Þegar klukkan sló tólf á miðnætti í París að kvöldi 31. janúar 2020, sagði Hið sameinaða konungsríki Stóra Bretlands og Írlands skilið við Evrópusambandið, en auk þess standa nú utan sambandsins Noregur, Sviss og Ísland ásamt nokkrum ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu.
Ermarsund skilur Bretland og Frakkland. En fleira skilur en þetta sund. Í byltingunni dýrlegu 1688 völdu Bretar leið stjórnarskrárbundins lýðræðis, þótt stjórnarskrá þeirra sé að vísu ekki fólgin í neinu einu skjali, heldur ótal fastmótuðum hefðum og venjum. Í stað þess að fela einum aðila öll völd var þeim dreift á marga.
Í frönsku byltingunni 1789 völdu Frakkar hins vegar leið ótakmarkaðs lýðræðis og ruddu út öllu arfhelgu, brutu það og brömluðu. Lýðurinn skyldi þess í stað öllu ráða, en eins og írski stjórnskörungurinn Edmund Burke benti á merkti það aðeins, að þeir, sem virtust tala í nafni Lýðsins, fengju öllu ráðið. Eftir byltinguna hefur tvisvar staðið keisaraveldi í Frakklandi, tvisvar konungdæmi, en lýðveldin hafa verið fimm talsins.
Í fyrirlestri árið 1819 reyndi franski rithöfundurinn Benjamin Constant að skýra, hvers vegna franska byltingin mistókst ólíkt hinni bresku: Byltingarmennirnir hefðu ekki skilið, að frelsi nútímamanna yrði að vera allt annars eðlis en frelsi fornmanna. Frelsið væri nú á dögum frelsi til að ráða sér sjálfur að teknu tilliti til annarra, en hefði að fornu verið réttur til að taka þátt í ákvörðunum heildarinnar.
Constant benti á, að nútíminn snerist um verslun, þar sem menn fengju það, sem þeir sæktust eftir, með frjálsum kaupum á markaði, en áður fyrr hefðu þeir reynt að afla þess með hernaði. Ríki væru orðin svo fjölmenn, að ekki yrði komið við beinu lýðræði. Dreifing valdsins og fulltrúastjórn væru því nauðsynleg.
Og enn stendur valið um dreifingu valdsins og gagnkvæmt aðhald ólíkra afla, sem er stjórnmálahefð Breta, og miðstýringu án verulegs aðhalds, sem er stjórnmálahefð Frakka.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. febrúar 2020.)
Rita ummæli