Laugardagur 15.08.2020 - 07:13 - Rita ummæli

Fyrra Samherjamálið: Tvær hliðstæður

Í ágúst 2020 birti Samherji myndband um fréttaflutning Ríkisútvarpsins af máli frá 2012, sem snerist um fiskverð og skilaskyldu og kalla mætti fyrra Samherjamálið til að greina það frá nýlegra máli, en það snýst um umsvif fyrirtækisins í Namibíu. Þrátt fyrir margra ára rannsókn í þessu fyrra máli var niðurstaða saksóknara sú, að ekki væri tilefni til ákæru. Samkvæmt myndbandinu birti Ríkisútvarpið mjög ónákvæmar fréttir af þessu máli. Það vitnaði í skýrslu, sem síðan hefur ekki reynst vera til. Aðeins var um ræða ófullkomin vinnugögn, sem laumað hafði verið ólöglega til fréttamanns.

Rifjast þá upp tvö hliðstæð mál. Árin 2006–2008 hafði Þorvaldur Gylfason prófessor uppi stór orð um, að tekjudreifing á Íslandi væri orðin miklu ójafnari en í grannlöndum. Vitnaði hann í útreikninga á svonefndum Gini stuðlum frá Ríkisskattstjóraembættinu. En þegar Ragnar Árnason prófessor grennslaðist fyrir um þessi gögn, kom í ljós, að embættið hafði ekki reiknað út neina Gini stuðla og því síður afhent Þorvaldi slíka útreikninga. Ekki er vitað, hvaðan Þorvaldur fékk tölur sínar, en líklega hefur einhver starfsmaður embættisins reiknað þær út upp á sitt eindæmi fyrir hann. Tölurnar voru auk þess ekki sambærilegar við tölur frá öðrum löndum, enda var og er tekjudreifing á Íslandi einhver hin jafnasta í heimi.

Árið 2007 hélt Jón Ólafsson heimspekingur því fram, að Alþjóðasamband kommúnista, Komintern, hefði verið andsnúið stofnun Sósíalistaflokksins 1938. Vitnaði hann í minnisblað innan úr Komintern, þar sem starfsmaður lét í ljós efasemdir um málið. Þór Whitehead prófessor benti þegar á, að vinnugagn væri annað en opinber afstaða. Allt benti til þess, kvað Þór, að niðurstaða Kominterns hefði verið að styðja stofnun Sósíalistaflokksins, enda hefði við hana verið farið í hvívetna að fyrirmælum þess. Kommúnistaflokkar á Norðurlöndum hefðu sent flokknum heillaóskaskeyti við stofnunina, og samstarf hefði strax tekist milli Sósíalistaflokksins og Kominterns, svo sem þegar Kristinn E. Andrésson gaf Komintern skýrslu í Moskvu 1940 og þáði fjárstyrk. Ég fann síðan í gögnum Sósíalistaflokksins bréf frá 1938, þar sem opinber talsmaður æskulýðssamtaka Kominterns í Moskvu lýsti yfir ánægju með hinn nýja flokk, og tekur það af öll tvímæli.

Rökvillan í öllum þremur dæmunum er hin sama, að kynna vinnugögn sem endanlega niðurstöðu. Vandaða heimildarýni vantaði. En um Samherja má hafa fræg orð frá nítjándu öld: Þetta fyrirtæki er ægilega grimmt. Það ver sig, ef á það er ráðist.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. ágúst 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir