Föstudagur 11.12.2020 - 04:46 - Rita ummæli

Ritdómur um bók Kjartans Ólafssonar

Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn

Draumar og veruleiki

Stjórnmál í endursýn

eftir Kjartan Ólafsson
Mál og menning, 2020. 568 bls.

Á jóladag 1991 var hinn rauði fáni Ráðstjórnarríkjanna dreginn niður í síðasta sinn í Kremlkastala. Mannfrekasta tilraun mannkynssögunnar hafði mistekist, en saga hennar er rækilega rakin í Svartbók kommúnismans, sem kom út á íslensku 2009 og ætti að vera skyldulesning í öllum skólum. Heimskommúnisminn teygði sig snemma norður til Íslands, þar sem sannfærðir kommúnistar störfuðu fyrst í vinstri armi Alþýðuflokksins, stofnuðu síðan eigin flokk 1930, lögðu hann niður 1938 og sameinuðust vinstri jafnaðarmönnum í Sósíalistaflokknum, lögðu hann niður 1968 og sameinuðust vinstri þjóðernissinnum í Alþýðubandalaginu, sem breyttist þá úr kosningabandalagi í stjórnmálaflokk. Alþýðubandalagið var loks lagt niður 1998, og gengu flestir liðsmenn þess ýmist í Samfylkinguna eða Vinstri græna. Nú hefur Kjartan Ólafsson háaldraður gefið út þætti úr sögu þessarar hreyfingar. Hann þekkir hana flestum öðrum betur, en hann var framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins 1962–1968, starfsmaður Alþýðubandalagsins 1968–1972 og ritstjóri Þjóðviljans um árabil.

Sannir trúmenn: Einar, Brynjólfur og Kristinn

Bók Kjartans er mikil að vöxtum, í stóru broti og prýdd fjölda mynda, sem sumar hafa ekki birst áður. Hún er lipurlega skrifuð að hætti þjálfaðs blaðamanns, þótt talsvert sé um endurtekningar og lýsingar séu ósjaldan langdregnar. Það lífgar upp á verkið, að Kjartan beinir einkum sjónum að þremur helstu forystumönnum hreyfingar kommúnista og vinstri sósíalista á Íslandi, þeim Einari Olgeirssyni, Brynjólfi Bjarnasyni og Kristni E. Andréssyni, en þeim kynntist hann öllum og þó misvel. Gátan, sem hann reynir að ráða, er, hvers vegna þessir þrír hæfileikamenn urðu grjótharðir stalínistar, sem þrættu fram á grafarbakkann fyrir augljósar staðreyndir. Meginskýring Kjartans er hin sama og Halldór Laxness varpaði fram í Skáldatíma árið 1963: Kommúnismi er trú frekar en stjórnmálaskoðun, draumur um paradís á jörðu, og trúmenn loka augunum fyrir því, sem fellur ekki að sannfæringu þeirra. Þeir vilja ekki vakna til veruleikans.

Eflaust er margt til í þessari skýringu, en ég myndi bæta við tveimur öðrum. Líf sumra manna er öðrum þræði veðmál í valdabaráttu, og þessir þrír menn og aðrir í þeirra liði voru sannfærðir um, að þeir hefðu veðjað rétt á framtíðina. Þeir myndu von bráðar breytast úr utangarðsfólki í innanbúðarmenn. Persónulegar fórnir þeirra væru tímabundnar. Í öðru lagi skildu kommúnistar ekki, að kenning þeirra er óframkvæmanleg. Þekkingin dreifist á mennina,  og þess vegna verður líka að dreifa valdinu á þá, ef ekki á illa að fara. Sameign á framleiðslutækjunum er hugmynd, sem ekki gengur upp, en einmitt þess vegna urðu þeir kommúnistar, sem náðu völdum, að velja um það að sleppa þeim eða herða tökin, og þeir brugðu oftast á seinna ráðið.

Löðrungar og Rússagull

Kjartan þakkar þessum þremur öflugu forystumönnum meira brautargengi sósíalista á Íslandi en víðast annars staðar. Hann hefur bersýnilega sterkari taugar til Einars en þeirra Brynjólfs og Kristins, og var þó Einar blendinn maður samkvæmt lýsingu hans, elskulegur og hlýr á yfirborði, en langrækinn og undirförull. Margt gerðist skrýtið í tíð Kjartans. Til dæmis varð Einar ofsareiður á landsfundi Sósíalistaflokksins 1962, þegar Lúðvík Jósepsson stjórnaði samblæstri um að fella marga kommúnista úr miðstjórn. Eftir atkvæðagreiðsluna æddi Einar að næsta Lúðvíksmanni, sem hann sá, Ásmundi Sigurðssyni, og gaf honum kinnhest (bls. 423). Þegar Hannibal Valdimarsson mætti eitt sinn með tvo fylgdarmenn óboðna á samningafund með Einari og fleiri sósíalistum, snöggreiddist Einar, stökk á fætur, þreif í Hannibal og rak meðreiðarsveina hans út, og gekk þá Hannibal með þeim á dyr (bls. 452). Sjálfur slapp Kjartan ekki undan höggum. Brynjólfur vatt sér að honum og rak honum löðrung eftir fund í Sósíalistaflokknum 1966, þar sem Brynjólfur varð undir í átökum um, hvort leggja ætti flokkinn niður og breyta Alþýðubandalaginu í stjórnmálaflokk (bls. 455).

Kjartan fer fremur lauslega yfir fjárstuðning Kremlverja við kommúnistahreyfinguna íslensku (fram til 1938), enda eru heimildir um hann gloppóttar. Hann hefur þó verið talsverður, og nýlega kom út í Danmörku bók, Rauða neðanjarðarhreyfingin (Den røde underverden) eftir Niels Erik Rosenfeldt prófessor og fleiri, þar sem staðfestar eru upplýsingar Þórs Whiteheads prófessors um, að sænski kommúnistinn Signe Sillén hafi séð um leynileg samskipti Moskvumanna við norræna kommúnista, þar á meðal hina íslensku. Kjartan gerir hins vegar eins skilmerkilega grein fyrir hinum mikla fjárstuðningi Kremlverja við Sósíalistaflokkinn og hann getur (frá 1938). Hann segist ekki hafa vitað af honum, fyrr en skjöl fundust um hann í Moskvu, en heldur því fram, að féð hafi allt runnið til bókafélagsins Máls og menningar. Hann virðist þó ekki gera ráð fyrir þeim möguleika, að einhver fjárstuðningur til viðbótar hafi verið veittur á vegum leynilögreglunnar, sem síðast hét KGB, eða leyniþjónustu hersins, GRÚ, og eru engin gögn þessara stofnana aðgengileg.

Kjartan skýrir enn fremur frá því, að sumir Alþýðubandalagsmenn hafi ekki virt samþykkt flokksins frá 1968 um að rjúfa öll tengsl við þau kommúnistaríki, sem réðust það ár inn í Tékkóslóvakíu. Lúðvík Jósepsson vildi taka slík tengsl upp aftur og hitti oft fulltrúa Kremlverja á laun. Ingi R. Helgason hafði líka að minnsta kosti tvisvar samband við sendiráð Ráðstjórnarríkjanna í Reykjavík samkvæmt skýrslum þess og bauðst til að taka við greiðslum fyrir sýndarstörf, og myndi hann síðan láta þær renna til flokksins, en þessum boðum hans var hafnað. Deilir Kjartan hart á þá fyrir þetta.

Lítið gert úr ofbeldiseðli og austurtengslum

Þótt Kjartan vilji vera heiðarlegur í uppgjöri sínu við fortíðina, gerir hann miklu minna en efni standa til úr ofbeldiseðli hinnar íslensku hreyfingar og austurtengslum hennar. Skiptingin í kommúnista og jafnaðarmenn var ekki einungis um afstöðuna til fyrri heimsstyrjaldar, eins og er á Kjartani að skilja (bls. 19), heldur líka og miklu frekar um afstöðuna til ofbeldis. Jafnaðarmenn höfnuðu því og vildu fara þingræðisleiðina, taka völdin friðsamlega. Kommúnistar voru hins vegar byltingarmenn, sem skeyttu því engu, hvort þeir hefðu lýðræðislegt umboð.

Eitt dæmi um tilhneigingu Kjartans til að gera of lítið úr austurtengslunum er svokallað Stalínsbréf, en í rússnesku tímariti haustið 1931 gagnrýndi Stalín allt samstarf kommúnista við vinstri jafnaðarmenn. Kjartan segir (bls. 100 og 139), að þetta bréf hafi aldrei birst á íslensku þrátt fyrir brýningar Moskvumanna, og hefur hann það til marks um, að íslenskir kommúnistar hafi ekki alltaf verið þægir í taumi. En eins og ég bendi á í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998, birtist Stalínsbréfið í fjölritaða tímaritinu Bolsjevikkanum í maí 1934. Raunar skiptir Stalínsbréfið ekki eins miklu máli og sú staðreynd, að íslenskir kommúnistar fylgdu umyrðalaust þeirri línu frá Moskvu í nokkur ár, að jafnaðarmenn væru „höfuðstoð auðvaldsins“, og höfnuðu öllu samstarfi við þá, þótt það ætti eftir að breytast með nýrri línu frá Moskvu.

Ýmislegt fleira er hæpið eða rangt. Kjartan lætur að því liggja, að stofnun Sósíalistaflokksins haustið 1938 hafi verið í óþökk Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns (bls. 192–193), en Þór Whitehead hefur hrakið þá kenningu með gildum rökum. Kjartan minnist ekki heldur á skjal frá 1939, sem ég fann í gögnum Sósíalistaflokksins á Landsbókasafni og get um í bók minni. Það er bréf frá forseta Alþjóðasambands ungra kommúnista í Moskvu til formanns æskulýðssamtaka Sósíalistaflokksins, þar sem einmitt er lýst ánægju með hinn nýja flokk og stefnu hans. Það segir líka sitt, þegar Kristinn E. Andrésson gaf skýrslu um Sósíalistaflokkinn í Moskvu vorið 1940, að þá var ekki vikið einu orði að því, að íslenskir kommúnistar hefðu stofnað flokk í óleyfi.

Furðuleg yfirsjón

Furðulegasta yfirsjón Kjartans er, þegar hann fullyrðir (bls. 214), að allt frá skýrslugjöf Kristins vorið 1940 hafi forystumenn Sósíalistaflokksins ekki verið í neinu sambandi við Kremlverja, uns sendiráð Ráðstjórnarríkjanna var sett á laggir í Reykjavík snemma árs 1944. Þetta er ekki rétt, þótt sambandið væri vissulega stopult vegna stríðsins. Í júlí 1941 tóku Kremlverjar því illa, þegar þingmenn sósíalista greiddu atkvæði gegn herverndarsamningi við Bandaríkin. Íslensku sósíalistarnir voru á gömlu línunni frá Moskvu, sem var að telja „auðvaldsríki“ eins og Bretland og Bandaríkin engu skárri en þýska nasista. Hafði Einar Olgeirsson, ritstjóri Þjóðviljans, ráðist heiftarlega á breska hernámsliðið og þess vegna verið hnepptur í fangelsi í Bretlandi. Nú hafði Hitler hins vegar ráðist á Rússland, og vildu Kremlverjar ólmir fá liðsinni Bandaríkjanna í stríðinu við Nasista-Þýskaland. Vjatseslav Molotov utanríkisráðherra hringdi í Georgí Dímítrov, forseta Kominterns, og skipaði honum að leiðrétta línuna til Íslands. Dímítrov sendi skeyti til Williams Gallachers, þingmanns kommúnistaflokksins breska, sem hafði tal af Einari Olgeirssyni, en Einar var þá að búa sig til heimferðar eftir fangelsisdvöl sína ytra. Eftir heimkomuna hélt Einar fund með innsta hring sósíalista og tilkynnti þeim, að nú hlytu þeir að söðla um og veita Bandaríkjunum alla þá aðstoð, sem þeir mættu. Urðu sósíalistar um skeið „háværustu vinir Bandaríkjanna“ á Íslandi, eins og bandarískur sendiherra sagði í skýrslu.

Annað dæmi um austurtengsl á þessu tímabili er, að sumarið 1942 kom nefnd frá flotamálaráðuneytinu í Moskvu í kynnisför til Íslands. Með í för voru menn úr leyniþjónustu flotans, sem sneru sér til sérstaks trúnaðarmanns Kremlverja á Íslandi, Eggerts Þorbjarnarsonar (sem Kjartan starfaði með um skeið). Eggert kom á leynifundi Einars Olgeirssonar með leyniþjónustumönnum, og sagði Einar þeim, að hann vildi taka aftur upp samband við Kremlverja, sem rofnað hefði vegna stríðsins. Skýrsla um þennan fund er í skjalasafni leyniþjónustunnar og því ekki aðgengileg, en afrit af henni var sent á skrifstofu kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna, og þess vegna er vitað um hann. Sérstakir kaflar eru um bæði þessi atvik í bók minni.

Smíðagallar og smávillur

Þótt bók Kjartans sé fróðleg, eru á henni ýmsir smíðagallar. Mörg rússnesk manna- og staðanöfn eru nefnd í bókinni. Ég er hissa á Kjartani að nota ekki umritunarreglur Árnastofnunar, sem kunnáttumenn settu saman fyrir mörgum árum. Þess í stað stafsetur Kjartan stundum rússnesk nöfn á þýsku! Hann skrifar til dæmis Kharkow í stað Kharkov (bls. 128) og telur Stalín á einum stað vera Vissarionowitsch (bls. 130), ekki Víssaríonovítsj. Skírnarnafn Stalíns er mjög á reiki í verkinu, ýmist Jósef, Jósep eða Josif, en ætti að vera Josíf. Málið er ekki heldur eins hreint og ég hefði búist við af gömlum nemanda í Menntaskólanum á Akureyri. Kjartan notar til dæmis dönskuslettuna „glimrandi“ (bls. 388) og segir „riftað“ (bls. 391) í stað þess að nota sterku beyginguna, rift.

Furðumargar smávillur eru í ritinu. Til dæmis var Ólafur Friðriksson ekki formaður Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur veturinn 1920–1921, heldur varð hann formaður í janúar 1922 (bls. 17). Bréf frá Ársæli Sigurðssyni fyrir hönd Sambands ungra kommúnista til Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur var ritað 1925, ekki 1923 (bls. 27). Þetta væri í sjálfu sér aukaatriði (eða meinlaus prentvilla), væri ekki fyrir það, að höfundur leggur sérstaklega út af því. Kjartan heldur því fram, að þeir Brynjólfur Bjarnason og Hendrik Siemsen Ottósson hafi verið gestir, ekki fulltrúar á Komintern-þinginu 1920 (bls. 30 og 251). Um þetta höfum við Snorri G. Bergsson sagnfræðingur báðir skrifað langt mál, en Kjartan gengur alveg fram hjá þeim skrifum og minnist raunar ekki á stórfróðlega bók Snorra um upphafsár kommúnistahreyfingarinnar, Roðann í austri. Hníga ýmis rök að því að trúa Hendrik um það, að hann hafi verið fullgildur fulltrúi, en hugsanlega hefur Brynjólfur verið áheyrnarfulltrúi eða gestur. Kjartan segir réttilega á einum stað (bls. 25), að Jafet Ottósson hafi verið fyrsti formaður Félags ungra kommúnista í Reykjavík, en ranglega annars staðar (bls. 31 og 136), að Hendrik Ottósson hafi verið fyrsti formaður félagsins. Svo mætti lengi telja, en þess ber að geta, að beinum villum fækkar, þegar frásögnin færist nær samtíma Kjartans.

Oftast sanngjarnir dómar

Ýmsa hnökra þessa yfirgripsmikla verks hefði mátt fjarlægja, hefði útgefandinn lagt eins mikið í yfirlestur handrits og hann gerir í útlit bókarinnar og frágang. En þakklátustu lesendur Kjartans verða áreiðanlega gömul flokkssystkini hans. Hann lýsir vel ferð þeirra um lífið. Jafnframt munu áhugamenn um sögu vinstri hreyfingarinnar á Íslandi hafa gaman af bók hans. Þar er margt forvitnilegt, auk löngu kaflanna um Einar, Brynjólf og Kristin til dæmis styttri þættir um þá Inga R. Helgason, Guðmund J. Guðmundsson, Guðmund Hjartarson, Eðvarð Sigurðsson og fleiri. Dómar Kjartans um gamla samherja eru oftast sanngjarnir. Hann reynir að draga ekkert undan, hvorki gott né slæmt. En kjarninn í gagnrýni hans á þessa samherja á við um hann sjálfan: Kjartan horfir fram hjá því, sem fellur ekki að heimsmynd hans, þótt vissulega sé mynd hans raunhæfari en þeirra.

(Ritdómur í Morgunblaðinu 10. desember 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir