Laugardagur 25.07.2020 - 09:02 - Rita ummæli

Stalín er hér enn

Forystumenn verkalýðsfélagsins Eflingar, Sólveig Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson, virðast vilja færa starfsemi þess langt aftur á síðustu öld, þegar sumir trúðu því, að kjarabætur fengjust með kjarabaráttu frekar en vexti atvinnulífsins: því fleiri verkföll, því betra. Afleiðingin á Íslandi var víxlhækkun kaupgjalds og verðlags, þrálát verðbólga, en óveruleg aukning kaupmáttar. Þau Sólveig og Viðar kunna að vera lifandi dæmi þeirra ummæla Hegels, að menn læri aldrei neitt af sögunni.

Rifjast nú upp, þegar Þjóðleikhúsið sýndi árið 1977 leikritið Stalín er ekki hér eftir Véstein Lúðvíksson. Aðalsöguhetjan er gamall sósíalisti, sem vill ekki viðurkenna, að stalínisminn hafi brugðist. Þegar fjölskyldan flytur í nýja íbúð, heimtar kona hans, að hann selji bækur sínar um sósíalisma. „Við verðum að fara að gera hreint,“ segir hún.

Ef til vill var þó ekki við öðru að búast af þeim Sólveigu og Viðari. Sólveig er dóttir Jóns Múla Árnasonar, sem var einn dyggasti stalínisti á Íslandi. Hann var lengi á framfæri Kristins E. Andréssonar, sem tók við mestöllu Rússagullinu á Íslandi, eins og skjöl fundust um í Moskvu eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna. Þegar Steinn Steinarr og Agnar Þórðarson gagnrýndu stjórnarfar í Rússlandi eftir för þangað 1956, vék Jón Múli sér að þeim í Austurstræti og spurði: „Því voruð þið að kjafta frá?“

Viðar er sonarsonur Vilhjálms Þorsteinssonar, sem var líka stalínisti og stjórnaði lengi verkfallsaðgerðum Dagsbrúnar. Það gerði hann til dæmis í verkfalli 1961, þegar Dagsbrún fékk fimm þúsund sterlingspunda framlag frá Kremlverjum í verkfallssjóð sinn.

Fordómar úr æsku geta lifað lengi.

(Fróðleiksmoli úr Morgunblaðinu 25. júlí 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir