Laugardagur 01.02.2020 - 16:44 - Rita ummæli

Fleira skilur en Ermarsund

Þegar klukkan sló tólf á miðnætti í París að kvöldi 31. janúar 2020, sagði Hið sameinaða konungsríki Stóra Bretlands og Írlands skilið við Evrópusambandið, en auk þess standa nú utan sambandsins Noregur, Sviss og Ísland ásamt nokkrum ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu.

Ermarsund skilur Bretland og Frakkland. En fleira skilur en þetta sund. Í byltingunni dýrlegu 1688 völdu Bretar leið stjórnarskrárbundins lýðræðis, þótt stjórnarskrá þeirra sé að vísu ekki fólgin í neinu einu skjali, heldur ótal fastmótuðum hefðum og venjum. Í stað þess að fela einum aðila öll völd var þeim dreift á marga.

Í frönsku byltingunni 1789 völdu Frakkar hins vegar leið ótakmarkaðs lýðræðis og ruddu út öllu arfhelgu, brutu það og brömluðu. Lýðurinn skyldi þess í stað öllu ráða, en eins og írski stjórnskörungurinn Edmund Burke benti á merkti það aðeins, að þeir, sem virtust tala í nafni Lýðsins, fengju öllu ráðið. Eftir byltinguna hefur tvisvar staðið keisaraveldi í Frakklandi, tvisvar konungdæmi, en lýðveldin hafa verið fimm talsins.

Í fyrirlestri árið 1819 reyndi franski rithöfundurinn Benjamin Constant að skýra, hvers vegna franska byltingin mistókst ólíkt hinni bresku: Byltingarmennirnir hefðu ekki skilið, að frelsi nútímamanna yrði að vera allt annars eðlis en frelsi fornmanna. Frelsið væri nú á dögum frelsi til að ráða sér sjálfur að teknu tilliti til annarra, en hefði að fornu verið réttur til að taka þátt í ákvörðunum heildarinnar.

Constant benti á, að nútíminn snerist um verslun, þar sem menn fengju það, sem þeir sæktust eftir, með frjálsum kaupum á markaði, en áður fyrr hefðu þeir reynt að afla þess með hernaði. Ríki væru orðin svo fjölmenn, að ekki yrði komið við beinu lýðræði. Dreifing valdsins og fulltrúastjórn væru því nauðsynleg.

Og enn stendur valið um dreifingu valdsins og gagnkvæmt aðhald ólíkra afla, sem er stjórnmálahefð Breta, og miðstýringu án verulegs aðhalds, sem er stjórnmálahefð Frakka.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. febrúar 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir