Laugardagur 13.06.2020 - 17:55 - Rita ummæli

Þrælahald í sögu og samtíð

Adam Smith taldi þrælahald óhagkvæmt með þeim einföldu rökum, að þræll væri miklu meira virði sem frjáls maður, því að þá hefði hann hag af því að finna og þroska hæfileika sína í stað þess að leyna þeim fyrir eiganda sínum. Þetta vissi Snorri Sturluson líka og færði í letur söguna af Erlingi Skjálgssyni, sem gaf þrælum sínum tækifæri til að rækta landskika, hirða afraksturinn af þeim og kaupa sér fyrir hann frelsi. „Öllum kom hann til nokkurs þroska.“

Auðvitað nálgast nútímamenn vandann öðru vísi. Þrælahald er ekki aðeins óhagkvæmt, heldur líka ósiðlegt, á móti Guðs og manna lögum. Það varð að afnema. Hitt er annað mál, að það getur kostað sitt að bæta úr böli. Adam Smith rifjaði upp, að kvekarar í Bandaríkjunum hefðu gefið þrælum sínum frelsi, en það benti til þess, sagði hann, að þrælarnir hefðu ekki verið mjög margir. Menn eru því betri sem gæðin kosta þá minna.

Miklu var fórnað til að afnema þrælahald í Bandaríkjunum. Borgarastríðið 1861–1865 kostaði 700 þúsund mannslíf, og eftir það lágu Suðurríkin í rústum, eins og lýst er í skáldsögu Margrétar Mitchells, Á hverfanda hveli. Beiskja þeirra, sem töpuðu stríðinu, kom niður á þeldökku fólki, sem var í heila öld neitað um full mannréttindi. Brasilíumenn fóru aðra leið. Þeir afnámu þrælahald í áföngum. Fyrst var sala þræla bönnuð, síðan var öllum börnum þræla veitt frelsi, þá var öllum þrælum yfir sextugt veitt frelsi, og loks var þrælahald bannað með lögum árið 1888, en þá var ekki nema fjórðungur þeldökks fólks enn ánauðugt. Bretar fóru enn aðra leið. Þeir bönnuðu þrælahald á öllum yfirráðasvæðum sínum árið 1833, en greiddu eigendum bætur.

Við getum engu breytt um það, sem orðið er, en í löndum múslima tíðkast enn sums staðar þrælahald. Þar er verðugt viðfangsefni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. júní 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir