Þau Milton Friedman og Anna J. Schwartz gáfu árið 1963 út Peningamálasögu Bandaríkjanna, A Monetary History of the United States, þar sem þau lögðu fram nýja skýringu á heimskreppunni miklu 1929–1933. Hún var, að kreppan hefði orðið vegna mistaka í stjórn peningamála. Bandaríski seðlabankinn hefði breytt niðursveiflu í djúpa kreppu með því að leyfa peningamagni í umferð að skreppa saman um þriðjung. Hann hefði ekki gegnt þeirri skyldu sinni að veita bönkum í lausafjárþröng þrautavaralán.
Eitt versta glappaskotið hefði verið að bjarga ekki Bank of the United States í New York haustið 1930, en það hefði valdið áhlaupum á aðra banka og dýpkað niðursveifluna. Margir hefðu haldið vegna nafnsins, að bankinn væri á einhvern hátt opinber stofnun, en svo var ekki. Bankinn var í eigu gyðinga, og flestir viðskiptavinir voru gyðingar. Þau Friedman og Schwartz töldu líklegt, að gyðingahatur hefði ráðið einhverju um, að bankanum var ekki bjargað.
Hliðstæð ákvörðun var tekin í fjármálakreppunni 2008 um Ísland. Breska Verkamannaflokksstjórnin með þá Gordon Brown og Alistair Darling í broddi fylkingar ákvað að bjarga öllum bönkum í Bretlandi öðrum en þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, Heritable og KSF. Jafnframt lokaði stjórnin útbúi Landsbankans í Lundúnum. Þetta olli því, að íslenska bankakerfið hrundi allt, en ella var það alls ekki sjálfgefið.
Ég tel líklegt, að stjórnmálahagsmunir hafi ráðið einhverju um þessa ákvörðun. Brown og Darling voru báðir frá Skotlandi, og þjóðernissinnar sóttu þar mjög að Verkamannaflokknum. Þeir höfðu því ríka hagsmuni af því að sýna skoskum kjósendum, að sjálfstæði smáþjóðar gæti verið varasamt. Skoska bankakerfið var tólfföld landsframleiðsla Skotlands og hefði hrunið, hefði Englandsbanki ekki veitt skoskum bönkum þau þrautavaralán, sem hann neitaði Heritable og KSF um.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. október 2020.)
Rita ummæli