Laugardagur 28.12.2019 - 11:40 - Rita ummæli

Hundur Rousseaus

Svo frægur var árekstur heimspekinganna Karls R. Poppers og Ludwigs Wittgensteins í Cambridge 25. október 1946, að um hann hefur verið skrifuð heil bók, Eldskörungur Wittgensteins (Wittgenstein’s Poker), sem ég hef minnst hér á. Sömu höfundar, David Edmonds og John Eidinow, hafa skrifað bók um annan frægan árekstur, að þessu sinni milli Rousseaus og Humes. Heitir hún Hundur Rousseaus (Rousseau’s Dog).

Þótt sumir teldu Jean-Jacques Rousseau vitring, má efast um það, en hitt er rétt, að hann var sérvitringur. Hann skrifaði bók um uppeldismál, en sendi þau fimm börn, sem hann gat með lagskonu sinni, á munaðarleysingjahæli. Hann kom undantekningarlaust illa fram við þá, sem veittu honum aðstoð í margvíslegum hrakningum hans, og virðist hafa verið haldinn ofsóknaræði og vænisýki. Ég hef bent á það hér, að hann vék að Íslendingum í ritum sínum. Sagði hann þá þeirra, sem sendir væru í nám til Kaupmannahafnar, sakna svo hins náttúrlega lífs ættjarðarinnar, að ýmist vesluðust þeir upp þar ytra eða drukknuðu, þegar þeir reyndu að synda heim!

David Hume var hins vegar raunsær og glaðsinna, lét fátt raska heimspekilegri ró sinni og hrakti hátimbruð hugmyndakerfi með skarplegum rökum, en naut um leið lífsins að spjalli með vinum yfir glasi af víni. Hann var um nokkurt skeið sendiráðsritari í París og var þá hvers manns hugljúfi og kallaður „Le bon David“, sá góði Davíð. Í árslok 1765 var hann að tygja sig til heimferðar, og þá birtist Rousseau í París, en átti á hættu handtöku fyrir skrif sín. Hume aumkvaði sig yfir Rousseau, tók hann með sér yfir Ermarsund í janúar 1766 og kom honum fyrir uppi í sveit. Hafði d’Holbach barón þó varað Hume við því, að hann væri að ala nöðru við brjóst sér.

Í byrjun fór vel á með heimspekingunum, en síðan hljóp hundur í Rousseau. Honum þótti tefjast, að Hume útvegaði sér lífeyri frá konungi, sem hann taldi sig eiga skilið, og komst hann loks að þeirri niðurstöðu, að Hume væri höfuðpaur í samsæri gegn sér. Hume tók því fálega og skrifaði hvert bréfið af öðru sér til varnar. Rousseau flýði loks undan samsærinu aftur yfir Ermarsund, en upplýstir Evrópubúar, sem þekktu báða af bókum þeirra, stóðu á öndinni yfir þessum ósköpum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. desember 2019. Myndin er af Hume.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir