Laugardagur 21.12.2019 - 12:10 - Rita ummæli

Til hvers eru kosningar?

Íslendingar fylgjast miklu betur með stjórnmálum í Bretlandi og Bandaríkjunum en á meginlandi Norðurálfunnar, og er það eflaust vegna enskunnar, sem við höfum betur á valdi okkar en flest önnur mál, en þessi lönd eru líka nálægt okkur landfræðilega og stjórnmálalega. Bandaríkin hafa við okkur varnarsamning, og Bretland er einn stærsti viðskiptavinur okkar.

Þegar gengið er til kosninga í þessum löndum, spretta iðulega fram spekingar uppi á Íslandi og hneykslast á úrslitum, því að í hvorugu landinu tíðkast hlutfallskosningar. Donald Trump hlaut til dæmis færri atkvæði samanlagt en Hillary Clinton í bandaríska forsetakjörinu 2016. En tilgangur forsetakjörsins var ekki að mæla almennt fylgi frambjóðendanna, heldur kaus hvert af fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna kjörmenn sína eftir misjöfnum reglum (sum jafnvel hlutfallskosningu), og síðan valdi kjörmannasamkoma forsetann. Bandaríkin eru ekki eitt kjördæmi, og það væri andstætt eðli þeirra að vera það. Það er bandalag fimmtíu ríkja.

Í Bretlandi eru einmenningskjördæmi, og það veldur því, að stærsti flokkurinn getur fengið miklu hærra hlutfall á þingi en talið í atkvæðum, eins og gerðist nú í desemberkosningunum 2019. Kerfinu er ekki ætlað að endurspegla heildarfylgi hvers flokks, heldur sendir hvert kjördæmi einn mann á þing. Einn stór kostur er við þetta kerfi. Hann er, að ábyrgð stjórnenda og kostir um að velja verða miklu skýrari.

Tvö lýðræðishugtök eru helst notuð á Vesturlöndum. Annað er, að þingið eigi að endurspegla sem nákvæmast þjóðarviljann. Margvísleg vandkvæði eru á að gera það, en vissulega á þá hlutfallskosning við. Hitt hugtakið er, að lýðræði sé friðsamleg leið til að skipta um valdhafa, séu kjósendur óánægðir með þá. Þar á betur við fyrirkomulagið á Bretlandseyjum, enda á Clement Attlee að hafa sagt, að höfuðkosturinn við lýðræðið væri, að losna mætti við valdhafana án þess að þurfa að skjóta þá.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. desember 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir