Laugardagur 11.04.2020 - 06:14 - Rita ummæli

Farsóttir og samábyrgð

Eitt frægasta málverk Rembrandts er Næturverðirnir. Það sýnir nokkra næturverði ganga fylktu liði um hollenska borg. Þetta málverk er táknrænt um eðlilegt hlutverk ríkisins. Það á eins og næturverðir Rembrandts að vernda okkur gegn ofbeldisseggjum, sem læðast að okkur í skjóli myrkurs, hvort sem þeir koma frá öðrum löndum eins og innrásarherir eða úr okkar eigin röðum eins og innbrotsþjófar. Að vísu reyndu sósíalistar nítjándu aldar að gera lágmarksríki frjálshyggjumanna hlægilegt með því að kalla það næturvarðarríkið. En það er sómi að því heiti, ekki skömm.

Merkir það, að eina hlutverk ríkisins sé að halda uppi landvörnum og löggæslu? Þótt þetta hlutverk sé vissulega mikilvægt, er svarið neitandi. Kjarni málsins er, hvers vegna við erum sammála um, að ríkið skuli vernda okkur fyrir innrásarherjum og innbrotsþjófum. Það er vegna þess, að þessar boðflennur birtast óvænt og raska högum okkar stórkostlega. Þær ógna frelsi okkar og öryggi. Hið sama er að segja um náttúruhamfarir eins og eldgos, jarðskjálfta og snjóflóð og líka um drepsóttir eins og veirufaraldurinn nú á útmánuðum 2020.

Við hljótum sjálf að bera ábyrgð á gerðum okkar. Ef við hegðum okkur skynsamlega, þá græðum við. Ef við hegðum okkur óskynsamlega, þá töpum við. Við þurfum jafnframt að sætta okkur við, að sumt í lífinu er ekki komið undir hegðun okkar sjálfra, heldur undirorpið tilviljun. Ef við viljum njóta heppninnar, þá þurfum við líka að gjalda óheppninnar. Ólán er ekki nauðsynlega óréttlæti, og það þarf ekki undir venjulegum kringumstæðum að vera hlutverk ríkisins að bæta okkur upp ólán. En náttúruhamfarir og drepsóttir eru ekki aðeins óheppni, heldur stórkostleg áföll, sem öll þjóðin verður fyrir. Hér á hugtakið samábyrgð við.

Þetta endurspeglaðist í Þjóðveldinu, sem sett var saman úr tveimur einingum, goðorðinu og hreppnum. Menn sóttu vernd gegn hugsanlegum óvinum til goðanna og gátu valið um þá, en þeim var skylt að vera í hreppnum, en hann var til þess að stjórna samnýtingu beitar á fjöllum og hlaupa undir bagga með einstökum bændum, ef fé þeirra féll eða hús þeirra brann. Og ekkert er eðlilegra en að ríkið í umboði þjóðarinnar hlaupi nú undir bagga með þeim, sem veirufaraldurinn hefur leikið grátt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. apríl 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir