Laugardagur 02.05.2020 - 09:55 - Rita ummæli

Norræn hugsun í Las Vegas

Dagana 3.–6. apríl á þessu ári átti ég að sitja ráðstefnu APEE, Samtaka um einkaframtaksfræðslu, í Las Vegas. Ég ætlaði að hafa framsögu og stjórna umræðum á málstofu um norræna frjálshyggju. Í framsöguerindi mínu, sem var vegna veirufaraldursins í heiminum aldrei flutt, rifjaði ég upp, að margar stjórnmálahugmyndir frjálslyndra manna mætti greina í ritum Snorra Sturlusonar. Heimskringla er samfelld viðvörun við misjöfnum konungum, en skýrastur er boðskapur Snorra í tveimur ræðum. Þórgnýr lögsögumaður hinn sænski kunngerði konungi sínum, að Svíar myndu setja hann af, ef hann héldi áfram að láta ófriðlega og valda bændum búsifjum. Og Einar Þveræingur sagði, er Ólafur digri seildist til áhrifa á Íslandi, að konungar væru misjafnir og því best að hafa engan konung.

Ég benti á annað, sem ég uppgötvaði á dögunum, að Adam Smith hafði bein áhrif á gang mála í Danmörku og á Íslandi. Í maí 1762 hafði hann kynnst þremur Norðmönnum, Peter og Carsten Anker og Andreas Holt, þegar þeir komu til Glasgow, og endurnýjuðu þeir fjórir þau kynni í Toulouse í mars 1764. Þegar Smith gaf út Auðlegð þjóðanna árið 1776, voru hinir norsku vinir hans orðnir embættismenn í Kaupmannahöfn og beittu sér fyrir því, að Frands Dræbye þýddi ritið á dönsku. Holt var kunnugur íslenskum högum, því að hann var formaður Landsnefndarinnar fyrri, sem sat 1770–1772, og sendi hann raunar Smith ferðalýsingu frá Íslandi.

Árið 1787 var Holt látinn og Peter Anker fluttur til Noregs, þar sem hann átti drjúgan hlut að Eiðsvallastjórnarskránni norsku 1814, einhverri frjálslyndustu stjórnarskrá Evrópu á þeirri tíð. En þeir Carsten Anker og Frands Dræbye voru enn háttsettir í danska fjármálaráðuneytinu, Rentukammerinu, og höfðu þessir lærisveinar Smiths áreiðanlega áhrif á það, að þetta ár var horfið frá verslunareinokun við Ísland.

Sterka frjálshyggjuhefð var líka að finna í Svíþjóð. Hinn sænskumælandi finnski prestur Anders Chydenius setti fram svipaðar kenningar og Adam Smith um sátt eiginhagsmuna og almannahags í riti árið 1765, ellefu árum á undan Smith. Johan August Gripenstedt, einn helsti ráðamaður Svía árin 1848–1866, beitti sér fyrir þeim umbótum í frjálsræðisátt, sem gerðu Svíþjóð að einu ríkasta landi heims.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. maí 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir