Laugardagur 06.06.2020 - 07:34 - Rita ummæli

Mældu rétt! Mæltu rétt!

Þegar Skúli Magnússon var búðardrengur hjá einokunarkaupmanninum danska og mældi út vöru, kallaði kaupmaður jafnan: Mældu rétt, strákur! Hann átti við hið öfuga, að Skúli skyldi halla á viðskiptavinina, ekki mæla rétt.

Þeir, sem nota vildarorð í umræðum, fara að ráði danska kaupmannsins. Þeir útvega sér forgjöf. Þeir neita að mæla rétt. Þeir reyna að halla á viðmælendur sína.

Eitt vildarorðið er „gjafakvóti“, sem þeir auðlindaskattsmenn hafa um aflaheimildir á Íslandsmiðum. Orðið er ranglega hugsað. Gjöf er verðmætur hlutur, sem skiptir um hendur. Slík gjöf fer frá einum til annars. Kvótinn er hins vegar réttur til að veiða, og þegar sýnt varð um 1980, að takmarka þyrfti tölu þeirra, sem nýtt gátu takmörkuð gæði hafsins, var eðlilegast að fá þeim, sem þegar voru að veiðum, þennan rétt. Þeim var ekki fengið annað en þeir höfðu þegar notið. Sú regla var hins vegar tekin upp um aðra, að þeir yrðu að kaupa sér kvóta til að geta stundað veiðar.

Annað vildarorð er „ójöfnuður“ um ójafna tekjudreifingu. Orðið „ójöfnuður“ hefur verið til í íslenskri tungu frá öndverðu og merkt rangsleitni og yfirgang. Menn voru ójafnaðarmenn, ef þeir neyttu aflsmunar. Orðið hefur því neikvæða merkingu. Þegar Stefán Ólafsson, Sigrún Ólafsdóttir og aðrir spekingar uppi í háskóla nota þetta vildarorð, eru þau að útvega sér forgjöf, lauma kröfunni um tekjujöfnun inn í umræður. Menn sætta sig illa við ójöfnuð, en þeir viðurkenna margir, að ójöfn tekjudreifing sé eðlileg afleiðing af frjálsum markaðsviðskiptum.

Við þá auðlindaskattsmenn og þau Stefán og Sigrúnu ætti því að segja: „Mæltu rétt!“ Því er við að bæta, að þriðja orðið er stundum notað sem vildarorð, til að stimpla menn, „nýfrjálshyggja.“ En í raun og veru er enginn neikvæður blær á orðinu sjálfu, og því ættu frjálshyggjumenn að taka það upp. Í frjálshyggju Hayeks og Friedmans er vissulega margt nýtt og ferskt, brakandi ferskt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. júní 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir