Laugardagur 04.01.2020 - 09:48 - Rita ummæli

Heimur batnandi fer

Haustið 2014 gaf Almenna bókafélagið út bók metsöluhöfundarins Matts Ridleys, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist). Ridley er dýrafræðingur að mennt, var um skeið vísindaritstjóri Economist, en situr í lávarðadeild Bretaþings. Hélt hann því fram, að kjör mannkyns hefðu snarbatnað síðustu tvær aldir. Á dögunum birti Ridley grein í Spectator um þróunina á þessum áratug.

Nú hefur í fyrsta skipti í mannkynssögunni hlutfall þeirra, sem búa við sára fátækt, farið niður fyrir 10 af hundraði. Tekjudreifing á heimsvísu hefur orðið jafnari, aðallega vegna þess að í Asíu og Afríku hefur hagvöxtur verið örari en í Evrópu og Norður-Ameríku. Barnadauði hefur aldrei verið minni. Um hungursneyðir heyrist vart lengur. Mýrakalda, lömunarveiki og hjartasjúkdómar eru allt orðið fátíðara.

Nú notar mannkynið minna á mann af alls konar efnum vegna tækniframfara og endurnýtingar. Í Bretlandi minnkaði notkun alls konar efna (lífrænna efna, málma, jarðefna og jarðefnaeldsneytis) á mann um þriðjung tímabilið 2000–2017. Snjallsíminn hefur leyst af hólmi myndavélina, útvarpið, vasaljósið, áttavitann, landabréfið, úrið, geislaspilarann, dagblaðið og spilin. Ljósaperur nota miklu minna rafmagn en áður, skrifstofur miklu minni pappír.

Tækniframfarir í landbúnaði hafa í för með sér, að minna land þarf nú til beitar og ræktunar, og hafa skógar að sama skapi stækkað í vestrænum velsældarlöndum og villidýr snúið þangað aftur. Ridley telur hið mesta óráð að reyna að minnka orkunotkun með því að hækka orkuverð upp úr öllu valdi. Völ sé á nægri ódýrri orku í kjarnorkuverum.

Þess má líka geta, þótt Ridley minnist ekki á það í pistli sínum, að mjög hefur hægt á fólksfjölgun í heiminum. Martröðin um sífellt fleira fólk að eltast við sífellt færri auðlindir á sér litla stoð í veruleikanum. Draumurinn um betra og grænna mannlíf getur hins vegar ræst.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. janúar 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir