Laugardagur 13.02.2021 - 06:24 - Rita ummæli

Nýfrjálshyggjan og tekjudreifingin

Í Morgunblaðinu 27. janúar 2021 kennir Ólafur Sigurðsson, fyrrverandi fréttamaður, nýfrjálshyggju um flest það, sem aflaga hefur farið í heiminum síðustu fimmtíu árin. En minna verður á, að þetta tímabil er eitthvert mesta framfaraskeið mannkynssögunnar: Fátækt hefur minnkað stórkostlega, hungurvofunni verið bægt frá þrátt fyrir ótal hrakspár um hið gagnstæða, barnadauði minnkað og margvísleg önnur stórvirki unnin í læknavísindum (nú síðast með hinni ótrúlega öru gerð bóluefna gegn kórónuveirunni frá Kína). Ólafur hafði gott af að lesa tvær bækur, sem komið hafa út um þetta á íslensku síðustu árin, Heimur batnandi fer eftir Matt Ridley og Framfarir eftir Johan Norberg.

Hver er þá vandinn? Að sögn Ólafs er hann ójafnari dreifing auðs og tekna. Nú er það raunar rangt á heimsvísu. Alþjóðleg tekjudreifing (til dæmis mæld á kvarða Ginis) hefur orðið jafnari af þeirri einföldu ástæðu, að mörg hundruð milljón manna hafa brotist úr fátækt í bjargálnir í suðrænum löndum. En hitt er rétt, að þessi dreifing hefur orðið ójafnari á Vesturlöndum. En það er ekki vegna þess, að hinir fátæku hafi orðið fátækari, heldur vegna hins að teygst hefur á tekjukvarðanum upp á við. Lífskjör allra tekjuhópa hafa batnað, en tekjur tekjuhæsta hópsins í flestum löndum hafa hækkað miklu meira og hraðar en tekjur sumra hópanna fyrir neðan hann. Ein skýringin er hnattvæðingin. Einstaklingar með sérstaka og einstæða hæfileika, til dæmis söngvarar, leikarar, íþróttahetjur, uppfinningamenn og frumkvöðlar, hafa nú aðgang að miklu fjölmennari markaði en áður. Mikil breyting hefur líka orðið á hinum ríku. Fyrir fjörutíu árum höfðu um tveir þriðju milljarðamæringanna í heiminum erft auðæfi sín samkvæmt upplýsingum Forbes. Nú hefur þetta snúist við: um tveir þriðju þeirra hafa skapað auðæfi sín sjálfir.

Berum saman tvö lönd, sem við getum kallað Svíþjóð og Minnesota. Kjör hinna verst settu eru svipuð í löndunum tveimur, en munurinn sá, að hinir tekjuhæstu eru miklu tekjuhærri í Minnesota en Svíþjóð. Tekjukvarðinn teygist þar miklu lengra upp á við. Í hvoru landinu myndi duglegt og áræðið fólk vilja búa?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. febrúar 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir