Laugardagur 07.03.2020 - 09:31 - Rita ummæli

Róbinson Krúsó og viðarborðið

Franski rithöfundurinn Frédéric Bastiat mælir gegn hvers kyns viðskiptatálmunum af mikilli fimi. Ég hef þegar rifjað hér upp sögur hans af brotnu rúðunni og bænarskrá kertasteyparanna, en þar sýnir hann, hversu fráleitt er að neita sér um þann ávinning, sem hlotist getur af frjálsum viðskiptum. Þriðja sagan er um Róbinson Krúsó á eyðieyjunni.

Bastiat rifjar upp, að Krúsó vill smíða sér viðarborð, en hefur engin ráð til þess önnur en höggva tré, setja það fyrir framan sig og hefla það sæmilega flatt báðum megin með öxi sinni. Þetta tekur hann tvær vikur, og á meðan verður hann að lifa á matarforða sínum, og öxi hans missir bit.

En Bastiat bætir við söguna. Þegar Krúsó er að hefja öxina á loft, rekur hann augun í, að öldurnar hafa kastað viðarborði upp á ströndina. Hann verður hinn fegnasti og ætlar niður á strönd að hirða borðið. Þá man hann skyndilega eftir rökum tollverndarmanna. Ef hann tekur borðið, þá kostar það hann aðeins ferðina og burðinn með borðið. En ef hann gerir sér borð með öxi sinni, þá skapar það atvinnu handa honum í tvær vikur, og hann fær um leið tækifæri til að brýna öxina, jafnframt því sem hann notar matarforða sinn og þarf að útvega sér nýjan. Þess vegna er skynsamlegast að fleygja borðinu aftur í sjóinn.

Vitaskuld er breytni Krúsós fráleit. En Bastiat bendir á, að tollverndarmenn noti jafnan rök af sömu ætt. Þeir vilji tálma innflutning vöru, sem sé ódýrari en hin innlenda. Með því séu þeir að neita sér um þann ávinning, sem reki á fjörur okkar af því, að sumir geti framleitt einhverja vöru ódýrar en við eða landar okkar. Þeir breyta í raun eins og Krúsó, þegar hann fleygir viðarborðinu aftur í sjóinn og hamast þess í stað við að hefla með ófullkomnu verkfæri nýtt viðarborð á tveimur vikum. Bastiat bendir einnig á, að Krúso hefði getað notað þessar tvær vikur til að gera sér lífið þægilegra eða skemmtilegra. Enn eru þeir þó til, sem neita að skilja hagkvæmni verkaskiptingar og frjálsra viðskipta.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. mars 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir