Laugardagur 30.05.2020 - 14:14 - Rita ummæli

Þriðji frumburður móðurinnar

Í frjálsum löndum leyfist okkur að hafa skoðanir, en rökfræðin bannar okkur þó að lenda í mótsögn við okkur sjálf. Þriðji frumburður móður er ekki til, aðeins frumburðurinn eða þriðja barnið. Á Íslandi eru þrjár mótsagnir algengar í stjórnmálaumræðum.

1. Sumir segjast vera jafnaðarmenn, en berjast gegn tekjuskerðingu bóta, til dæmis barnabóta eða ellilífeyris frá ríkinu. En auðvitað er slík skerðing tilraun til að skammta það fé skynsamlega, sem til skiptanna er, láta það renna til þeirra, sem þurfa á því að halda, ekki annarra. Maður, sem nýtur ríflegs lífeyris úr lífeyrissjóði starfsgreinar sinnar eða af einkasparnaði, þarf ekki þann opinbera grunnlífeyri, sem fólk á lífeyrisaldri nýtur, hafi það ekki aðrar tekjur. Menn geta deilt um, við hversu háar tekjur á að hefja skerðingu, en varla um sjálfa regluna: að skammta opinbera aðstoð eftir þörf, en ekki óháð tekjum.

2. Sumir vilja leggja niður krónuna, taka upp evru, en afnema verðtryggingu. En efnahagsleg áhrif af því að taka upp evru í öllum viðskiptum væru svipuð og af því að taka upp verðtryggða krónu í öllum viðskiptum. Við gætum þá engu breytt um peningamagn í umferð. Gjaldmiðillinn væri á föstu og óbreytanlegu verði. Nú eru á Íslandi notaðir tveir gjaldmiðlar, venjuleg króna í hversdagslegum viðskiptum og verðtryggð króna í langtímaviðskiptum. Kosturinn við hina fyrri er, að hana má fella í verði, þegar það er nauðsynlegt. Kosturinn við hina síðari er, að hana er ekki hægt að fella í verði. Hún er stöðug, heldur gildi sínu, hvað sem á bjátar. Lánardrottnar (oftast lífeyrissjóðir og því vinnandi fólk) fá fé sitt til baka.

3. Sumir þykjast vera frjálshyggjumenn, en berjast fyrir auðlindaskatti og jafnvel fyrir því að taka kvóta af útgerðarmönnum. En frjálshyggja hvílir á tveimur stoðum, einkaeignarrétti og viðskiptafrelsi. Einkaeignarrétturinn er hagkvæmur, af því að menn fara betur með eigið fé en annarra og vegna þess að ágreiningur leysist þá af sjálfum sér: menn fara hver með sína eign og þurfa ekki að eyða tíma í þrætur um, hvernig eigi að fara með sameign. Sjaldan grær gras í almenningsgötu. En hvernig geta menn verið hlynntir einkaeign á nýtingarrétti beitarlands og laxveiðiár og ekki einkaeign á nýtingarrétti fiskistofns? Hvers vegna vilja þeir breyta útgerðarmönnum í leiguliða ríkisins og útvega misvitrum stjórnmálamönnum nýjan tekjustofn til að þræta um?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. maí 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir