Laugardagur 25.04.2020 - 12:17 - Rita ummæli

Farsóttir og einkaframtak

Talið er, að um 500 milljónir manna eða þriðjungur jarðarbúa árið 1918 hafi smitast af spánsku veikinni og af þeim hafi um tíu af hundraði látist, um 50 milljónir manna. Ein skýringin á því, hversu skæð veikin varð, var fátæktin á þeim tíma, vannæring, þéttbýli í lökum húsakynnum og skortur á hreinlæti. Við búum sem betur fer við miklu betri aðstæður. Hagvöxtur er afkastamesti læknirinn.

Á Íslandi létust 484 úr spánsku veikinni, en um skeið lágu tveir þriðju hlutar Reykvíkinga rúmfastir. Thor Jensen var þá umsvifamesti útgerðarmaður landsins. Að beiðni bæjarstjórnar Reykjavíkur sendi félag hans, Kveldúlfur, togara til veiða, þegar bærinn var að verða matarlaus, og gaf hann fiskinn bæjarbúum endurgjaldslaust. Og hinn 22. nóvember setti Thor upp almenningseldhús. Hann fékk lánað húsnæði undir það, en greiddi allan annan kostnað úr eigin vasa. Í matskálanum voru samtals framreiddar um 9.500 máltíðir, en rösklega 7.000 máltíðir voru sendar til þeirra, sem ekki áttu heimangengt. „Að voru viti hefur enginn höfðingi þessa lands, hvorki fyrr né síðar, sýnt aðra eins rausn,“ skrifaði Morgunblaðið 16. desember 1918.

Einnig rak Tómas Jónsson matvörukaupmaður eldhús, nokkru minna, og gaf mat og mjólk. Í Barnaskóla Reykjavíkur við Tjörnina var sett upp farsóttarheimili, og var Garðar Gíslason stórkaupmaður yfirbryti þar. Var hann kallaður „hjálparhellan“, því að honum tókst jafnan að útvega nauðsynjar, þegar aðrir stóðu ráðalausir.

Í veirufaraldrinum, sem nú geisar, hafa úrræðagóðir framkvæmdamenn líka látið að sér kveða. Kunnast er auðvitað framtak Kára Stefánssonar í Íslenskri erfðagreiningu, en óhætt er að segja, að róðurinn hefði orðið þyngri, hefði hans ekki notið við. Mér er kunnugt um, að forstjórar nokkurra annarra fyrirtækja hafa lagt nótt við dag við útvegun nauðsynlegs tækjabúnaðar, og hafa fyrirtækin borið kostnaðinn. Hafa þessir menn nýtt sér erlend viðskiptasambönd, sýnt fádæma þrek og sigrast á ótal erfiðleikum. Þotur fullar af margvíslegum búnaði fljúga ekki ókeypis eða fyrirhafnarlaust frá Kína til Íslands. Þessir menn hafa ekki viljað láta nafna sinna getið, en við að heyra um þá rifjuðust upp fyrir mér orð Margrétar Thatchers: „Miskunnsami Samverjinn gat veitt aðstoð, af því að hann var aflögufær.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. apríl 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir