarf ekki að efast um, að hann hafi lagt sig allan fram í starfi sínu. En þótt hann endurtaki oft í bókinni, að sér hafi fundist mikilvægara að horfa fram á við en um öxl, orka margvísleg ummæli hans um bankahrunið tvímælis. Hann segir til dæmis, að neyðarfundur heima hjá Davíð Oddssyni sunnudaginn 26. mars 2006 hafi markað tímamót. „Hefði verið reynt að ná tökum á efnahagskerfinu daginn þann hefði mátt forðast hvellinn“ (bls. 151). Nú var Øygard vitanlega ekki sjálfur á fundinum, en hann var haldinn, eftir að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hafði hringt í seðlabankastjórann, þar sem hann var nýkominn í sumarbústað sinn. Bankastjórar viðskiptabankanna höfðu látið í ljós við Halldór áhyggjur af fjármögnun bankanna næstu vikur, eftir að Danske Bank hafði birt neikvæða skýrslu um þá. Bað Halldór Davíð um að hitta bankastjórana, og boðaði Davíð þá heim til sín til að forðast fjölmiðlafár. Auk hans sátu þann fund Halldór J. Kristjánsson frá Landsbankanum og Bjarni Ármannsson frá Glitni, og voru þeir í símasambandi við Hreiðar Má Sigurðsson í Kaupþingi, en hann var á leið til Bandaríkjanna.

Davíð sagði bankastjórunum, að hyggilegast væri að bíða og sjá, hvernig markaðir brygðust við næstu daga. Það spyrðist strax út og hefði vond áhrif, ef Seðlabankinn færi í pati að reyna að útvega lausafé erlendis. Síðar um kvöldið, þegar bankastjórarnir voru farnir, komu seðlabankamennirnir Ingimundur Friðriksson og Tryggvi Pálsson heim til Davíðs til að fara yfir málið. Hættan leið hjá, og eftir þetta gripu bankarnir til margvíslegra aðgerða til að útvega sér fjármagn til langs tíma. En innlánasöfnun Landsbankans erlendis má ekki rekja til þessa fundar, enda var þar ekki á hana minnst. Mark Sismey-Durrant, forstöðumaður dótturfélags Landsbankans í Bretlandi, Heritable Bank, átti frumkvæði að slíkri innlánasöfnun, og var hugmyndin, að innlánin fjármögnuðu hin miklu útlán bankans í Bretlandi. Landsbankinn gat boðið hærri vexti en flestir keppinautarnir, því að þessir reikningar voru ódýrir í rekstri. Kaupþing sigldi síðan í kjölfarið með Edge-reikningum, sem voru svipaðs eðlis. Þessi innlánasöfnun fór ýmist fram í dótturfélögum eða útbúum. Raunar voru flestar fjárfestingar Íslendinga í Bretlandi ábatasamar, og skýrir það, hvers vegna eignasafn bankans þar reyndist við uppgjör verðmætara en margir héldu.

„Eins manns útaustur“

Það var ekki fyrr en eftir hrunið sem allir sáu það fyrir, eins og skáldið sagði. Øygard rifjar upp margvísleg varnaðarorð fyrir bankahrunið. En menn voru þá að vara við kreppu að lokinni þenslu, ekki kerfishruni. Íslendingar hafa oft lent í kreppum og kunna að glíma við þær. Ég veit hins vegar ekki um nema einn mann, sem varaði við kerfishruni. Þegar í nóvember 2005, skömmu eftir að Davíð Oddsson varð seðlabankastjóri, nefndi hann þann möguleika á fundi í Seðlabankanum með Halldóri Ásgrímssyni og Geir H. Haarde. Eftir páskakreppuna vorið 2006 var kyrrt að kalla í eitt ár, en undir árslok 2007 nefndi Davíð aftur þennan möguleika á fundi í Þjóðmenningarhúsinu með Geir H. Haarde, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Árna M. Mathiesen, og fyrtist Þorgerður Katrín við. Árið 2008 gengu seðlabankastjórarnir þrír hvað eftir annað á fund ráðherra til að láta í ljós áhyggjur sínar af bönkunum, eins og rakið er í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þótt Geir H. Haarde forsætisráðherra og Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra deildu þessum áhyggjum með seðlabankastjórunum, reis Samfylkingin öndverð við. Hún vildi ekki hlusta á neitt, sem kæmi frá Davíð, jafnvel þótt hinir seðlabankastjórarnir tveir, báðir gamalreyndir bankamenn, tækju undir með honum (en í bók sinni lætur Øygard eins og þeir séu ekki til). Eftir einn fundinn skrifaði formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg S. Gísladóttir, hjá sér, að hann hefði verið „eins manns útaustur“. Hún sagði raunar líka í Fréttablaðinu 4. september 2008, mánuði fyrir bankahrun, að bankarnir ættu að halda áfram innlánasöfnun erlendis.

Ástarbréfin

Øygard verður tíðrætt um lausafjárfyrirgreiðslu Seðlabankans við viðskiptabankana þrjá síðustu misserin fyrir bankahrun, ástarbréfin svokölluðu, eins og Davíð Oddsson kallaði þau, og er á honum að skilja, að Seðlabankinn hefði átt að hætta henni eða setja strangari skilyrði fyrir henni. En Seðlabankinn setti sömu skilyrði fyrir lánum til bankanna og seðlabankar í öðrum löndum og raunar ívið strangari, því að hann tók aðeins við skráðum bréfum að veði. Bandaríski seðlabankinn tók jafnvel um skeið við hlutabréfum (mestu áhættunni) og hinn evrópski við óskráðum bréfum. Því má ekki heldur gleyma, að ársreikningar bankanna voru áritaðir af virtum endurskoðunarfyrirtækjum, og matsfyrirtæki höfðu gefið þeim háar einkunnir. Hefði Seðlabankinn krafist traustari veða en evrópski seðlabankinn, þá hefðu fjármálamarkaðir umsvifalaust skilið það sem vantraust á bankana og þeir fallið samdægurs. Raunar virðist Øygard skilja þetta, því að hann skrifar (bls. 56): „Svipuð úlfakreppa sótti á stjórnvöld: átti maður að snarhemla þegar það eitt og sér gat valdið árekstrinum sem maður var að reyna að afstýra?“ Sá var kjarni málsins. Undir lok ársins 2007 stóðu bankarnir, stjórnvöld og seðlabanki frammi fyrir afarkostum: Þeir, sem bregðast við, eru glataðir; þeir, sem ekki bregðast við, eru glataðir. You are damned if you do; you are damned if you don’t.

Hið sama átti við um minnkun íslenska bankakerfisins. Með því hlýtur aðallega að vera átt við flutning höfuðstöðva bankanna til annarra landa eða sölu eigna í öðrum löndum. Þótt Øygard minnist hvergi á það, kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, að þáverandi seðlabankastjórar lögðu til við bankana, að höfuðstöðvar Kaupþings yrðu færðar til útlanda, að Landsbankinn flytti Icesave-reikningana úr útbúum í dótturfélög og að Glitnir seldi hinn trausta banka sinn í Noregi. Við þetta hefði bankakerfið minnkað verulega. En þegar komið var fram á árið 2008, hefði líklega enginn erlendur seðlabanki viljað taka við Kaupþingi á sitt umsjónarsvæði, bresk stjórnvöld settu óaðgengileg skilyrði fyrir flutningi Icesave-reikninganna í dótturfélag, og ekki hefði fengist nógu hátt verð fyrir norska Glitni. Auk þess var Seðlabankinn ekki eftirlitsaðili bankanna, heldur Fjármálaeftirlitið. Þess vegna voru vinsamleg tilboð seðlabankastjóra Svíþjóðar og Bretlands, sem Øygard nefnir, til Seðlabankans um aðstoð við að minnka bankakerfið aðeins kurteisistal.

Hvers vegna var Íslandi úthýst?

Øygard bendir réttilega á, að íslensku bankarnir fóru mjög geyst, allt of geyst. Margvísleg falin kerfislæg áhætta stafaði af miklum innbyrðis tengslum eigenda þeirra og helstu skuldunauta og þá sérstaklega Baugsveldisins (bls. 73). Það voru líka reginmistök, þegar Kaupþing ætlaði í árslok 2007 að kaupa hollenska bankann NIBC (bls. 91). En Øygard hefði mátt nefna þá niðurstöðu þeirra Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar í bók, sem hann studdist þó talsvert við, að líklega hefðu eignasöfn íslensku bankanna þriggja verið svipuð að gæðum og eignasöfn erlendra banka almennt. Í því sambandi er umhugsunarefni, að þeir bresku bankar í eigu Íslendinga, sem gerðir voru upp í eðlilegu ferli, en ekki á brunaútsölu, Heritable og KSF, reyndust eiga ríflega fyrir skuldum. Og þótt íslenska bankakerfið væri stórt í hlutfalli við landsframleiðslu, var það minna en bankakerfi Sviss (tíföld landsframleiðsla) og Skotlands (tólfföld landsframleiðsla). Á þeim ellefu árum, sem liðin eru frá bankahruninu, hefur líka komið í ljós, að margir erlendir bankar voru nærri því í fjármálakreppunni að falla, til dæmis UBS í Sviss og Danske Bank í Danmörku. Það, sem bjargaði þeim, var, að seðlabankar landa þeirra fengu lausafjárfyrirgreiðslu frá bandaríska seðlabankanum. Ein mikilvægasta spurningin um bankahrunið er því: Hvers vegna var Íslandi neitað um aðstoð, sem önnur lönd, þar á meðal Sviss og Svíþjóð, fengu?

Øygard bar þessa spurningu einmitt upp við Timothy Geithner, bankastjóra seðlabankans í New York (sem sá um samskipti við útlönd). Lítið er því miður á svörunum að græða (bls. 114–116). Geithner og aðrir bandarískir seðlabankamenn sögðu Øygard, að til þess að mynda traust hefði Ísland þurft miklu meiri aðstoð en farið var fram á, en Bandaríkin hefðu auk þess enga sérstaka hagsmuni af því að bjarga íslensku bönkunum, þar eð viðskipti þeirra í Bandaríkjunum hefðu verið lítil. Er þetta trúlegt? Ef gjaldeyrisskiptasamningur upp á 2–3 milljarða dala var of lítill, þá hefði verið hægðarleikur fyrir bandaríska seðlabankann að gera þess í stað samning upp á 10 milljarða dala. Norðurlöndin þrjú, sem Geithner gerði gjaldeyrisskiptasamninga við, voru ekki heldur kerfislega mikilvæg, eins og hann viðurkenndi sjálfur í viðtalinu við Øygard (bls. 115). Af hverju var Svíþjóð, sem aldrei hafði verið bandamaður Bandaríkjanna, hjálpað, en ekki Íslandi, sem hafði lagt land undir mikilvæga bandaríska herstöð í röska hálfa öld? Sú ákvörðun að taka ekkert tillit til stjórnmálasjónarmiða, heldur fela skrifstofufólki útreikninga, var sjálf í eðli sínu stjórnmálaleg. Á meðan Ísland hafði verulegt hernaðarlegt gildi fyrir Bandaríkin, hefðu þau áreiðanlega ekki úthýst því. En eftir að Kalda stríðinu lauk, töldu bandarísk stjórnvöld Ísland ekki lengur skipta máli.

Øygard ber saman Sviss og Ísland svofelldum orðum: „Svisslendingar voru þrjú hundruð ár að byggja upp bankageira sem nam áttfaldri vergri landsframleiðslu (VLF). Það tók Íslendinga fimm ár að nífalda VLF“ (bls. 50). Talan um hlutfallslega stærð íslenska bankakerfisins er að vísu ekki alveg rétt, eins og Sigríður Benediktsdóttir, Jón Daníelsson og Gylfi Zoëga hafa bent á. Nákvæmari tala er 7,4 sinnum verg landsframleiðsla. Og spyrja má, ef svissneskir bankar bjuggu að þrjú hundruð ára reynslu, af hverju þeir lentu þá í slíkum erfiðleikum, að bandaríski seðlabankinn varð að bjarga þeim.

Varnargarðurinn og Icesave-deilan

Sennilega varð það Íslendingum til góðs, að þeir neyddust til að bjarga sér sjálfir. Að ráði seðlabankastjóranna þriggja var varnargarðsleiðin (ring fencing) notuð. Hún fólst í því að reyna að bjarga ríkissjóði, sparifjáreigendum og greiðslumiðluninni, en láta aðra kröfuhafa bankanna og eigendur hlutabréfa í þeim sigla sinn sjó. Þegar Davíð Oddsson sótti ríkisstjórnarfund 30. september 2008, lagði hann til, að sú leið yrði farin, en ráðherrar Samfylkingarinnar tregðuðust við í viku, og varð loks að senda einkaþotu eftir sérfræðingum JP Morgan, sem tókst að sannfæra ráðherrana um þann kost, og voru þá neyðarlögin samþykkt 6. október. En Øygard virðist eitthvað hafa misskilið neyðarlögin, því að hann segir Breta hafa orðið reiða „vegna illrar meðferðar á breskum viðskiptavinum íslensku bankanna“. Síðan segir hann: „Þeir reyndu að bregðast skjótt við og stöðva færslur frá íslensku útibúunum í Bretlandi til Íslands, en þá skorti lagaheimildir til þess“ (bls. 138). Þetta er alrangt, eins og ég bendi á í skýrslu, sem Øygard vísar þó til í heimildaskrá (bls. 413). Breskir innstæðueigendur fengu sama forgang í bú Landsbankans og íslenskir. Og breska fjármálaeftirlitið hafði þegar 3. október komið í veg fyrir færslur frá útibúi Landsbankans í Bretlandi til Íslands með sérstakri tilskipun, sem bannaði allar slíkar færslur nema með skriflegu leyfi, og hafði bankinn, sem annaðist slíkar færslur, Barclays, verið látinn vita af tilskipuninni. Notkun hryðjuverkalaganna var því óþörf.

Þótt Øygard gleypi við skýringum bresku Verkamannaflokksstjórnarinnar á hörkunni við Íslendinga, var hún með ólíkindum. Kaupþing safnaði innlánum á sama hátt í Þýskalandi og Landsbankinn gerði í Bretlandi, um útibú, ekki dótturfélag. Hvers vegna beittu Þjóðverjar þá ekki sömu hörku og Bretar? Ég varpa fram þeirri tilgátu í skýrslu minni, að þeir Gordon Brown forsætisráðherra og Alistair Darling fjármálaráðherra, sem báðir voru frá Skotlandi, hafi ætlað sér að sýna Skotum, hversu varasamt sjálfstæði gæti orðið. Skotland var eitt helsta vígi Verkamannaflokksins, en skoskir þjóðernissinnar sóttu þar mjög að flokknum og töluðu um „velsældarbogann“ frá Írlandi um Ísland til Noregs. Darling sagði af lítt dulinni meinfýsi í endurminningum sínum, að nú væri hann orðinn „gjaldþrotabogi“. Og hann stjórnaði kosningabaráttu sambandssinna fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2014, þar sem eitt viðkvæðið var, að eins gæti farið fyrir Skotlandi og Íslandi, ef samstarfið við Englandsbanka væri rofið.

Þótt Øygard fjölyrði síðan í bók sinni um vinarþel Norðurlandaþjóða í garð Íslendinga, var framkoma þeirra einnig ámælisverð. Þær studdu Breta í Icesave-deilunni, þegar þeir beittu Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í því skyni að neyða Íslendinga til að viðurkenna skuld, sem þeir höfðu aldrei stofnað til. Ólíkt höfðust Pólverjar og Færeyingar að, sem veittu Íslendingum lán án nokkurra skilyrða og á hagstæðum kjörum. Og í Noregi hirtu kaupsýslumenn í nánu sambandi við stjórnmálamenn eigur íslensku bankanna á smánarverði, meðal annars vegna þess að norski seðlabankinn neitaði að veita dótturfélögum íslensku bankanna eðlilega lausafjárfyrirgreiðslu, þótt þau væru norsk félög, skráð í Noregi og greiddu þar skatta.

Missagnir

Øygard talaði við fjölda manns, þegar hann var að skrifa bók sína, þar á meðal nokkrar landskunnar rægitungur. Ýmsar missagnir kunna þess vegna að hafa slæðst inn í bók hans, þótt hér verði fátt eitt nefnt. Hann skrifar: „Lán frá Kaupþingi fjármagnaði 70 prósent af kaupverði Landsbankans“ (bls. 44). Hann á að vísu við Búnaðarbankann, sem síðar rann inn í Kaupþing, en það er ekki aðalatriðið. Lánið frá Búnaðarbankanum, sem Samson, kaupandi 45,8% hlutar í Landsbankanum, fékk í apríl 2003, var 35% kaupverðsins, og það var að fullu greitt þegar árið 2005. Að öðru leyti greiddi Samson fyrir bankann með eigin fé í tveimur greiðslum. Øygard segir, að einn bréfavöndull Landsbankans, Avens, sem lagður var inn fyrir evruláni frá seðlabanka Lúxemborgar, hafi verið „einn þriðji bankainnstæður og tveir þriðju verðbréf“ (bls. 274). Hér er eitthvað málum blandið. Bankainnstæður eru kröfur á banka, skuldir þeirra við innstæðueigendur, svo að þær hafa ekki verið veð. Veðin í Avens-vöndlinum voru að mestu leyti skuldabréf með ríkisábyrgð og að einhverju leyti bankabréf. Øygard segir, að kaup Mohammed bin Khalifa al-Thani á hlutabréfum í Kaupþingi rétt fyrir bankahrunið hafi verið „með öllu áhættulaus“ (bls. 80), því að Kaupþing hafi lánað honum fyrir viðskiptunum. En Al-Thani skrifaði undir sjálfskuldarábyrgð og gerði að lokum samkomulag við bú Kaupþings um að greiða því 3,5 milljarða króna.

Stundum verður frásögn Øygards ruglingsleg. Hann lýsir til dæmis viðskiptum Kaupþings og Deutsche Bank, sem virðast hafa átt að stuðla að lækkun skuldatryggingarálags, en segir um leið frá því, að Kaupþing hafi greitt Deutsche Bank 50 milljónir evra af neyðarláninu, sem það fékk frá Seðlabankanum 6. október. Þetta var þó alveg sitt hvað (bls. 94–95). Øygard fullyrðir ranglega, að Kaupþing og Landsbankinn hafi notað dótturfélög til að safna innlánum erlendis (bls. 137). Í Bretlandi notaði Landsbankinn til þess útbú, ekki dótturfélag, eins og raunar kemur skömmu síðar fram í textanum. Þetta var auðvitað aðalatriði í Icesave-deilunni. Øygard fer einnig rangt með nafn þess starfsmanns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem sá um að hrinda áætlun sjóðsins í framkvæmd. Hann er Dani og heitir Poul Thomsen, ekki Thompson (bls. 165). Øygard segir margt um Bakkavararbræður. En hann virðist ekki hafa kynnt sér sögu þeirra nógu vel. Það var Exista, sem átti Bakkavör, en ekki öfugt (bls. 332). Og Bakkavör féll ekki, heldur lifir enn góðu lífi (bls. 333).

Endurreisnin

Øygard reynir að skrifa bók sína í aðgengilegum rabbstíl, en hann er ekki leikinn rithöfundur, svo að honum tekst það misjafnlega. Stundum er erfitt fyrir lesandann að halda þræði, til dæmis á bls. 373, þar sem eitthvað virðist vanta inn í frásögnina. Í lokin leitar Øygard skýringa á hinni skjótu endurreisn íslenska hagkerfisins. Nefnir hann aðallega þrennt, að reisa varnargarð, þegar lánardrottnar og skuldunautar reyna að flytja vanda sinn yfir á þjóðina, að gera allt í einu lagi (ef ég skil hann rétt, en skrif hans um það eru afar óskýr) og að stuðla að hagvexti og atvinnuþátttöku, en þar skari Íslendingar fram úr (bls. 397). Øygard hefur rétt fyrir sér um varnargarðinn, enda lagði Seðlabankinn áherslu á þá hugmynd, og eftir nokkrar tafir var hún framkvæmd góðu heilli. En tvennt annað réð áreiðanlega miklu um hina skjótu endurreisn. Annað var það úrslitaatriði, að íslenska hagkerfið hvíldi á traustum stoðum, ekki síst vegna hinna víðtæku umbóta í frjálsræðisátt árin 1991–2007. Hitt var, að ríkisstjórninni 2013–2016 tókst að ná hagstæðum samningum við kröfuhafa gömlu bankanna, svo að uppgjör við þá raskaði ekki jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

(Ritdómur í Morgunblaðinu 30. nóvember 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir