Laugardagur 04.04.2020 - 21:14 - Rita ummæli

Áhrif Snorra

Því dýpra sem ég sekk mér niður í rit Snorra Sturlusonar, því líklegra virðist mér, að hann hafi samið þrjú höfuðrit sín í sérstökum tilgangi.

Eddu samdi hann til að reyna að endurvekja skáldskaparlistina, sem hafði verið útflutningsvara Íslendinga öldum saman. Snorri hefur tekið hana saman, áður en hann fór í fyrri ferð sína til Noregs árið 1218.

Heimskringlu samdi hann á tímabilinu frá 1220, þegar hann sneri aftur til Íslands, til 1237, þegar hann fór aftur utan. Hún er umfram allt saga átaka um ríkisvald í Noregi, áreksturs tveggja hugmynda um lög: að þau sé sammæli alþýðu eða fyrirmæli konunga. Einn tilgangur Snorra (sem var sjálfur tvisvar lögsögumaður) var að sýna Íslendingum, að þeir ættu ekkert erindi í ríki Noregskonungs, og er hin snjalla ræða Einars Þveræings besti vitnisburðurinn um það: Eflaust væri Ólafur digri, er nú vildi auka ítök sín á Íslandi, góður konungur, en hitt væri jafnvíst, að konungar væru misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, og væri því best að hafa engan konung.

Egils sögu samdi Snorri, eftir að hann sneri aftur frá Noregi árið 1239, orðinn óvinur konungs, enda er andúðin á konungsvaldi ekki eins hógværlega sett fram og í Heimskringlu. Sagan er um baráttu forföður Snorra, Egils Skallagrímssonar, við Noregskonunga. Hákon gamli endurgalt andúðina og lét vega Snorra árið 1241.

Heimskringla hefur frá upphafi gengið manna í milli í afskriftum. Menn hafa lesið hana sér til skemmtunar og fróðleiks, en líka sem viðvörun. Þetta sést best á því, að árið 1255 endurómaði boðskapur Einars Þveræings í ummælum tveggja bændahöfðingja. Á samkomu bænda við Vallalaug í Skagafirði, þar sem Þorgils skarði vildi vera tekinn til höfðingja, kvaðst Broddi Þorleifsson á Hofi á Höfðaströnd helst vilja Þorgils, þyrfti hann að þjóna höfðingja, en betra væri að þjóna engum. Á ráðstefnu bænda við Djúpadalsá, þar sem Þorvarður Þórarinsson vildi vera tekinn til höfðingja, sagði nafni hans Þórðarson á Saurbæ í Eyjafirði: „Má ég vel sæma við þann, sem er, en best, að engi sé.“ Þeir Broddi og Þorvarður hafa bersýnilega báðir lesið Heimskringlu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. apríl 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir