Laugardagur 15.02.2020 - 12:41 - Rita ummæli

Bastiat og brotna rúðan

Franski rithöfundurinn Frédéric Bastiat er einn snjallasti talsmaður viðskiptafrelsis fyrr og síðar. Ein ritgerð hans heitir „Það, sem við sjáum, og það, sem við sjáum ekki“. Þar bendir hann á, að athafnir okkar hafa margvíslegar afleiðingar. Ein er strax sýnileg, en aðrar koma síðar fram og dyljast mörgum, en aðalsmerki góðs hagfræðings er að leiða þær líka í ljós.

Bastiat segir dæmisögu máli sínu til stuðnings. Óknyttadrengur brýtur rúðu, og áhorfendur reyna að sefa reiðan föður hans: „Slys eins og þessi knýja áfram framleiðsluna. Allir verða að lifa. Hvað yrði um glerskera, ef aldrei væru brotnar rúður?“ Þessi rök eru ógild, segir Bastiat. Það er rétt, ef sex franka kostar að gera við gluggann, að þeir renna þá til glerskurðar og örva þá iðn. Þetta sjáum við. En það, sem við sjáum ekki, er, að faðir drengsins getur nú ekki notað þessa sex franka til að kaupa sér skó. Heildarniðurstaðan virðist vera, að glerskurður hafi verið örvaður um sem nemur sex frönkum, en aðrar atvinnugreinar misst af hvatningu sem nemur sömu upphæð.

En ávinningur glerskeranna bætir ekki upp tapið fyrir aðrar atvinnugreinar. Nú eyðir faðirinn sex frönkum í að gera við gluggann og nýtur hans síðan eins og hann gerði áður. En hefði slysið ekki orðið, þá hefði hann notað sex franka til að kaupa sér skó og hefði eftir það notið hvors tveggja, rúðunnar og skónna. Heildin hefur tapað því sem nemur verðmæti brotnu rúðunnar.

Í ritgerðinni notar Bastiat margar fleiri dæmisögur til að leiða í ljós, að heildin tapar alltaf á eyðileggingu verðmæta. Enn gera þó sumir þær hugsunarvillur, sem Bastiat bendir á. Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman sagði til dæmis í bloggi sínu 14. september 2001, að hryðjuverkaárásin á tvíburaturnana nokkrum dögum áður gæti örvað atvinnulífið, „ef fólk flykkist út í búð og kaupir vatn í flöskum og niðursuðuvöru“. Og 15. mars 2011 sagði Krugman, að nýlegt kjarnorkuslys í Fukushima gæti örvað alþjóðahagkerfið, enda hefði seinni heimsstyrjöld bundið endi á heimskreppuna!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. febrúar 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, og The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015. Hann hefur síðan gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir