Adam Smith taldi þrælahald óhagkvæmt með þeim einföldu rökum, að þræll væri miklu meira virði sem frjáls maður, því að þá hefði hann hag af því að finna og þroska hæfileika sína í stað þess að leyna þeim fyrir eiganda sínum. Þetta vissi Snorri Sturluson líka og færði í letur söguna af Erlingi Skjálgssyni, sem gaf þrælum sínum tækifæri til að rækta landskika, hirða afraksturinn af þeim og kaupa sér fyrir hann frelsi. „Öllum kom hann til nokkurs þroska.“
Auðvitað nálgast nútímamenn vandann öðru vísi. Þrælahald er ekki aðeins óhagkvæmt, heldur líka ósiðlegt, á móti Guðs og manna lögum. Það varð að afnema. Hitt er annað mál, að það getur kostað sitt að bæta úr böli. Adam Smith rifjaði upp, að kvekarar í Bandaríkjunum hefðu gefið þrælum sínum frelsi, en það benti til þess, sagði hann, að þrælarnir hefðu ekki verið mjög margir. Menn eru því betri sem gæðin kosta þá minna.
Miklu var fórnað til að afnema þrælahald í Bandaríkjunum. Borgarastríðið 1861–1865 kostaði 700 þúsund mannslíf, og eftir það lágu Suðurríkin í rústum, eins og lýst er í skáldsögu Margrétar Mitchells, Á hverfanda hveli. Beiskja þeirra, sem töpuðu stríðinu, kom niður á þeldökku fólki, sem var í heila öld neitað um full mannréttindi. Brasilíumenn fóru aðra leið. Þeir afnámu þrælahald í áföngum. Fyrst var sala þræla bönnuð, síðan var öllum börnum þræla veitt frelsi, þá var öllum þrælum yfir sextugt veitt frelsi, og loks var þrælahald bannað með lögum árið 1888, en þá var ekki nema fjórðungur þeldökks fólks enn ánauðugt. Bretar fóru enn aðra leið. Þeir bönnuðu þrælahald á öllum yfirráðasvæðum sínum árið 1833, en greiddu eigendum bætur.
Við getum engu breytt um það, sem orðið er, en í löndum múslima tíðkast enn sums staðar þrælahald. Þar er verðugt viðfangsefni.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. júní 2020.)
Rita ummæli