Í frjálsum löndum leyfist okkur að hafa skoðanir, en rökfræðin bannar okkur þó að lenda í mótsögn við okkur sjálf. Þriðji frumburður móður er ekki til, aðeins frumburðurinn eða þriðja barnið. Á Íslandi eru þrjár mótsagnir algengar í stjórnmálaumræðum.
1. Sumir segjast vera jafnaðarmenn, en berjast gegn tekjuskerðingu bóta, til dæmis barnabóta eða ellilífeyris frá ríkinu. En auðvitað er slík skerðing tilraun til að skammta það fé skynsamlega, sem til skiptanna er, láta það renna til þeirra, sem þurfa á því að halda, ekki annarra. Maður, sem nýtur ríflegs lífeyris úr lífeyrissjóði starfsgreinar sinnar eða af einkasparnaði, þarf ekki þann opinbera grunnlífeyri, sem fólk á lífeyrisaldri nýtur, hafi það ekki aðrar tekjur. Menn geta deilt um, við hversu háar tekjur á að hefja skerðingu, en varla um sjálfa regluna: að skammta opinbera aðstoð eftir þörf, en ekki óháð tekjum.
2. Sumir vilja leggja niður krónuna, taka upp evru, en afnema verðtryggingu. En efnahagsleg áhrif af því að taka upp evru í öllum viðskiptum væru svipuð og af því að taka upp verðtryggða krónu í öllum viðskiptum. Við gætum þá engu breytt um peningamagn í umferð. Gjaldmiðillinn væri á föstu og óbreytanlegu verði. Nú eru á Íslandi notaðir tveir gjaldmiðlar, venjuleg króna í hversdagslegum viðskiptum og verðtryggð króna í langtímaviðskiptum. Kosturinn við hina fyrri er, að hana má fella í verði, þegar það er nauðsynlegt. Kosturinn við hina síðari er, að hana er ekki hægt að fella í verði. Hún er stöðug, heldur gildi sínu, hvað sem á bjátar. Lánardrottnar (oftast lífeyrissjóðir og því vinnandi fólk) fá fé sitt til baka.
3. Sumir þykjast vera frjálshyggjumenn, en berjast fyrir auðlindaskatti og jafnvel fyrir því að taka kvóta af útgerðarmönnum. En frjálshyggja hvílir á tveimur stoðum, einkaeignarrétti og viðskiptafrelsi. Einkaeignarrétturinn er hagkvæmur, af því að menn fara betur með eigið fé en annarra og vegna þess að ágreiningur leysist þá af sjálfum sér: menn fara hver með sína eign og þurfa ekki að eyða tíma í þrætur um, hvernig eigi að fara með sameign. Sjaldan grær gras í almenningsgötu. En hvernig geta menn verið hlynntir einkaeign á nýtingarrétti beitarlands og laxveiðiár og ekki einkaeign á nýtingarrétti fiskistofns? Hvers vegna vilja þeir breyta útgerðarmönnum í leiguliða ríkisins og útvega misvitrum stjórnmálamönnum nýjan tekjustofn til að þræta um?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. maí 2020.)
Rita ummæli