Laugardagur 05.12.2020 - 08:09 - Rita ummæli

Upprifjun um Atómstöðina

Furðulegt upphlaup varð á dögunum, þegar Halldór Guðmundsson bókmenntaskýrandi hélt því fram, að Bjarni Benediktsson og bandarísk stjórnvöld hefðu í sameiningu komið í veg fyrir, að bækur Halldórs Laxness kæmu út í Bandaríkjunum eftir 1946, en það ár birtist þar Sjálfstætt fólk og seldist bærilega, enda valbók einn mánuðinn í Mánaðarritafélaginu (Book-of-the-Month Club). Gallinn við kenninguna er, að engin gögn styðja hana.

Setjum þó svo, að skjöl fyndust um það, að hinn bandaríski útgefandi Laxness, Alfred Knopf, hefði hætt að gefa verk hans út, af því að honum hefði blöskrað eindreginn stuðningur skáldsins við stalínisma í miðju kalda stríðinu. Hann hefði auðvitað verið í sínum fulla rétti til þess. Atómstöðin, sem birtist í febrúar 1948, var heiftarleg árás á Bandaríkin og þá Íslendinga, sem töldu varnarsamstarf við þau æskilegt. Hún hefði verið lítt fallin til vinsælda í Bandaríkjunum. Ég tel þó langlíklegustu skýringin á því, að bækur Laxness hættu að koma út í Bandaríkjunum eftir 1946, almennt áhugaleysi bandarískra lesenda um þær flestar. Sjálfstætt fólk er eina verk Laxness, sem virðist hafa einhverja skírskotun til Bandaríkjamanna, sennilega af því að þeir misskilja það og telja hetjusögu Bjarts.

Hitt er annað mál, að íslenskur stjórnarerindreki talaði vissulega gegn útgáfu á verkum Laxness erlendis þessi misserin. Kristján Albertsson, sem þá starfaði í utanríkisþjónustunni, hafði spurnir af því haustið 1948, að Martin Larsen, sendikennari í Háskóla Íslands, hefði verið beðinn um að þýða Atómstöðina á dönsku. Lét Kristján í ljós vanþóknun á þeirri hugmynd, og tók Larsen verkið ekki að sér. Jakob Benediktsson og dönsk kona hans þýddu þá bókina. Fjórum árum síðar, sumarið 1952, átti Kristján erindi við forstjóra Gyldendal, sem sagði honum, að Atómstöðin væri að koma út á dönsku, og hafði Kristján þá hin verstu orð um bókina. Það breytti engu um útkomu hennar, sem þegar var ráðin. Raunar var heift Laxness svo mikil um þær mundir, að hann varaði Dani við að skila handritunum til Íslands, því að ráðamenn kynnu að selja þau til Bandaríkjanna!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. desember 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir