Laugardagur 12.12.2020 - 08:38 - Rita ummæli

Nokkrar fleiri villur í bók Kjartans um kommúnista

Í ritdómi mínum í Morgunblaðinu 10. desember 2020 um bók Kjartans Ólafssonar, Drauma og veruleika (í næsta bloggi hér á undan) nefndi ég nokkrar villur í bókinni. Þær eru margar fleiri, þótt ég vildi ekki eyða of miklu rými í að telja þær upp. Hér eru nokkrar smávægilegar, ef  bókin verður einhvern tíma endurprentuð (en eitthvað er líka af stafvillum, sem ég hirti ekki um að leiðrétta):

Lærimeistari Einars Olgeirssonar í Berlín hét Duncker, ekki Duncher (bls. 21).

Höfuðborg Eistlands heitir Tallinn, ekki Tallin (bls. 24).

Stjórnarmaður í Sambandi ungra kommúnista og síðar forseti hét Sigurgeir Björnsson, ekki Siggeir (bls. 27).

Kjartan nefnir Verklýðssamband Norðurlands Verkalýðssamband (bls. 59, 87 og víðar). Þetta er auðvitað smáatriði, en í umsögn í Tímariti Máls og menningar 1993 um rit eftir Árna Snævarr um íslenska kommúnista var sérstaklega fundið að því, að hann hefði ranglega kallað málgagn þeirra Verkalýðsblaðið, ekki Verklýðsblaðið. Leyfi ég mér því að nefna þetta.

Garnaslagurinn í Reykjavík var ekki haustið 1930, heldur 11. desember (bls. 85).

Einn af böðlum Stalíns hét Lazar Kaganovítsj, ekki Lazsar (bls. 118).

Kjartan hefur eftir Arnóri Hannibalssyni (bls. 120), að óvíst sé, hver Stefánsson sé, sem Komintern hafi valið í stjórnmálanefnd (miðstjórn) kommúnistaflokksins 1934, en ég bendi á í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998, að þetta var Benedikt Stefánsson, mágur Hjalta Árnasonar.

Kjartan segir, að fyrsta íslenska sendinefndin hafi farið til Ráðstjórnarríkjanna haustið 1931 (bls. 126), en fyrr á árinu höfðu þeir Stefán Ögmundsson og Haraldur Bjarnason raunar farið saman þangað austur í boðsferð. Enn fremur höfðu þrír fulltrúar frá Íslandi setið verkalýðsmót í Moskvu 1930 og síðan ferðast suður á bóginn.

Finnland hlaut ekki sjálfstæði árið 1918 (bls. 201), heldur í desember 1917.

Kjartan segir, að kröfugöngur hafi verið farnar í Reykjavík 1. maí ár hvert allt frá 1923 (bls. 228), en þær lágu niðri í nokkur ár frá 1927.

Mynd af Laxness að halda ræðu 1. maí (bls. 322) er frá 1936, eins og ég get um í bók minni, ekki 1937.

Á einum stað (bls. 25) segir Kjartan réttilega, að FUK hafi verið stofnað 23. nóvember 1922 (á ársafmæli svokallaðs Drengsmáls), á öðrum (bls. 31) ranglega, að það hafi verið stofnað 3. nóvember.

Kjartan er maður háaldraður og gerði eflaust sitt besta, enda er bók hans skrifuð af heiðarleika og einlægni, og auðvitað gjörþekkir hann sögu Sósíalistaflokksins á sjötta og sjöunda áratug, þegar hann starfaði þar. Þar eru miklu færri villur en í fyrri hlutanum. En útgefandinn hefði átt að fá einhvern vandvirkari mann en Jón Ólafsson til að fara yfir handritið. Og sá yfirlesari hefði haft gott af því að skoða bækur okkar Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar um kommúnistahreyfinguna betur en þeir Kjartan og Jón gera, en raunar er ekki minnst á bók Snorra, Roðann í austri, í bók Kjartans. Hefur Snorri þó gert rækilegar frumrannsóknir á sögu kommúnistahreyfingarinnar, og er mér ánægja að segja frá því, að bráðlega er væntanlegt hjá Almenna bókafélaginu tveggja binda verk Snorra um kommúnistahreyfinguna íslensku. Fer hann þar í saumana á ýmsum álitamálum.

Ég sleppti líka í ritdómi mínum hugleiðingum um aðgang að heimildum, en um það mál má margt segja. Kjartan hefur haft aðgang að heimildum, sem ekki voru tiltækar, þegar ég skrifaði bók mína um Íslenska kommúnista 1918–1998, aðallega fróðlegum bréfum Stefáns Pjeturssonar til Einars Olgeirssonar, en einnig að önnur skjölum, sem hann segir geymd á góðum stað. Breyta þessar heimildir þó engu um  bók mína. Kjartan segir líka frá skjölum, sem hafi horfið, og er á honum að skilja, þótt hann segi það ekki beint, að Einar Olgeirsson hafi fjarlægt þau úr skjalasafni Sósíalistaflokksins. Mér er sagt, að enn sé talsvert af slíkum skjölum í vörslu einkaaðila. Er þetta mál allt hið dularfyllsta, en ráðlegt að segja sem minnst um það að sinni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir