Sunnudagur 08.12.2019 - 06:33 - Rita ummæli

Poitiers og Vínarborg: Múslimar stöðvaðir

Um miðjan nóvember hélt ég fyrirlestra í tveimur Evrópuborgum, um rithöfundinn Jan Valtin í Poitiers og um hagfræðinginn Friedrich A. von Hayek í Vínarborg. Þessar tvær borgir eiga eitt sameiginlegt: Þar var Evrópu bjargað undan múslimum, 732 og 1683.

Á þeim hundrað árum, sem liðið höfðu frá láti Múhameðs spámanns 632, höfðu múslimar lagt undir sig Miðausturlönd, Norður-Afríku og Íberíuskagann. Frá Spáni héldu þeir til Frakklands. Árið 732 stefndi fjölmennur her þeirra, um 80 þúsund manns, í átt til Poitiers í Mið-Frakklandi og rændu á leiðinni öllu því, sem hönd á festi. Foringi liðsins var Abdul Rahman Al Ghafiqi. Frakkland átti þá að heita undir stjórn Mervíkinga, en bryti konungs, Karl Martel, réð mestu og fór fyrir varnarliði Frakka, um 30 þúsund manns. Martel tókst með fótgönguliði sínu að koma þungvopnuðu riddaraliði múslima á óvart 10. október, og þegar kvisaðist, að hermenn hans væru að láta greipar sópa um hinn dýrmæta ránsfeng múslimanna, stukku þeir margir út úr bardaganum. Frekari flótti brast í liðið, eftir að Abdul Rahman hafði verið veginn. Martel sendi skilaboð af vígvellinum með bréfdúfu, og sagði þar: „Sarracenti obtriti.“ Serkirnir sigraðir.

Liðu nú aldir. Árið 1683 stjórnaði soldáninn í Miklagarði Balkanskaga, Miðausturlöndum og Norður-Afríku og hugðist færa veldi sitt lengra til norðurs og hertaka Vínarborg. Settist 170 þúsund manna lið undir forystu Kara Mustafa Pasha stórvesírs um borgina í júlí, en innan múranna var 15 þúsund manna varnarsveit. En nú gerðu keisari Þýskalands og konungur Póllands bandalag í fyrsta skipti. Jóhann Sobieski Póllandskonungur skundaði suður með 85 þúsund manna lið og birtist í útjaðri Vínarborgar 11. september. Múslimaherinn réðst á her Sobieskis snemma næsta dag, en varð að láta undan síga, þegar pólskt riddaralið bættist við fótgönguliðið, sem farið hafði fyrst fram, og síðan geystist austurríska varnarliðið út fyrir borgarmúrana og bættist í hópinn. Flýðu múslimar hver um annan þveran, og féllu um 15 þúsund þeirra í orrustunni, en innan við fimm þúsund kristnir hermenn. Mustafa Pasha var kyrktur að skipun soldánsins, en Jóhann Sobieski hnikaði við frægum orðum Sesars og mælti: Veni, vidi, Deus vicit. Ég kom, ég sá, en Guð sigraði.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. desember 2019. Málverkið er af orrustunni við Poitiers eftir Charles de Steuben. Karl Martel situr fákinn, en Abdul Rahman sveiflar sveðju.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir