Mánudagur 20.01.2020 - 01:25 - Rita ummæli

Kínversk ekki-speki

Fræg er sagan af því, þegar Bandaríkjamenn spurðu Zhou Enlai, einn af leiðtogum kínverskra kommúnista, að því árið 1971, hvað hann segði um frönsku stjórnarbyltinguna. „Það er of snemmt um það að segja,“ svaraði Zhou. Þetta hefur verið haft til marks um djúpa kínverska speki, þegar horft er langt fram og aftur í tímann. En það er misskilningur, eins og kom fram í Financial Times 10. júní 2011. Túlkurinn við þetta tækifæri, Charles W. Freeman, upplýsti, að Zhou hefði verið að tala um stúdentaóeirðirnar í París 1968.

Sagan er samt merkileg fyrir tvennt. Í fyrsta lagi voru kommúnistarnir, sem stjórnuðu Kína, engir djúpvitringar, heldur þröngsýnir og grimmir ofstækismenn. Eftir að þeir höfðu sigrað í borgarastríði 1949, hófust fjöldaaftökur um allt Kína, sannkallað blóðbað. Milljónir manna voru drepnar. Og í „Stóra stökkinu“ fram á við árin 1958–1962 féllu 44 milljónir manna úr hungri, eins og sagnfræðingurinn Frank Dikötter hefur sýnt fram á, en hann hefur rannsakað kínversk skjalasöfn, sem áður voru lokuð.

Í öðru lagi var alls ekki of snemmt um þetta að segja. Þegar í nóvemberbyrjun 1790 hafði breski stjórnmálaskörungurinn Edmund Burke gefið út Hugleiðingar um Frönsku byltinguna (Reflections on the Revolution in France), þar sem hann kvað hana dæmda til að mistakast. Frönsku byltingarmennirnir teldu, að allt vald ætti að vera í hendi lýðsins, og það merkti ekki annað en að allt vald ætti að vera í hendi þeirra, sem teldu sig hafa umboð lýðsins, en þeir væru sökum reynsluleysis og ofstækis síst allra til mannaforráða fallnir. Byltingarmennirnir ætluðu að rífa allt upp með rótum, en það hlyti að enda með ósköpum, enda hefðu þeir óljósar hugmyndir um, hvað taka ætti við. Breskt stjórnarfar einkenndist hins vegar af því, sagði Burke, að valdinu væri dreift til margra aðila, og þess vegna myndaðist jafnvægi milli þeirra og framvindan yrði hæg og örugg.

Allt gekk fram, sem Burke sagði. Ógnarstjórn hófst í Frakklandi, og fallöxin hafði ekki undan. Loks hrifsaði herforingi frá Korsíku völdin og krýndi sjálfan sig keisara.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. janúar 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir