Ég gat ekki stillt mig um að leggja orð í belg á vegg samkennara míns, Ólafs Þ. Harðarsonar, sem greint hafði frá niðurstöðu bandarískra sagnfræðinga um verstu og bestu forsetana (bestur væri Lincoln, en verstur Trump, og hafa þessir vitringar ekki heyrt af því, að dag skal að kveldi lofa, auðvitað átti ekki að taka sitjandi forseta með, og sýnir þetta hlutdrægni og dómgreindarleysi þátttakendanna). En ég sagði þetta:
Þessi niðurstaða er fáránleg. Lincoln vildi ekki leyfa sumum ríkjum Bandaríkjanna að segja skilið við þau og kom í veg fyrir það með hervaldi. Sjálfur tók hann það fram í bréfi til Horace Greeleys (ritstjóra New York Tribune) 1862, að borgarastríðið væri ekki um þrælahald, heldur um að halda alríkinu saman (með hervaldi!). Þessi ákvörðun hans kostaði 700.000 mannslíf. Það féllu fleiri í borgarastríðinu en hafa fallið samtals í öllum öðrum stríðum, sem Bandaríkin hafa tekið þátt í. Og eftir stríðið voru Suðurríkin ein rjúkandi rúst og hatur og úlfúð ótrúleg milli hvítra og svartra. Það tók heila öld að koma samskiptum kynþáttanna í lag. Í Brasilíu var þrælahald hins vegar afnumið 1888, eftir að það hafði verið minnkað í áföngum áratugina á undan (fyrst var innflutningur þræla bannaður, síðan var sala þræla bönnuð, þá voru öll börn þræla lýst frjáls, enn var öllum þrælum yfir sextugt veitt frelsi, svo að aðeins um fjórðungur þeldökkra Brasilíubúa voru þrælar, þegar þrælahald var afnumið að fullu). Samskipti kynþáttanna þar hafa alltaf verið tiltölulega góð.
Og enn sagði ég á vegg Ólafs Þ. Harðarsonar í umræðum um bestu Bandaríkjaforsetana:
Bestu stjórnmálamennirnir eru þeir, sem kunna sér hóf, þekkja sín takmörk. Eftir þeim mælikvarða var Washington besti forseti Bandaríkjanna. Hann skilaði umboði sínu, eftir að hann hafði unnið sigur í frelsisstríðinu við Breta. (Þegar Georg III heyrði, að hann ætlaði að gera það, hrópaði hann í undrun sinni: „Þá er hann merkilegasti maður heims!“) Og hann varð hálftregur forseti og sat aðeins í tvö kjörtímabil. Hann er mesti og besti forseti Bandaríkjanna frá upphafi. (Myndin hér er af Washington að skila inn umboði sínu.)
Annar ofmetinn Bandaríkjaforseti var auðvitað Franklin Delano Roosevelt. Það var ekki hann, sem batt enda á heimskreppuna. Öðru nær. Með mistækri hagstjórn framlengdi hann kreppuna. Nær allir sagnfræðingar og hagfræðingar hafa nú viðurkennt það, sem Milton Friedman hefur um það að segja í hinni miklu rannsókn sinni á heimskreppunni. Roosevelt hélt dauðahaldi í valdið ólíkt Washington. Og hann afhenti Stalín þjóðir Mið- og Austur-Evrópu á silfurbakka eftir seinni heimsstyrjöld.
Walpole hældi sér eitt sinn af því við Bretadrottningu, að enginn Breti hefði fallið í stríði á valdatíð sinni. Verstu Bandaríkjaforsetarnir ættu að vera þeir, sem hófu óþörf stríð eins og borgarastríðið og fyrri heimsstyrjöld (ég held, að öðru máli gegni um hina síðari), og þá koma þeir Lincoln og Woodrow Wilson (sem var auk þess kynþáttahatari af verstu tegund) til álita. Ein mesta hættan, sem Bandaríkjamenn standa andspænis, er, að vinstri sinnaðir kjánar, sem hafa tekið skyndinámskeið í hinstu rökum tilverunnar, kenna þar í háskólum og hafa breytt þeim í trúboðsstöðvar fyrir vinstri stefnu. Ég er hræddur um, að þetta sé líka að gerast í Háskóla Íslands. Ég kenndi þar Bandarísk stjórnmál, en mig leysti af hólmi kona, sem virðist hata Bandaríkin og allt, sem bandarískt er, sérstaklega bandarísk gildi, sem Alexis de Tocqueville gerði svo snilldarlega grein fyrir (hún er virk í Vinstri grænum).
Rita ummæli