Sunnudagur 26.01.2020 - 06:09 - Rita ummæli

Hvers vegna varð byltingin?

Eðlismunur var á byltingunni dýrlegu í Bretlandi 1688 og byltingunni í Frakklandi 1789, eins og breski stjórnskörungurinn Edmund Burke benti á í stórmerku riti, sem kom út þegar árið 1790. Hin breska var gerð til að varðveita arfhelg réttindi Breta og stöðva konung, Jakob II., sem vildi taka sér einræðisvald að fyrirmynd starfsbróðurs síns handan Ermarsunds, Lúðvíks XIV. Hin franska var gerð í landi, þar sem konungur hafði um langt skeið haft einræðisvald, en nú ætluðu óreyndir málskrafsmenn að skipta honum út fyrir Lýðinn, Almannaviljann.

Íslendingar þekkja aðallega skoðanir marxista á frönsku byltingunni, en árin 1972–1973 kom út tveggja binda verk Alberts Mathiez um hana í þýðingu Lofts Guttormssonar. Mathiez hélt því fram eins og aðrir marxistar, að franska byltingin hefði verið barátta tveggja stétta, aðals og borgara. Hún hefði verið umbreyting alls skipulagsins. Mathiez gerði lítið úr ógnarstjórninni 1793–1794, þegar konungur og drottning ásamt mörgum öðrum voru leidd á höggstokkinn, en aðrir létu lífið í götuóeirðum eða uppreisnum úti á landsbyggðinni. Sumum var jafnvel drekkt í Leiru, Loire-fljóti. Að dómi Mathiez var hetja byltingarinnar jakobíninn Maximilien Robespierre, en konungsfjölskyldan hefði hlotið makleg málagjöld fyrir ráðabrugg með óvinum Frakklands.

Nýrri rannsóknir sagnfræðinganna Alfreds Cobbans, François Furets og Simons Schama sýna, að skoðun Burkes var miklu nær lagi. Byltingin var ekki umbreyting alls skipulagsins, enda var Frakkland árið 1830 furðulíkt Frakklandi árið 1789. Hún var tilfærsla valds, stjórnarbylting, ekki stéttabarátta. Talsverður hreyfanleiki hafði verið fyrir hana milli aðals og borgara, og raunar voru fæstir þeirra, sem sátu í málstofu borgara eða „þriðju stéttar“, framkvæmdamenn eða fjármagnseigendur. Byltingarmennirnir voru innblásnir af óraunhæfum hugmyndum um beina stjórn Lýðsins og síður en svo fulltrúar einnar stéttar. Þeir ætluðu að fylla upp í það tómarúm, sem einræðisvald konungs hafði skilið eftir, en studdust ekki við reynsluvit kynslóðanna eins og breskir umbótamenn gátu gert. Ógnarstjórnin var afleiðing af reynsluleysi þeirra og ranghugmyndum, ekki eðlilegt viðbragð við hættu að utan.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. janúar 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir