Laugardagur 08.08.2020 - 17:43 - Rita ummæli

Hin hliðin á sigrinum

Eitt af því, sem menn læra í grúski um söguna, er, að fleiri hliðar eru á henni en okkur voru kenndar í skólum. Enginn sagði okkur til dæmis frá því, að í lok seinna stríðs voru á milli tíu og fjórtán milljónir manna af þýskum ættum reknar til Þýskalands frá heimkynnum sínum í Austur-Prússlandi, Póllandi og Tékkóslóvakíu, þar sem fólkið hafði búið mann fram af manni. Talið er, að hátt í milljón manns hafi látist í þessum flutningum.

Miskunnarleysi þýskra nasista í Mið- og Austur-Evrópu í stríðinu afsakar ekki miskunnarleysi sigurvegaranna í seinna stríði gagnvart fólki af þýsku bergi brotnu, að minnsta kosti ekki að dómi þeirra okkar, sem hafna hugmyndinni um samsekt þjóða, en trúa á ábyrgð einstaklinga á eigin gerðum og ekki neina sök þeirra á fæðingarstað sínum.

Það var eitt af kyrrlátum afrekum Þjóðverja eftir stríð, að þeir gátu tekið við öllu þessu fólki, án þess að allt færi úr skorðum. Þetta voru mestu fólksflutningar mannkynssögunnar. Skýringin á því, hversu ótrúlega vel tókst til, var tvíþætt: Þeir Konrad Adenauer og Ludwig Erhard höfðu komið á atvinnufrelsi í Vestur-Þýskalandi, svo að atvinnulífið óx hratt og örugglega og allt þetta aðkomufólk fékk störf. Og í öðru lagi var tiltölulega auðvelt fyrir hina nauðugu innflytjendur að laga sig að aðstæðum, því að þeir deildu tungu og menningu með þeim, sem fyrir voru. Öðrum þræði gátu þeir verið fegnir að lenda ekki undir oki kommúnista.

Adenauer var líka kænn stjórnmálamaður. Þótt hann væri viss um, að Þjóðverjar myndu aldrei endurheimta þau svæði, sem af þeim höfðu verið tekin, datt honum ekki í hug að segja það opinberlega. Hann leysti brýnan vanda fljótt og vel, en leyfði tímanum og þögninni að græða sár sögunnar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. ágúst 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir