Laugardagur 28.03.2020 - 18:19 - Rita ummæli

Hrollvekja Tocquevilles

Franski heimspekingurinn Alexis de Tocqueville er einn fremsti frjálshyggjuhugsuður Vesturlanda. Hann reyndi að skýra, hvers vegna bandaríska byltingin 1776 hefði heppnast, en franska byltingin 1789 mistekist. Skýringin var í stystu máli, að Bandaríkjamenn byggju við sérstakar aðstæður, gnótt af ónumdu landi og fjarlægð frá hugsanlegum árásaraðilum, en þeir nytu líka hins breska stjórnfrelsisarfs síns og hefðu verið nógu hyggnir til að skipta valdinu vandlega á milli margra aðila. Jafnframt væru þeir trúaðir og félagslyndir, og það héldi valdafíkn og sérhagsmunastreitu í skefjum. Þess vegna hefði Bandaríkjamönnum tekist að sameina jafnræði og frelsi. En hvað ættu frjálslyndir menn að óttast?

Svar Tocquevilles í riti hans, Lýðræði í Vesturheimi, er frægt. „Ég sé fyrir mér múg óteljandi manna, sem allir eru svipaðir og jafnir og önnum kafnir við að afla þeirra lítilmótlegu og lágkúrulegu gæða,  sem þeir fylla með sálir sínar. Hver og einn þeirra gengur einn sér og lætur sér fátt um örlög annarra finnast. Sjóndeildarhringur hans takmarkast við börn og vini. Þótt meðbræður hans séu nálægt, veitir hann þeim ekki eftirtekt. Hann kemst í snertingu við þá án þess að finna fyrir þeim. Hann er aðeins til í sjálfum sér og fyrir sjálfan sig. Og eigi hann fjölskyldu, þá á hann að minnsta kosti ekki lengur ættjörð.“

Tocqueville heldur áfram: „Yfir þessum skara rís risastórt, stjórnlynt yfirvald, sem sér eitt um að fullnægja þörfum þeirra og velja þeim brautir í lífinu. Það er altækt, smámunasamt, reglubundið, forsjált og milt. Það myndi líkjast föðurvaldi, væri verkefni þess að búa menn undir fullorðinsár, en það hefur annað tilgang og ólíkan, að hindra að þeir komist úr bernsku. Það hefur ekkert á móti því, að menn gleðjist, að því tilskildu, að þeir hugsi ekki um annað á meðan. Þetta vald vinnur fúslega að slíkri hamingju, en það heimtar að fá eitt að skammta hana og skipuleggja. Það gætir öryggis manna, stjórnar framleiðslu þeirra, ræður kjörum þeirra, skiptir með þeim arfi. Hvað er þá eftir annað en taka af þeim ómakið við að hugsa og lifa?“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. mars 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir