Mánudagur 30.03.2020 - 09:18 - Rita ummæli

Hvað á ríkið að gera, þegar drepsótt geisar?

Ragnar Önundarson spyr:

Hvað segja FB vinir mínir, nýfrjálshyggjumennirnir, um fyrirhugaðar ríkisábyrgðir ? Er eðlilegt að gengið sé í sameiginlegan sjóð landsmanna fyrir einkaframtakið ? Hvað segja t.d. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Arnar Sigurðsson og Skafti Harðarson ?

Ég svara:

Í fyrsta lagi er ég frjálshyggjumaður og kannast ekki alveg við muninn á frjálshyggju og nýfrjálshyggju, en mér væri svo sem sama, þótt ég væri kallaður nýfrjálshyggjumaður. Í öðru lagi tel ég, að ríkið sé í senn verndarstofnun og tryggingafélag, alveg eins og goðorðin og hrepparnir að fornu gegndu annars vegar verndar- og hins vegar tryggingahlutverki. Þetta merkir, að ríkið, sem oft er því miður ræningjabæli í raun, breytist í almenning á ögurstundum, til dæmis í náttúruhamförum eða alvarlegum drepsóttum. Það er almennt samkomulag um það á Íslandi, ef verður snjóflóð á Flateyri eða eldgos í Vestmannaeyjum, að þá verði reynt að hjálpa fórnarlömbunum eins og hægt er, enda er verkefnið ekki á færi venjulegra tryggingafélaga. Þá á hugtakið samtrygging við, en sjaldnast ella. Í þriðja lagi tel ég, að þessi hugsun nái til drepsóttar eins og þessarar, enda er lykilatriði, að hún er engum okkar að kenna. Alveg eins og bændur í hreppnum slógu saman í bætur handa þeim úr hópnum, sem missti fé sökum sóttar eða hús í bruna, eigum við að slá saman í bætur handa þeim, sem gjalda drepsóttarinnar. Þá er mikilvægast að halda atvinnulífinu gangandi, ekki að greiða bætur beint til manna. Það er miklu verra að missa vinnuna en að lækka í tekjum. Þess vegna á ríkið að auðvelda atvinnulífinu leikinn eins og kostur er, með lánum og skattalækkunum frekar en beinum styrkjum. Mér sýnist ríkisstjórnin gera þetta allt eins skynsamlega og auðið verður.

Enn segi ég:

Ég fer raunar yfir þetta sjónarmið í bók, sem ég er að skrifa, Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sérstaklega í kafla um þann hugsuð, Herbert Spencer, sem ef til vill komst næst því að mæla með næturvarðarríkinu, eins og sósíalistar kölluðu lágmarksríkið, sem einbeitir sér að því að verja fólk gegn ranglæti og gerir ekkert umfram það. Ég bendi þar á, að næturvörðurinn gegnir raunar afar mikilvægu hlutverki, að verja okkur gegn ofbeldi í skjóli nætur, innrásum, árásum og innbrotum. Landvarnir og löggæsla eru nauðsyn. En öryggishlutverkið er víðtækara en næturvarsla, segi ég í kaflanum um Spencer. Það tekur líka til sérstakra aðstæðna eins og náttúruhamfara og drepsótta.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir