Dagana 3.–6. apríl á þessu ári átti ég að sitja ráðstefnu APEE, Samtaka um einkaframtaksfræðslu, í Las Vegas. Ég ætlaði að hafa framsögu og stjórna umræðum á málstofu um norræna frjálshyggju. Í framsöguerindi mínu, sem var vegna veirufaraldursins í heiminum aldrei flutt, rifjaði ég upp, að margar stjórnmálahugmyndir frjálslyndra manna mætti greina í ritum Snorra Sturlusonar. Heimskringla er samfelld viðvörun við misjöfnum konungum, en skýrastur er boðskapur Snorra í tveimur ræðum. Þórgnýr lögsögumaður hinn sænski kunngerði konungi sínum, að Svíar myndu setja hann af, ef hann héldi áfram að láta ófriðlega og valda bændum búsifjum. Og Einar Þveræingur sagði, er Ólafur digri seildist til áhrifa á Íslandi, að konungar væru misjafnir og því best að hafa engan konung.
Ég benti á annað, sem ég uppgötvaði á dögunum, að Adam Smith hafði bein áhrif á gang mála í Danmörku og á Íslandi. Í maí 1762 hafði hann kynnst þremur Norðmönnum, Peter og Carsten Anker og Andreas Holt, þegar þeir komu til Glasgow, og endurnýjuðu þeir fjórir þau kynni í Toulouse í mars 1764. Þegar Smith gaf út Auðlegð þjóðanna árið 1776, voru hinir norsku vinir hans orðnir embættismenn í Kaupmannahöfn og beittu sér fyrir því, að Frands Dræbye þýddi ritið á dönsku. Holt var kunnugur íslenskum högum, því að hann var formaður Landsnefndarinnar fyrri, sem sat 1770–1772, og sendi hann raunar Smith ferðalýsingu frá Íslandi.
Árið 1787 var Holt látinn og Peter Anker fluttur til Noregs, þar sem hann átti drjúgan hlut að Eiðsvallastjórnarskránni norsku 1814, einhverri frjálslyndustu stjórnarskrá Evrópu á þeirri tíð. En þeir Carsten Anker og Frands Dræbye voru enn háttsettir í danska fjármálaráðuneytinu, Rentukammerinu, og höfðu þessir lærisveinar Smiths áreiðanlega áhrif á það, að þetta ár var horfið frá verslunareinokun við Ísland.
Sterka frjálshyggjuhefð var líka að finna í Svíþjóð. Hinn sænskumælandi finnski prestur Anders Chydenius setti fram svipaðar kenningar og Adam Smith um sátt eiginhagsmuna og almannahags í riti árið 1765, ellefu árum á undan Smith. Johan August Gripenstedt, einn helsti ráðamaður Svía árin 1848–1866, beitti sér fyrir þeim umbótum í frjálsræðisátt, sem gerðu Svíþjóð að einu ríkasta landi heims.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. maí 2020.)
Rita ummæli