Laugardagur 23.05.2020 - 09:59 - Rita ummæli

Gleymdi maðurinn

Þegar menn keppast við að leggja á ráðin um aukin ríkisútgjöld, að því er virðist umhugsunarlaust, er ekki úr vegi að rifja upp frægan fyrirlestur, sem bandaríski félagsfræðingurinn William Graham Sumner hélt í febrúar 1883 um „gleymda manninn“. Sumner bendir þar á, hversu hlutdræg athyglisgáfa okkar er. Hið nýja og óvænta er fréttnæmt, annað ekki. Hann nefnir sjálfur gulu og berkla, en nýlegra dæmi er uppnámið yfir veirufaraldri, sem kostað hefur 323 þúsund mannslíf á fjórum mánuðum og er víðast í rénun. Á hverju ári látast 1,6 milljón úr sykursýki, 1,3 milljón úr berklum og ein milljón úr eyðni.

Sumner segir: Í hvert sinn sem eitthvert kemur fyrir X, talar A um það við B, og B stingur upp á löggjöf X til aðstoðar. Þessi löggjöf felur ætíð í sér fyrirmæli um, hvað C eigi að gera fyrir X eða einstöku sinnum hvað A, B og C eigi að gera fyrir X. Sumner bendir á, að vandinn sé enginn, ef A og B ákveði sjálfir að aðstoða X, þótt sennilega væri hægara að gera það beint en með löggjöf. En Sumner beinir athygli að C: Hann er gleymdi maðurinn, hið óþekkta fórnarlamb, sem á að bera kostnaðinn af því, þegar bæta skal böl annarra.

Flestir umbótamenn vilja taka fé af sumum og afhenda öðrum. Nú telur Sumner, að stundum kunni það að eiga rétt á sér. (Ég tel til dæmis einhverja samtryggingu gegn drepsóttum og náttúruhamförum réttlætanlega.) En Sumner brýnir fyrir okkur að gleyma aldrei C, hinum venjulega manni, sem gengur til vinnu sinnar á hverjum degi, sér um sig og sína eftir megni, sækist ekki eftir embættum og kemst ekki í blöðin nema þegar hann gengur í hjónaband eða gefur upp öndina. Hann er föðurlandsvinur, en skiptir sér ekki af stjórnmálum og greiðir atkvæði á fjögurra ára fresti. Þá láta stjórnmálamenn dátt að honum. En þess í milli gleyma þeir honum. Þeir koma sér saman um alls konar opinberar aðgerðir, en ætlast alltaf til þess, að hann beri kostnaðinn. Og ekki er síður ástæða til þess árið 2020 að minna á gleymda manninn en árið 1883.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. maí 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir