Fyrir viku rakti ég hér hina snjöllu dæmisögu franska rithöfundarins Frédérics Bastiats um brotnu rúðuna, en hana notaði hann til skýra, hvers vegna eyðilegging verðmæta gæti ekki örvað atvinnulífið, eins og sumir héldu fram. Fyrsta íslenska hagfræðiritið, Auðfræði Arnljóts Ólafssonar, sem kom út árið 1880, var að miklu leyti samið upp úr ritum Bastiats, og í Ísafold 25. september 1880 birtist þessi dæmisaga Bastiats staðfærð.
Það fauk í Jón gamla Jónsson, þegar óþekktaranginn sonur hans braut askinn sinn. En nærstaddir hlógu að Jóni og hugguðu hann með því, að peningarnir gengju ekki úr landinu. „Nú fær askasmiðurinn eitthvað að gera. Allir þurfa einhverja atvinnu, og hvað á að verða af askatrénu, sem rekur á Skaganum, ef hann má ekki smíða neitt úr því?“
Þessir viðmælendur Jóns höfðu hins vegar rangt fyrir sér, að sögn Ísafoldar. Ef tvær krónur kostar að smíða nýjan ask, þá segja þeir, að innanlandsiðnaðurinn hafi grætt þá upphæð. Þetta er rétt. Smiðurinn kemur, fær þessar tvær krónur og blessar í huganum drenginn. Þetta sjáum við.
En það, sem við sjáum ekki, er, að Jón gamli hefði getað notað þessar tvær krónur í eitthvað annað, til dæmis folaldaskinn. Hefði sonur hans ekki brotið askinn, þá hefði Jón gamli notið hvors tveggja, asksins og folaldaskinnsins. Hann sjálfur og um leið heildin hefur tapað því sem nemur andvirði asksins, tveimur krónum. Innanlandsiðnaðurinn hefur ekki „neinn hag á því, að askar séu brotnir eða keröldin í búrinu séu mölvuð“. Jón hefði keypt folaldaskinnið fyrir krónurnar tvær.
Í Ísafold er dregin af þessu almenn ályktun: „Mannfélagið bíður skaða af öllum þeim hlutum, sem eru ónýttir til einskis. Þessi sannleikur, sem mun skelfa verndunartollamennina, hljóðar svo: að brjóta, bramla og eyða er ekki það sama og að hvetja alþýðu til nýrra starfa, í stuttu máli: eyðing er ekki ábati.“
Boðskapur Bastiats og lærisveins hans á Ísafold var einfaldur og á enn við: Þegar til langs tíma er litið, verður atvinnulífið ekki örvað með verndartollum eða opinberum styrkjum, heldur með því að leysa úr læðingi krafta einstaklinganna og kosti alþjóðlegrar verkaskiptingar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. febrúar 2020.)
Rita ummæli