Ragnar Önundarson spyr:
Hvað segja FB vinir mínir, nýfrjálshyggjumennirnir, um fyrirhugaðar ríkisábyrgðir ? Er eðlilegt að gengið sé í sameiginlegan sjóð landsmanna fyrir einkaframtakið ? Hvað segja t.d. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Arnar Sigurðsson og Skafti Harðarson ?
Ég svara:
Í fyrsta lagi er ég frjálshyggjumaður og kannast ekki alveg við muninn á frjálshyggju og nýfrjálshyggju, en mér væri svo sem sama, þótt ég væri kallaður nýfrjálshyggjumaður. Í öðru lagi tel ég, að ríkið sé í senn verndarstofnun og tryggingafélag, alveg eins og goðorðin og hrepparnir að fornu gegndu annars vegar verndar- og hins vegar tryggingahlutverki. Þetta merkir, að ríkið, sem oft er því miður ræningjabæli í raun, breytist í almenning á ögurstundum, til dæmis í náttúruhamförum eða alvarlegum drepsóttum. Það er almennt samkomulag um það á Íslandi, ef verður snjóflóð á Flateyri eða eldgos í Vestmannaeyjum, að þá verði reynt að hjálpa fórnarlömbunum eins og hægt er, enda er verkefnið ekki á færi venjulegra tryggingafélaga. Þá á hugtakið samtrygging við, en sjaldnast ella. Í þriðja lagi tel ég, að þessi hugsun nái til drepsóttar eins og þessarar, enda er lykilatriði, að hún er engum okkar að kenna. Alveg eins og bændur í hreppnum slógu saman í bætur handa þeim úr hópnum, sem missti fé sökum sóttar eða hús í bruna, eigum við að slá saman í bætur handa þeim, sem gjalda drepsóttarinnar. Þá er mikilvægast að halda atvinnulífinu gangandi, ekki að greiða bætur beint til manna. Það er miklu verra að missa vinnuna en að lækka í tekjum. Þess vegna á ríkið að auðvelda atvinnulífinu leikinn eins og kostur er, með lánum og skattalækkunum frekar en beinum styrkjum. Mér sýnist ríkisstjórnin gera þetta allt eins skynsamlega og auðið verður.
Enn segi ég:
Ég fer raunar yfir þetta sjónarmið í bók, sem ég er að skrifa, Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sérstaklega í kafla um þann hugsuð, Herbert Spencer, sem ef til vill komst næst því að mæla með næturvarðarríkinu, eins og sósíalistar kölluðu lágmarksríkið, sem einbeitir sér að því að verja fólk gegn ranglæti og gerir ekkert umfram það. Ég bendi þar á, að næturvörðurinn gegnir raunar afar mikilvægu hlutverki, að verja okkur gegn ofbeldi í skjóli nætur, innrásum, árásum og innbrotum. Landvarnir og löggæsla eru nauðsyn. En öryggishlutverkið er víðtækara en næturvarsla, segi ég í kaflanum um Spencer. Það tekur líka til sérstakra aðstæðna eins og náttúruhamfara og drepsótta.
Rita ummæli