Laugardagur 10.10.2020 - 12:13 - Rita ummæli

Minningar um Milton

Að mér sóttu á dögunum minningar um Milton Friedman, einn virtasta hagfræðing tuttugustu aldar. Ég hitti hann fyrst á fundi Mont Pelerin-samtakanna, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna, í Stanford í Kaliforníu haustið 1980. Ég sagði honum þá, að ég hefði ósjaldan varið hann fyrir árásum íslenskra vinstri manna. „Þú átt ekki að verja mig,“ sagði Friedman með breiðu brosi. „Þú átt að verja hugsjónir okkar.“

Næst hitti ég Friedman á þingi Mont Pelerin-samtakanna í Berlín 1982. Hann sagði mér þá af ferð sinni til Kína skömmu eftir fundinn í Stanford. Hann hafði snætt hádegisverð með kínverskum ráðherra, sem kvaðst vera á leið til Bandaríkjanna. Hvaða ráðherra sæi þar um dreifingu hráefna? Friedman svaraði: „Þú skalt fara á hrávörumarkaðinn í Síkagó.“ Ráðherrann varð eitt spurningamerki í framan. Friedman reyndi að útskýra fyrir honum, að á frjálsum markaði sæi ríkið ekki um dreifingu hráefna. Þau dreifðust um hagkerfið í frjálsum viðskiptum. Friedman rifjaði líka upp ferð sína til Indlands 1962. Hann kom þar að, sem verkamenn voru að grafa skipaskurð með skóflum. Friedman spurði: „Af hverju notið þið ekki jarðýtur? Það væri miklu hagkvæmara.“ Leiðsögumaður hans svaraði: „Þú skilur þetta ekki. Þetta skapar atvinnu.“ Friedman var ekki lengi að bregðast við: „Nú, ég hélt, að þið væruð að grafa skipaskurð. En ef þið ætlið að skapa atvinnu, af hverju notið þið ekki matskeiðar?“

Friedman kom til Íslands á mínum vegum haustið 1984. Matthías Á. Mathiesen viðskiptaráðherra hélt honum boð í Ráðherrabústaðnum. Ég stóð við hlið Friedmans og kynnti hann fyrir gestum. Einn þeirra var seðlabankastjóri. Ég gat ekki stillt mig um að segja: „Jæja, prófessor Friedman. Hér er íslenskur seðlabankastjóri. Hann yrði nú atvinnulaus, ef kenningar yðar yrðu framkvæmdar.“ Friedman brosti kankvís og sagði: „Nei, hann yrði ekki atvinnulaus. Hann yrði aðeins að færa sig í arðbærara starf.“ Allir hlógu, líka seðlabankastjórinn. Eitt kvöldið héldu íslenskir kaupsýslumenn og iðnjöfrar Friedman veglega veislu. Einn þeirra spurði Friedman: „Hver er að yðar dómi mesta ógnin við kapítalismann?“ Friedman svaraði: „Horfið í spegil. Það eru kapítalistarnir, sem ógna kapítalismanum. Þeir vilja, að ríkið verji þá gegn samkeppni.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. október 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir