Fimmtudagur 18.02.2021 - 12:03 - Rita ummæli

Brellur, firrur, gloppur, skekkjur og villur í verkum Jóns Ólafssonar

Jón Ólafsson hefur gefið út tvær bækur um sögu íslenskra kommúnista og vinstri sósíalista, Kæru félaga árið 1999 og Appelsínur frá Abkasíu árið 2012, og hann var aðalyfirlesari hinnar þriðju, Drauma og veruleika eftir Kjartan Ólafsson, sem birtist árið 2020. Jón hefur einnig birt nokkrar ritgerðir um íslensku kommúnistahreyfinguna. Þótt hann sé skólagenginn í heimspeki, ekki sagnfræði, auðveldaði það honum rannsóknir á austurtengslum íslenskra kommúnista og vinstri sósíalista, að hann talar rússnesku. Eftir að Ráðstjórnarríkin leystust upp árið 1991, gat hann því kynnt sér ýmis skjöl í söfnum í Moskvu. Nú bregður svo við, að Jón ræðst hér í Kjarnanum á mig fyrir nýlegan ritdóm í Morgunblaðinu um bók Kjartans, og er mér skylt að svara á sama vettvangi. Í grein sinni, sem ber heitið „Hver getur best gert upp við kommúnismann?“ sakar Jón mig um geðvonsku, smásmygli og öfund, en hrekur ekki eitt einasta atriði efnislega, sem ég benti á í ritdómnum. Ég get upplýst af því tilefni, að ég nefndi í ritdómnum aðeins nokkrar villur af þeim fjölmörgu, sem ég fann, og aðeins þær, sem mér fundust skipta einhverju máli um söguþráð og efnistök. Lengri villulista birti ég á öðrum vettvangi, enda er ég út af fyrir sig sammála Jóni um, að við megum ekki gleyma okkur í smáatriðum. Og ekki veit ég, hvern ég ætti að öfunda í þessu máli. Kjartan Ólafsson er háaldraður að reyna að gera hreint fyrir sínum dyrum, og ég öfunda hann svo sannarlega ekki af því að hafa þurft að treysta á Jón Ólafsson um aðföng og yfirlestur. Fyrir vikið er bók Kjartans miklu lakari en hún hefði getað orðið. Einhver ágætasti vísindamaður okkar Íslendinga, Árni Magnússon handritasafnari, skrifaði eitt sinn: „Svo gengur það til í heiminum, að sumir hjálpa erroribus á gáng, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus. Hafa svo hverjir tveggja nokkuð að iðja.“ Jón hefur með verkum sínum skipað sér í fyrri flokkinn, og verð ég að taka hvatningu Árna handritasafnara alvarlega og reyna að leiðrétta hann, svo að aðrir láti ekki glepjast. Skipti ég hér erroribus Jóns í fimm flokka: brellur, firrur, gloppur, skekkjur og villur.

 

Brellur Jóns Ólafssonar

Brellum sínum beitir Jón Ólafsson aðallega, þegar hann þarf að bregðast við leiðréttingum. Hann reynir ýmist að gera lítið úr viðmælandanum eða leiðréttingunum sjálfum í stað þess að hafa umyrðalaust það, sem sannara reynist. Í greininni hér í Kjarnanum rifjaði hann til dæmis upp, að hann hefði sem nemandi í Menntaskólanum í Hamrahlíð verið á fundi í Norðurkjallara skólans, þar sem ég hefði andmælt sósíalisma. Ég hefði haft á reiðum höndum tilvitnanir í kenningasmiði marxismans og jafnvel nefnt blaðsíðutöl. „Hins vegar vildi svo ein­kenni­lega til að þegar sam­visku­samir mennta­skóla­nemar fóru að leita uppi til­vitn­an­irnar þá reynd­ist erfitt að finna þær. Það var ekki fyrr en löngu síðar að ein­hver benti mér á að hversu snjallt þetta mælsku­bragð væri – að nefna blað­síðu­töl út í loftið – því þannig fengju áheyr­endur á til­finn­ing­una að ræðu­mað­ur­inn gjör­þekkti text­ana sem hann vitn­aði í eftir minni. Og þótt ein­hver færi að grufla í bók­unum á eft­ir, þá breyt­ast fyrstu hug­hrif ekki svo auð­veld­lega.“ Jón nefndi að vísu ekkert dæmi. En ég man sjálfur vel eftir þessu. Tilvitnunin, sem ég notaði, var til Levs Trotskíjs í Byltingunni svikinni frá 1937. „Í landi, þar sem ríkið er eini vinnuveitandinn, bíður stjórnarandstæðingsins hægur hungurdauði.“ Ég hafði rekist á þessi napurlegu ummæli í bók Friedrichs von Hayeks, Leiðinni til ánauðar, og haft þau eftir í kappræðum um sósíalisma við Halldór Guðmundsson (síðar útgáfustjóra) í framhaldsskólum. Hann bar brigður á það, að rétt væri eftir haft, svo að ég gerði mér ferð á Landsbókasafnið til að sannreyna tilvitnunina, en Hayek hafði ekki sett við hana blaðsíðutal í bók sinni. Ég fann tilvitnunina eftir nokkra leit og mundi þess vegna blaðsíðutalið. Hún er í 11. kafla bókar Trotskíjs á blaðsíðu 283 í frumútgáfunni frá 1937. Þetta er eina blaðsíðutalið úr ritum marxista, sem ég fór með á þessum fundum.

Ein brella Jóns Ólafssonar er þannig að segja um mig sögu, sem hefur brenglast í meðförum hans, en á að gera mig ótrúverðugan. Önnur brella hans er að svara athugasemdum mínum ekki efnislega, heldur afgreiða þær sem „smásmygli“. En það var svo sannarlega engin smásmygli að vekja athygli á ótrúlegri yfirsjón Kjartans Ólafssonar og yfirlesara hans, Jóns Ólafssonar, eins og ég gerði í ritdómi mínum. Fullyrt er í Draumum og veruleika, að Sósíalistaflokkurinn hafi ekki verið í neinu sambandi við Kremlverja, frá því að Kristinn E. Andrésson gaf skýrslu um starfsemi hans í Moskvu vorið 1940 og tók þá við línu og þangað til sendiráð Ráðstjórnarríkjanna var stofnað í Reykjavík snemma árs 1944. En þetta er alls ekki rétt, eins og ég skýrði frá. Forystumenn Sósíalistaflokksins fylgdu fast þeirri línu, sem Kristinn kom með heim og þeir höfðu vitað af og fylgt áður, að stríðið væri aðeins stríð milli tveggja fylkinga auðvaldsríkja. Chamberlain væru engu skárri en Hitler. Sú var lína Stalíns, eftir að hann gerði griðasáttmálann við Hitler 23. ágúst 1939. En línan hlaut að gerbreytast, þegar Hitler réðst á Ráðstjórnarríkin 22. júní 1941. Eftir það vildu Kremlverjar ólmir, að Bandaríkjamenn hæfu þátttöku í stríðinu sér við hlið. Íslenskir sósíalistar áttuðu sig ekki á þessu og greiddu atkvæði gegn herverndarsamningnum við Bandaríkin sumarið 1941. Þá varð uppi fótur og fit í Moskvu. Vjatsjeslav Molotov utanríkisráðherra hringdi í Georgí Dímítrov, forseta Kominterns, og skipaði honum að leiðrétta línuna til íslenskra sósíalista. Dímítrov hafði samband við William Gallacher, þingmann breskra kommúnista, og þeir komu boðum til Einars Olgeirssonar, sem var að losna úr fangelsi í Bretlandi, en þar hafði hann setið vegna ofsafenginna árása á breska hernámsliðið í samræmi við fyrri línu. Þegar Einar kom heim, kvaddi hann saman fund helstu trúnaðarmanna Sósíalistaflokksins í Oddfellow-húsinu og sagði þeim, að nú yrði að skipta um stefnu og styðja Bandaríkin og Bretland, sem ættu að geta liðsinnt Ráðstjórnarríkjunum á austurvígstöðvunum. Skjöl eru til í Moskvu um samskipti Molotovs, Dímítrovs og Gallachers, en Áki Jakobsson, sem var á fundinum í Oddfellow-húsinu, skrifaði um hann í óbirtum endurminningum sínum, sem varðveittar eru á héraðsskjalasafni Skagfirðinga. Þarf raunar ekki vitnanna við, því að eftir heimkomu Einars gerðust sósíalistar háværustu vinir Bandaríkjanna á Íslandi, eins og bandaríski sendiherrann skrifaði í skýrslu. Allt þetta kemur fram í bókum okkar Þórs Whiteheads.

Ég nefndi í ritdómnum annað dæmi um samskipti Kremlverja og íslenskra sósíalista á þessu tímabili. Menn úr leyniþjónustu ráðstjórnarflotans voru staddir á Íslandi árið 1942 og hittu að máli Íslending, sem gekk undir dulnefninu Skúli Kristjánsson. Var skrifuð um þetta skýrsla, sem enn er læst niðri í lokuðu safni leyniþjónustu hersins, GRÚ, en því er vitað af henni, að afrit var sent til Kominterns. Njósnarar og erindrekar leyniþjónustunnar voru einir um að ganga undir dulnefnum í skýrslum sem þessum, og hefur þetta líklega verið Eggert Þorbjarnarson, sem var síðan lengi framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins. Ég gat þess ekki í ritdómnum, en það er auðvitað saga til næsta bæjar, ef framkvæmdastjóri íslensks stjórnmálaflokks reynist vera erindreki erlends einræðisríkis, sem seildist til áhrifa á Íslandi. (Raunar hygg ég, að Kjartan Ólafsson sé sammála mér um, að Eggert hafi beinlínis verið slíkur erindreki. Ég get ekki skilið ýmis ummæli hans í Draumum og veruleika öðru vísi.) Eggert hafði síðan milligöngu um það, að þessir leyniþjónustumenn laumuðust heim til Einars Olgeirssonar eitt kvöldið, og sagði hann þeim, að hann vildi gjarnan taka aftur upp sambandið við Kremlverja, sem hefði rofnað í stríðinu. Það er langsótt að telja það „smásmygli“ að vekja máls á þessum tveimur mikilvægu atvikum.

Áður hefur Jón Ólafsson beitt svipuðum brellum í viðbrögðum við gagnrýni minni. Ég birti árið 2008 tvær ritgerðir um alþjóðleg tengsl kommúnistahreyfingarinnar íslensku. Í Þjóðmálum skrifaði ég um þá 23 Íslendinga, sem hlutu árin 1929–1938 byltingarþjálfun á leyniskólum Kominterns í Moskvu, Vesturskólanum og Lenínskólanum. Leiðrétti ég þar margar villur í ritgerð Jóns um þessa leyniskóla í Nýrri Sögu 1997 og gagnrýndi hann fyrir að gera ekki viðfangsefninu betri skil. Nokkrir nemendur hefðu til dæmis farið fram hjá honum, þótt heimildir væru til um þá. Í ráðstefnuritinu Rannsóknum í félagsvísindum, IX. bindi, skrifaði ég um þá erindreka, sem Komintern sendi til Íslands. Þar leiðrétti ég líka margar villur í ritum Jóns, aðallega Kæru félögum. Í svari sínu í Sögu 2009 gerði Jón eins lítið úr aðfinnslum mínum og hann frekast gat. Kvað hann mig í ritgerðinni um leyniskólana aðeins hafa leiðrétt „tvær dagsetningar“, en síðan gert athugasemdir við það, „hvort maður sem gegnir þingmennsku fyrir flokk hljóti þá að teljast framámaður [svo] hans“ og „hvort áherslu beri að leggja á byltingarþjálfun eða almennt flokksstarf“ í skrifum um þessa skóla. Jón bætti við: „Vart getur það heitið leiðrétting á skrifum mínum að Hannes geti sér þess til að ákveðnir einstaklingar sem ég taldi ekki í hópi flokksskólanemenda hafi verið það enda hvarflar ekki að mér að listi minn sé tæmandi.“ Sagði hann mig síðan í ritgerðinni um erindreka Kominterns aðeins hafa bent „á nokkrar prentvillur og misrituð ártöl“ í Kæru félögum og á það, að hann hefði haft rangt fyrir sér „um höfund bréfs sem sent var til Moskvu snemma á þriðja áratugnum“, auk þess sem „fleiri Kominternfulltrúar hafi komið til Íslands en fram kemur í bókinni“.

Hér er gert miklu minna úr leiðréttingum mínum en efni standa til. Í rannsókn sinni á leyniskólunum í Moskvu kom Jón Ólafsson ekki auga á þrjá nemendur, sem þó eru til aðgengilegar heimildir um: Hjalta Árnason, Jóhannes Jósepsson og Elísabetu Eiríksdóttur. Heimildirnar um Hjalta og Jóhannes eru minningargreinar um þá eftir menn, sem vel þekktu til þeirra. Þetta eru því ekki aðeins tilgátur mínar, eins og Jón gefur í skyn. En ein opinber heimild er óbein um Elísabetu: Hún sagðist í blaðaviðtali 1954 hafa verið í Moskvu sautján árum áður. Lá þá beint við að álykta, að hún hefði verið þar í byltingarskóla, því að Moskva var ekki í alfaraleið þau ár og ekki getið um neinar sendinefndir, sem hún gæti hafa tekið þátt í. Þessa ályktun fékk ég staðfesta í bréfi í skjalasafni Sósíalistaflokksins, þar sem Einar Olgeirsson sagði hana hafa dvalist í eitt ár í Moskvu. Með því að skoða störf hennar á Íslandi tókst mér að tímasetja Moskvudvöl hennar á bilinu frá því í árslok 1935 fram í ársbyrjun 1937. Óþarfi er líka að gera lítið úr „dagsetningunum tveimur“, sem Jón Ólafsson nefnir svo. Hann sagði í Kæru félögum (bls. 60), að Vesturskólamaðurinn Jafet Ottósson hefði snúið heim til Íslands haustið 1931. En hann fór vorið 1931, og því skiptir það máli, að einmitt þá um sumarið fylgdust Íslendingarnir í Moskvu með ógætilegu tali hans heima á Íslandi og skrifuðu sérstaka skýrslu um það, sem Jón ræðir talsvert um. Hin villan er veigaminni. Jón sagði á einum stað í Kæru félögum (bls. 60), að Vesturskólamaðurinn Gísli Indriðason hefði komið til Moskvu haustið 1931, en neðarlega á sömu blaðsíðu, að hann „hefði átt að útskrifast eftir eins árs kúrsus sumarið 1931“. Hið síðara hlýtur að eiga að vera sumarið 1932. Allir geta gert stafvillur. En það ber vitni losaralegum vinnubrögðum að nefna tvö ártöl um sama atvik á einni og sömu blaðsíðu.

Dæmið af Jóhannesi Jósepssyni, sem farið hafði fram hjá Jóni Ólafssyni, svo að hann nefndi hann ekki í bók sinni, leiddi aðra síðan á villigötur. Birna Berndsen samdi 2011 B. A. ritgerð í félagsfræði um Steinunni Árnadóttur frá Höfðahólum, og hafði Guðbjörg Linda Rafnsdóttir umsjón með henni. Þótt meginstefið í ritgerðinni sé kommúnismi Steinunnar, er eina ritið um íslensku kommúnistahreyfinguna, sem nefnt er í heimildaskrá og notað í ritgerðinni, bók Jóns Ólafssonar, Kæru félagar. Tveggja bóka Þórs Whiteheads, sem komnar voru út fyrir 2011, er að engu getið og því síður ýmissa ritgerða minna, sem þá höfðu líka birst. Steinunn var nátengd nokkrum forystumönnum kommúnista, fastagestur í Unuhúsi og systir Hjalta Árnasonar. Hún bjó um skeið í Danmörku og átti danskan vin, Thorkild Hilst. Þau skrifuðust á, eftir að hún fór til Íslands. Í bréfi frá 10. janúar 1936 sendir Hilst henni kveðju með „Jósefssyni“, sem komið hafi við í Kaupmannahöfn á leið frá Ráðstjórnarríkjunum. Hafi þeir farið saman í Tívolí. Í hornklofa (bls. 39) upplýsir Birna, að þetta sé Lúðvík Jósefsson. En það er fráleitt. Engar heimildir eru til um, að Lúðvík Jósepsson (svo að rétt sé farið með nafn hans) hafi farið þangað austur á þessum árum. Í janúar 1936 var hann 22 ára kennari við Gagnfræðaskólann á Neskaupstað. Þetta hefur auðvitað verið Jóhannes Jósepsson, sem hlaut þjálfun í Lenínskólanum í Moskvu 1934–1935. Umsjónarmaður hefði átt að vara nemandann við að treysta aðeins á hina óáreiðanlegu bók Jóns Ólafssonar.

Skrif Jóns um erindreka Kominterns á Íslandi eru sama marki brennd. Þar eru villurnar sumar smávægilegar, aðrar alvarlegri. Neyðarlegasta villan snýr að bréfi því, sem Jón minntist á. Það var sent frá Íslandi til Stokkhólms í janúar 1921. Undir það var skrifað „Sillinn“. Jón taldi í Kæru félögum (bls. 22), að hér hefði sænski kommúnistinn Hugo Sillén verið á ferð. En þetta var bréf frá Hendrik Siemsen Ottóssyni, sem gekk undir þessu nafni í góðra vina hópi. Ársæll Sigurðsson var til dæmis kallaður þar „Sælinn“ og Brynjólfur Bjarnason „Billinn“. Þessi villa stafar ekki af vangá, heldur vanþekkingu. Þótt hún hafi margsinnis verið leiðrétt, hefur hún slæðst inn í bók Þorleifs Friðrikssonar, Við brún nýs dags (bls. 273), sem kom út árið 2007. Önnur villa Jóns sýnir, hversu varasamt er að rannsaka ekki mál út í hörgul. Hann sagði í Kæru félögum (bls. 159) um Vasílíj Ríbakov, sem var forstöðumaður sendiráðs Ráðstjórnarríkjanna á Íslandi 1947: „Rybakov var auk þess fyrsti erlendi fulltrúinn til að fylgjast með störfum íslensku sósíalistanna, frá því að Kominternfulltrúinn Harry Levin sótti stofnþing kommúnistaflokks Íslands árið 1930.“ En eins og ég benti á í ritgerð minni um erindreka Kominterns á Íslandi, kom þýski kommúnistinn Willi Mielenz hingað sumarið 1932 og fór ekki leynt, eins og sést á blöðum íslenskra kommúnista. Hafði Jón ekki lesið þessi blöð? Einnig má í því sambandi benda á þá mikilvægu staðreynd, sem Jón getur aðeins stuttlega um neðanmáls í bók sinni (bls. 312), að annar sendiráðsritarinn í sendiráði Ráðstjórnarríkjanna í Reykjavík 1944–1947, Pavel Egorov, var starfsmaður leyniþjónustu ráðstjórnarflotans. Vitaskuld hefur hann fylgst með störfum íslenskra sósíalista.

Enn beitti Jón Ólafsson sömu brellu, þegar hann brást við bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998, en þar leiðrétti ég neðanmáls margt í verkum hans. Hann vísaði ekki neinni leiðréttingu minni á bug, heldur benti á þá villu í bók minni, að árið 1951 hefði miðstjórn Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna veitt verkamannafélaginu Dagsbrún háan styrk, 50 þúsund pund. Kvað Jón þann styrk hafa verið veittan 1961. Fór Jón síðan mörgum orðum um það, að ég lifði sníkjulífi á rannsóknum hans. Leiðréttingin var réttmæt. Styrkurinn var veittur 1961, og segi ég raunar frá honum í bók minni, en enginn slíkur styrkur var veittur 1951. En hver var heimild mín? Hún var bókin Liðsmenn Moskvu eftir Árna Snævarr, en hann hafði þetta eftir Jóni Ólafssyni! Villan er með öðrum orðum komin frá Jóni, og hann hafði haft nítján ár til að leiðrétta hana, því að bók Árna kom út 1992. Ég hafði lagt mig allan fram um að skýra sem réttast og nákvæmast frá öllu og skera úr um vafaatriði í bók minni, og er þetta eina alvarlega villan, sem ég hef fundið í henni. Og hún reyndist vera ættuð frá Jóni Ólafssyni! Hér leiddi hann mig á villigötur. Því er við að bæta, að Kremlverjar veittu raunar íslenskum sósíalistum styrk til verkalýðsbaráttu þeirra 1952, en Alþjóðasamband verkalýðsfélaga, sem var stjórnað frá Moskvu, var skrifað fyrir styrknum. Sá styrkur virðist ekki hafa verið greiddur út, þótt ekki sé það fullvíst. Einnig er fróðlegt, að Eðvarð Sigurðsson skrifaði í minniskompu sína, líklega 1952: „Ekki miklar upphæðir. Ekki sjóði eins og Comintern.“ Af því má ekki aðeins ráða, að Kremlverjar hafi veitt miklu rausnarlegri styrki til sósíalista á dögum Kominterns 1919–1943 en síðar, heldur líka, að ýmislegt er enn óupplýst um fjárstyrki að austan.

Mér fannst þó óneitanlega skrýtið að sitja undir ámæli fyrir villu, sem Jón Ólafsson gerði og hafði sjálfur ekki leiðrétt í nítján ár, í úrvinnslu rússneskra skjala, sem aðrir íslenskir fræðimenn höfðu engan aðgang að. Enn skrýtnara þótti mér, þegar það var kennt við sníkjulíf. Ég hef nýtt mér eftir föngum það, sem Jón hefur birt um samskipti íslenskra kommúnista og sósíalista við Kremlverja, þótt ég hafi um leið kostað kapps við að sannreyna sem flest. Er ekki einmitt tilgangurinn með því að birta niðurstöður rannsókna, að aðrir geti nýtt þær í samræmi við fræðilegar reglur? Ásökun Jóns er sérstaklega ámælisverð í ljósi þess, að hann hlaut rausnarlega styrki frá íslenska ríkinu, ekki síst til að rannsaka rússnesk skjalasöfn. Rannsóknasjóður (áður Vísindasjóður) veitti honum ferðastyrk 1994 og rannsóknarstyrk 1998 (700 þúsund kr.) til rannsókna á kommúnisma. Rannsóknasjóður Atlantshafsbandalagsins veitti honum styrk einu sinni í sama skyni, og menntamálaráðuneytið styrkti hann sérstaklega til rannsókna og afritunar á íslenskum skjölum í Moskvu sumrin 1994 og 1995. Eftir þetta fékk Jón samkvæmt opinberum gögnum styrki úr Rannsóknasjóði 2004 (2 millj. kr.), 2005 (2 millj. kr.) og 2007 (2 millj. kr.) til að rannsaka kommúnisma. Einnig fékk hann styrk 2009 (2,1 millj. kr.) til að rannsaka einn þátt í sögu kommúnismans. Að núvirði er þetta líklega samtals rösklega tuttugu milljónir króna. Var þetta fé af hendi reitt úr almannasjóðum til þess, að Jón Ólafsson gæti brigslað mönnum um að lifa „sníkjulífi“ á rannsóknum hans, ef þeir leyfðu sér að vitna í verk hans? Jón hefur látið mörg þau gögn, sem hann fann í Moskvu (en samt ekki öll), á handritadeild Landsbókasafnsins. Ætlaðist hann ekki til, að þau yrðu notuð?

 

Firrur Jóns Ólafssonar

Brellur Jóns Ólafssonar, þegar hann þarf að bregðast við leiðréttingum, segja sína sögu. En hitt er verra, að í ritum sínum fer hann iðulega með firrur, en það orð má nota um staðhæfingar, sem eru langsóttar, bersýnilega óraunhæfar, jafnvel fráleitar. Í skrifum sínum um hreyfingu kommúnista og vinstri sósíalista á Íslandi horfir Jón jafnan fram hjá ofbeldiseðli hennar og reynir að gera eins lítið og hann getur úr tengslum hennar við Kremlverja, þótt auðvitað verði hann að viðurkenna þau að nokkru leyti. Á frægum fundi, sem Sagnfræðingafélagið hélt 23. nóvember 2011 til að deila á bækur okkar Þórs Whiteheads um kommúnistahreyfinguna, spurði ég framsögumenn, hvort þeir þekktu eitthvert dæmi þess, að forystumenn Sósíalistaflokksins hefðu beinlínis gengið gegn Kremlverjum, annað en það, að þeir voru ófáanlegir til taka þátt í erjum innan hinnar alþjóðlegu kommúnistahreyfingar og fordæma Tító í Júgóslavíu og Maó í Kína, eins og Kremlverjar vildu, auk þess sem þeir birtu að vísu málamyndamótmæli (harmatölu í Þjóðviljaleiðara) við innrásinni í Ungverjaland. Framsögumennirnir gátu ekki bent á neitt slíkt dæmi.

Ekki þurfti að efast um það, að Kommúnistaflokkurinn, sem hér starfaði 1930–1938, laut boðvaldi frá Moskvu. Fór flokkurinn ekki í neinar felur um það. Hann var deild í Komintern, Alþjóðasambandi kommúnista, en til þess að geta gengið í Komintern varð flokkurinn að játast undir inntökuskilyrðin 21, sem samþykkt höfðu verið á þingi Kominterns í Moskvu 1920. Þessi skilyrði mótuðust auðvitað af því, að þetta var samband byltingarflokka. Meðal annars segir í þriðja inntökuskilyrðinu: „Í nær öllum löndum Evrópu og Ameríku er stéttabaráttan að breytast í borgarastríð. Við þær aðstæður geta kommúnistar ekki treyst borgaralegum lögum. Þeir skuldbinda sig til að mynda alls staðar ólögleg hliðarsamtök, sem geta á úrslitastund aðstoðað flokkinn við að gera skyldu sína gagnvart byltingunni.“ Skýrara gat þetta ekki verið. Það var beinlínis skylda íslenskra kommúnista að mynda „ólögleg hliðarsamtök“, sem gætu á úrslitastund aðstoðað flokkinn við að gera byltingu, en með því var auðvitað átt við valdarán. Ísland var að vísu fámennt land og tiltölulega friðsælt, en þessari skyldu sinni reyndu kommúnistar að gegna. Fyrst gerðu þeir það með Áhugaliði alþýðu, sem stofnað var eftir Drengsmálið 1921. Snorri G. Bergsson hefur vakið athygli mína á ummælum í bréfi frá Hendrik S. Ottóssyni til Einars Olgeirssonar 28. júlí 1923, sem varðveitt er í bréfasafni Einars á Þjóðarbókhlöðu: „Nú fer ég að armera ungkommúnistana. Þeir ætla að kaupa sér remingtona. Við erum óviðbúnir öllu nú, svo verður annað séð en að hvítliðarnir geti ráðið niðurlögum okkar, þegar þeir vilja.“ Lítið varð að vísu úr Áhugaliði alþýðu, enda var það harla ósamstætt, en síðan var Varnarlið verkalýðsins stofnað opinberlega eftir Gúttóslaginn í nóvember 1932, og hafði vísir að því verið til áður. Varnarliðið starfaði í nokkur ár, og skunduðu liðsmenn um götur Reykjavíkur á 1. maí ár hvert. Sumir úr Varnarliðinu útveguðu sér líka skotvopn, eins og Þór Whitehead upplýsir í bókum sínum, en hann tók viðtöl við nokkra menn úr liðinu, þar á meðal foringja þess, Þorstein Pétursson. Þeir vildu vera við öllu búnir, eins og þeim var skylt að vera samkvæmt reglum Kominterns.

Firrur Jóns Ólafssonar má flestar rekja til þess, sem er rauði þráðurinn í skrifum hans, að kommúnistar á Íslandi hafi verið á einhvern hátt annars eðlis en kommúnistar í öðrum löndum, miklu meinlausari og friðsamari, í rauninni minni kommúnistar (en þá vaknar auðvitað spurningin, af hverju þeir klufu Alþýðuflokkinn 1930 og gengu í Komintern). Eitt dæmi um þetta er, þegar Jón hélt því fram í Appelsínum frá Abkasíu (bls. 383), að Hendrik S. Ottósson og Brynjólfur Bjarnason hefðu ekki verið fulltrúar á öðru heimsþingi Kominterns 1920, heldur slæðst til Moskvu af ævintýraþrá. Taka þeir Skafti Ingimarsson í (óprentaðri) doktorsritgerð sinni um kommúnistahreyfinguna og Kjartan Ólafsson í Draumum og veruleika (bls. 30) þetta upp eftir Jóni. En Hendrik og Brynjólfur sögðu síðar báðir frá því, að þeir hefðu verið fulltrúar á heimsþinginu, og tók Hendrik sérstaklega fram, að hann hefði greitt atkvæði með inntökuskilyrðunum í Komintern. Einföld skýring er til á því, að nöfn þeirra voru ekki á prentaðri skrá um þingfulltrúa: þeir komu mjög seint til þingsins, löngu eftir að það var hafið. Nöfn sumra annarra fullgildra félaga vantaði líka í þingfulltrúaskrána. Jón getur ekki vísað vitnisburði þeirra Hendriks og Brynjólfs á bug fyrirvaralaust. Gaf Hendrik meira að segja framkvæmdastjórn Kominterns skýrslu um stjórnmálaviðhorfið á Íslandi, og þar minntist Lenín á hernaðargildi Íslands. Aðrar heimildir staðfesta það, sem Hendrik sagði síðar, að það var framkvæmdastjórn Kominterns, sem bauð ýmsum æskulýðssamböndum að senda fulltrúa á heimsþingið í Moskvu og á ungkommúnistamót á eftir. Þessir æskulýðsleiðtogar fengu að sitja heimsþingið sem fullgildir fulltrúar. Á ljósmynd, sem prentuð er í bók eftir Willi Münzenberg frá 1930, er einmitt birt ljósmynd, þar sem þeir Brynjólfur og Hendrik þekkjast, og er myndatextinn: „Die Jugend-Delegierten am 2. Kongreß der Kommunistischen Internationale, Moskau 1920“ (Ungir fulltrúar á öðru þingi Alþjóðasambands kommúnista, Moskvu 1920).

Þetta dæmi skiptir ef til vill ekki miklu máli. Annað dæmi miklu mikilvægara er af leyniskólunum í Moskvu. Jón sagði 1997 í Nýrri sögu (bls. 6): „Norrænir kommúnistar virðast litla þjálfun hafa fengið í öðru en bóklegum greinum marx-lenínisma.“ Hann hnykkti á þessu 1999 í Kæru félögum (bls. 52): „Það er ekki að sjá af þeim heimildum, sem aðgengilegar eru úr Norðurlandadeildum Lenínskólans og Vesturskólans, að sérstök áhersla hafi verið lögð á praktíska byltingarstarfsemi, svo sem njósnir, undirróður og hvers kyns moldvörpustarfsemi.“ Sjö árum síðar var hann við sama heygarðshornið. „Hvað sem líður vafstri einstaklinga þá höfum við engar heimildir sem leyfa okkur að draga þá ályktun,“ sagði Jón í Lesbók Morgunblaðsins 2006, „að íslenskir kommúnistar hafi verið þjálfaðir í Moskvu til ofbeldisverka.“ En hver var tilgangur leyniskólanna í Moskvu, ef hann var ekki sá að þjálfa kommúnista í að gera byltingar? Af hverju voru þeir þá leynilegir? Hvernig er hægt að gera byltingu án þess að beita ofbeldi? Auðvitað var það alveg rétt, sem Jón lagði áherslu á, að í þessum skólum voru kenndar ýmsar bóklegar greinar eins og marxísk hagfræði og saga Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna. En það breytir því ekki, að jafnframt var nemendum kennt að bera vopn, stunda undirróður, skipuleggja og stjórna götuóeirðum, falsa vegabréf og önnur opinber skjöl, fara með ólöglegan fjarskiptabúnað, senda dulmálsskeyti og skrifa dulmálsskrift. Um þetta eru til nægar heimildir. Þrír íslenskir nemendur skýrðu til dæmis frá því, að þeir hefðu lært vopnaburð í Komintern-skólunum. „Í dag var fyrsta kennslustundin í Political Economy (Félagi Mekany). Einnig tími í meðhöndlun vopna,“ skrifaði Andrés Straumland í dagbók sína 11. október 1930. „Nokkrum okkar var kennt að fara með skammbyssu,“ sagði Helgi Guðlaugsson, „við Hallgrímur [Hallgrímsson] vorum tveir saman að æfa það.“ Benjamín Eiríksson hlaut einnig þjálfun í vopnaburði, eins og hann sagði í ævisögu sinni, sem ég skráði. Systir Þórodds Guðmundssonar staðfesti enn fremur í samtali við Þór Whitehead, að bróðir sinn hefði að eigin sögn hlotið slíka þjálfun. Jón gat þess vegna ekki annað en viðurkennt það, en gerði lítið út, taldi þetta aðeins hafa verið einhvers konar skotæfingar.

Leyniskólarnir í Moskvu voru engin meinlaus leikfimifélög. Yfirlýstur tilgangur þeirra var að búa nemendur undir valdatöku kommúnista. Hvers vegna hefðu íslensku nemendurnir átt að hafa einhverja sérstöðu í þessu efni? Engar heimildir eru til um slíka sérstöðu. Jón benti að vísu á, að Íslendingarnir komu frá landi, þar sem starfsemi kommúnista var lögleg, og taldi, að nám þeirra hlyti að hafa verið svipað og nemenda frá Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Öðru máli hefði gegnt um nemendur frá löndum, þar sem starfsemi kommúnista var ólögleg. Þar hefði námið ef til vill miðast við óhjákvæmileg átök. En galli er á rökfærslunni: nægar heimildir eru til um það, að nemendur frá Svíþjóð, Danmörku og Noregi hafi hlotið hernaðarþjálfun þar eystra. Til dæmis var skotfimi aðeins einn liðurinn í námsskrá Lenínskólans fyrir 1931, en einnig var nemendum þá kennt um vopnaðar uppreisnir og almenna herstjórnarlist, eftir því sem finnski fræðimaðurinn Joni Krekola upplýsir, en hann hefur samið bók á finnsku um leyniskólana. Krekola og norski fræðimaðurinn Ole Martin Rønning, sem rannsakaði sérstaklega þjálfun Norðmanna í leyniskólunum, segja báðir (í tölvuskeytum til Þórs Whiteheads) afar ólíklegt, að íslensku nemendurnir hafi verið undanþegnir hernaðarþjálfuninni. Enn fremur skrifaði danski fræðimaðurinn Niels Erik Rosenfeldt í bókinni Verdensrevolutions generalstab. Komintern og det hemmelige apparat, sem kom út árið 2011 (bls. 131):  „Á námskrá voru meðal annars námskeið í marx-lenínisma, stjórnmálahagfræði, þróun hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar og sögu Ráðstjórnarríkjanna og kommúnistaflokksins. En einnig voru haldnar skotæfingar og tilsögn veitt í notkun skotvopna, undirróðri, dulmálssendingum og vopnaðri skæruliðastarfsemi.“

Þetta er ekki þvarg um smámuni. Tilgangur Jóns Ólafssonar með því að gera lítið úr hernaðarþjálfun Íslendinganna á leyniskólunum í Moskvu er auðsær. Hann hefur hvað eftir annað haldið því fram, að ótti íslenskra stjórnvalda við kommúnista hafi verið ástæðulítill eða jafnvel ástæðulaus. Þess vegna hafi til dæmis hleranir lögreglu og annað eftirlit með kommúnistum og vinstri sósíalistum verið óréttmætt (en það var raunar miklu minna en eftirlit yfirvalda með kommúnistum á öðrum Norðurlöndum). En sú firra Jóns, að íslenskir kommúnistar hafi í raun ekki verið alvörukommúnistar, stangast ekki aðeins á við heimildir, heldur líka alkunnar staðreyndir. Í Drengsmálinu 1921, vinnudeilum á kreppuárunum, þar á meðal fjórum Gúttóslögum, og í götuóeirðum og uppþotum vegna Keflavíkursamningsins 1946 og aðildar að Atlantshafsbandalaginu 1949 beittu íslenskir kommúnistar og vinstri sósíalistar ofbeldi til að reyna að koma í veg fyrir ákvarðanir löglegra stjórnvalda. Hér var ríkisvald veikt, en kommúnistahreyfing sterk. Eftir rammasta Gúttóslaginn lá meiri hluti Reykjavíkurlögreglunnar eftir slösuð, og tveir lögregluþjónar urðu öryrkjar alla ævi. Í óeirðunum 1949 slösuðust líka margir lögregluþjónar, og er þetta allt rakið í bók Þórs Whiteheads, Sovét-Íslandi. Áhyggjur stjórnvalda af kommúnistum voru svo sannarlega ekki ástæðulausar.

Önnur firra Jóns Ólafssonar er, að Komintern hafi verið andvígt stofnun Sósíalistaflokksins haustið 1938. Heimild hans fyrir þessu er minnisblað, sem starfsmaður Kominterns, Wilhelm Florin, sem fór með mál Norðurlanda, sendi í ágúst 1938 forseta sambandsins, áðurnefndum Dímítrov, þar sem hann lét í ljós efasemdir um, að rétt væri að kljúfa Alþýðuflokkinn. Hafði Florin fengið bréf frá Einari Olgeirssyni fyrr í mánuðinum, þar sem lýst var atburðarás misseranna á undan, þegar hægri og vinstri örmum Alþýðuflokksins hafði lostið saman, en vinstri armurinn undir forystu Héðins Valdimarssonar síðan leitað eftir sameiningu við kommúnista í nýjum flokki. Hugðist Kommúnistaflokkurinn samþykkja slíka sameiningu á flokksþingi sínu í október og leggja sjálfan sig niður. Einar benti á, að hinn nýi flokkur myndi starfa eftir þeim skilyrðum, sem Komintern hafði sett samstarfi kommúnista við jafnaðarmenn. Í minnisblaðinu spyr Florin Dímítrov, hvað gera skuli, og bendir á, hvernig koma megi boðum til Einars um væntanlega ákvörðun Kominterns. En það blasir við, að sú ályktun Jóns af þessu minnisblaði, að Komintern hafi verið andvígt stofnun Sósíalistaflokksins, fær ekki staðist. Þetta minnisblað var ekki nein lokaákvörðun eða samþykkt Kominterns, heldur innanhússplagg. Það er nánast óhugsandi, að þeir Brynjólfur Bjarnason og Einar Olgeirsson hefðu lagt niður Kommúnistaflokkinn í andstöðu við Komintern. Jón Ólafsson benti á, að Komintern hefði ekki sent Sósíalistaflokknum heillaóskaskeyti við stofnunina. En það gerðu kommúnistaflokkar Svíþjóðar og Danmerkur, sem báðir voru hollir Kremlverjum, og er líka nánast óhugsandi, að þeir hefðu gert það, hefði flokksstofnunin verið í andstöðu við Komintern.

Í ritdeilu Jóns við Þór Whitehead prófessor, sem háð var í Sögu 2008–2010, sást, að Jón hafði ekki áttað sig á forsögu málsins innan lands og utan. Innan lands var svo komið, að Alþýðuflokkurinn var þegar klofinn. Hann hafði klofnað af sjálfsdáðum snemma árs 1938. Kommúnistar höfðu ekki klofið hann. Þeir gátu aðeins valið um tvo kosti, að hafna samstarfi við vinstri arm Alþýðuflokksins og starfa áfram einir eða ganga til samstarfs við hann. Utan lands hafði Dímítrov með ræðu sinni á þingi Kominterns 1935 lagt nýja línu fyrir kommúnistaflokka á Vesturlöndum, að leita samstarfs við jafnaðarmenn að fullnægðum ýmsum skilyrðum, til dæmis um skilyrðislausan stuðning við Ráðstjórnarríkin. Við stofnun Sósíalistaflokksins gættu kommúnistar þess vandlega, að öllum þessum skilyrðum væri fullnægt, en Jón virðist ekki hafa kynnt sér þau, eins og Þór benti á.

Það sést best á eftirleiknum, hversu fráleit sú skoðun er, að Sósíalistaflokkurinn hafi verið stofnaður í andstöðu við Komintern. Sósíalistar lágu iðulega undir ámæli um að vera fylgispakir Kremlverjum. Hefðu þeir stofnað flokk sinn þvert á vilja Kominterns, hefðu þeir þá ekki notað það til að reyna að hnekkja því ámæli? Hvers vegna var hvorki fyrr né síðar að þessu vikið? Þegar Kristinn E. Andrésson gaf skýrslu í Moskvu vorið 1940, hálfu öðru ári eftir stofnun flokksins, var einn viðmælandi hans Wilhelm Florin. Ekki var þá minnst á það einu orði, að eitthvað hefði verið að athuga við stofnun flokksins. En síðan vildi svo til, að ég fann með aðstoð Snorra G. Bergssonar sagnfræðings skjal í bréfasafni Sósíalistaflokksins, sem varðveitt er á Þjóðskjalasafni. Það tekur af öll tvímæli. Þetta er bréf árið 1939 frá aðalritara Alþjóðasambands ungra kommúnista, AUK, Michals Wolfs, til Æskulýðsfylkingarinnar á Íslandi, sem tekið hafði verið hlutverki Sambands ungra kommúnista, en það hafði átt aðild að Alþjóðasambandinu. Þar er lýst yfir ánægju með stofnun Æskulýðsfylkingarinnar og henni óskað heilla. Það er nánast óhugsandi, að þetta bréf hefði verið sent, hefði Komintern verið andvígt stofnun Sósíalistaflokksins. Hin alþjóðlega kommúnistahreyfing laut ströngu miðstjórnarvaldi. Þeir, sem óhlýðnuðust (eða voru grunaðir um villutrú), voru hnepptir í fangelsi, sendir í vinnubúðir og skotnir, ef í þá náðist (eins og örlög eins þingmanns danska kommúnistaflokksins, Arne Munch-Petersens, sýndi, en hann hvarf í Rússlandi 1937 og dó í fangelsi 1940).

Í þau þrjátíu ár, sem Sósíalistaflokkurinn starfaði, var aldrei minnst á það einu orði, að hann hefði verið stofnaður í andstöðu við Komintern. Öðru nær. Forystumenn hans, þeir Einar, Brynjólfur og Kristinn, höfðu gott samstarf, en oftast leynilegt, við Kremlverja, viku nánast aldrei út af línunni frá Moskvu og þáðu stórfé þaðan í styrki. Fóru þeir reglulega á alþjóðaþing kommúnista, og var þar tekið á móti þeim sem fullgildum félögum. Raunar starfaði svipaður flokkur í Finnlandi frá 1944, eftir að bann við samtökum kommúnista var fellt úr gildi eftir ósigur Finna í framhaldsstríðinu við Ráðstjórnarríkin 1941–1944. Hann kallaðist Lýðræðisbandalagið og var sameinaður flokkur kommúnista og vinstri arms jafnaðarmanna, en kommúnistar höfðu þar tögl og hagldir eins og í Sósíalistaflokknum íslenska. (Þess má geta, að formaður Lýðræðisbandalagsins 1944–1946, Carl-Johan Sundström, sem komið hafði úr jafnaðarmannaflokknum, varð síðar sendiherra Finna í Moskvu, og í skjölum úr rússneskum söfnum sést, að hann veitti Kremlverjum trúnaðarupplýsingar og gekk erinda þeirra.) Það var líka eitt fyrsta verk Stalíns eftir hernám austurhluta Þýskalands 1945 að knýja fram sameiningu kommúnistaflokksins og vinstri arms jafnaðarmanna. Samsetning og starfsemi Sósíalistaflokksins áttu sér því hliðstæður í hinni alþjóðlegu kommúnistahreyfingu.

Enn er tilgangur Jóns hins vegar auðsær: Hann vill rökstyðja, að íslenskir kommúnistar og vinstri sósíalistar hafi átt það til að óhlýðnast Kremlverjum. Skjalið frá Florin er vissulega fróðlegt, en það hefur ekki að geyma neina þá lokaákvörðun Kominterns, sem Einar Olgeirsson hafði beðið um í bréfi sínu 1938. Ofályktun Jóns er til marks um þá firru hans, að íslenskir kommúnistar hafi ekki verið alvörukommúnistar.

 

Gloppur Jóns Ólafssonar

Fleiri galla er að finna á ritsmíðum Jóns Ólafssonar en brellur og firrur. Hann hirðir ekki um að rannsaka mál út í hörgul. Þess vegna eru margar gloppur í verkum hans. Versta og um leið furðulegasta dæmið er, þegar hann sagði í Kæru félögum (bls. 141) um viðræður Einars Olgeirssonar og margnefnds Georgís Dímítrovs í Moskvu haustið 1945: „Ekki er ljóst af dagbókarfærslu Dimitrovs hvað þeim Einari fór á milli en þó hefur Einar rætt við hann um möguleika á viðskiptum landanna því að Dimitrov hefur skrifað hjá sér að Einar ætli sér næsta dag að hitta Anastas Mikojan, utanríkisviðskiptaráðherra.“ En samkvæmt dagbók Dímítrovs sjálfs 25. október 1945 bað Einar „um ráð um afstöðu flokksins og ríkisstjórnarinnar til stofnunar bandarískra herstöðva (flugvalla o. sv. frv.) til tjóns fyrir sjálfstæði Íslands, svo og um íslensk flokksmálefni“. Það er því fullljóst, hvað þeim Einari og Dímítrov fór á milli: Þeir ræddu auðvitað um mál málanna á Íslandi um þær mundir, herstöðvabeiðni Bandaríkjanna, sem sett hafði verið fram 1. október 1945 og valdið hafði uppnámi í íslenskum stjórnmálum, en ráðstjórnin hlaut einnig að láta sig varða. Þeir ræddu enn fremur eins og kemur fram í færslunni um málefni Sósíalistaflokksins, sem ráðamenn í Kreml töldu vitanlega bræðraflokk kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna. Það er óskiljanlegt, af hverju Jón gat þessa ekki, en ári áður en hann gaf út bók sína, höfðu birst fréttir í íslenskum blöðum um, hvað þeim Dímítrov og Einari fór í milli, en búlgarski sagnfræðingurinn Jordan Baev hafði flutt erindi á ráðstefnu í Reykjavík um upplýsingar um Ísland úr dagbókum Dímítrovs. (Myndin hér er af frétt Morgunblaðsins 19. júní 1998.) Ég spurði Jón á fundi Sagnfræðingafélagsins 2011, hvað valdið hefði þessari missögn. Hann svaraði því til, að þetta hefði verið yfirsjón hjá sér, ekki tilraun til að afveigaleiða lesendur sína. Um þetta verða aðrir að dæma.

Margar aðrar gloppur eru í verkum Jóns, þótt þær séu ekki eins alvarlegar. Ein gloppan er í grein Jóns í Sögu 2007. Þar sagði hann (bls. 100), að Komintern hefði ákveðið að senda einn nemanda til Íslands 1936, félaga Johnson, sem ætti sæti í miðstjórn kommúnistaflokksins íslenska. Hann varpaði því fram þar, að sendimaðurinn væri Angantýr Guðmundsson. Þetta kom mér undarlega fyrir sjónir eftir rannsóknir mínar. Ég hafði samband við Jón og spurði, hvort hann hefði eitthvað fyrir sér um þetta. Hann kvað svo ekki vera. Þetta væri aðeins tilgáta. En svo vill til, að Hjalti Árnason sat í miðstjórn kommúnistaflokksins frá 1932, eins og sjá má í Komintern-skjölunum, og hann var í skóla í Moskvu um þessar mundir. Hann er langlíklegastur til að vera félagi Johnson. Ekki er vitað til þess, að Angantýr hafi setið í miðstjórn flokksins, og það er afar ólíklegt. Auk þess var Angantýr rekinn úr flokknum í hreinsununum 1934, eins og kemur fram í fjölrituðum blöðum kommúnista (sem geymd eru í Þjóðarbókhlöðu), svo að líklegast er, að hann hafi verið í byltingarskóla í Moskvu fyrir þann tíma, en ekki eftir það. Bréf frá Einari Olgeirssyni til Kominterns haustið 1936, þar sem hann nefnir viðræður við Hjalta, en vill frekari leiðbeiningar frá Moskvu, staðfestir síðan þessa tilgátu mína.

Frásagnir Jóns af Íslendingum í leyniskólum Kominterns eru afar gloppóttar, eins og ég hef gagnrýnt hann fyrir. Hann fullyrti í Kæru félögum (bls. 320), að Kristján Júlíusson hefði í Moskvu gengið undir dulnefninu „Jón Jónsson“ (sem er raunar allt önnur fullyrðing en tilgáta hans í Sögu 2007 um Angantý Guðmundsson). Hið rétta er, að Kristján bar dulnefnið „Poulson“ og stundaði nám í Lenínskólanum 1933–1934. Er getið um nám hans og heimkomu í Morgunblaðinu 1934, og dulnefnið má ráða af einu Komintern-skjalinu frá sama ári. Enn fremur er sú tilgáta Jóns röng í sömu bók (bls. 320), að Lilja Halblaub hafi borið dulnefnið „Karen Hansen“ í Moskvu. Konan undir því nafni stundaði nám í Lenínskólanum vorið 1936. Þá var Lilja Halblaub komin til Íslands, eins og sjá má í blöðum og gögnum kommúnistaflokksins íslenska. Þetta hefur verið Elísabet Eiríksdóttir, en nám hennar í Moskvu hafði farið fram hjá Jóni, eins og áður segir.

Það má líka telja gloppu, að Jón Ólafsson minntist í Kæru félögum hvergi á skýrslu Harrys Levins um Íslandsför sína, þótt hún sé í skjölum þeim, sem hann afhenti handritadeild Þjóðarbókhlöðunnar, og í þýskri þýðingu í öðrum Komintern-skjölum. Jón vitnaði hins vegar um för Levins í Kæru félögum (bls. 307 og 314) í „Auszüge“, sem hann hefði gert, útdrætti úr gerðabók framkvæmdastjórnar Kominterns, 15. 4. 1930 og 15. 10. 1930. Hér er bersýnilega einhver ruglingur á ferð um fyrri dagsetninguna (nema að hún sé prentvilla og þar eigi að standa 15. 10. 1930).

Furðulegar gloppur eru síðan í Appelsínum frá Abkasíu, sem kom út ári á eftir bók minni um íslenska kommúnista. Þar rakti Jón bréfaskipti Benjamíns Eiríkssonar við ástkonu sína Veru Hertzsch, eftir að Benjamín fór í árslok 1936 frá Moskvu, en þá hafði hann getið Veru barn. Hreinsanir Stalíns voru þá hafnar, og lauk ævi Veru og lítillar dóttur þeirra Benjamíns í fangabúðum. Síðasta bréf Veru til Benjamíns var dagsett 8. desember 1937. Þar skrifaði hún: „Greve hefur líka verið handtekin [svo]“. Jón sagði (bls. 173), að ekki væri „ljóst hver Greve var“. Það er hins vegar öllum kunnáttumönnum ljóst: Richard Greve (stundum stafsett Grewe) var ritstjóri Deutsche Zentral-Zeitung, þar sem Vera Hertzsch hafði verið blaðamaður. Hann var handtekinn 14. nóvember 1937 og skotinn 25. desember sama ár. Nafn Richards Greves er nefnt í fjölda rita um hreinsanir Stalíns. Sjálfur vitnar Jón Ólafsson í eitt slíkt rit, Sviknar hugsjónir (Verratene Ideale) eftir Oleg Dehl. Þar er sérstakur kafli um Deutsche Zentral-Zeitung með stuttu æviágripi Greves og mynd af honum. Það er furðulegt, að þetta skuli hafa farið fram hjá Jóni. Þetta er því líkast, að Jón sé að segja sögu manns, sem hafi verið blaðamaður á Morgunblaðinu um 1950. Þar myndi Jón vitna í stutta athugasemd blaðamannsins í bréfi: „Valtýr er nýkominn frá útlöndum“ — og bæta við, að ekki væri ljóst, hver Valtýr væri, en Valtýr Stefánsson var ritstjóri Morgunblaðsins 1924–1963.

Bókin Appelsínur frá Abkasíu er raunar eins konar naglasúpa. Jón ætlaði að skrifa um hin dapurlegu örlög Veru Hertzsch og dóttur þeirra Benjamíns, en fann lítið sem ekkert til viðbótar því, sem áður hafði komið fram (meðal annars í ritgerðum hans sjálfs), svo að hann drýgði bókina með frásögnum annarra kvenna af vistinni í fangabúðum Stalíns og margvíslegum öðrum fróðleik, eins og hrappurinn í ævintýrinu, þegar hann þóttist gera súpu úr nagla. Jón minntist til dæmis á fræga bók eftir Elinor Lipper (bls. 251): „Árið 1949 kom út bókin 11 ár í sovéskum fangabúðum eftir Elinor Lipper. Lipper kom til Moskvu 27 ára gömul árið 1937 í stutta heimsókn.“ Í þessum tveimur stuttu setningum eru þrjár villur: Bók Lippers kom fyrst út á þýsku snemma árs 1950 og í enskri þýðingu á Bretlandi það ár, en í Bandaríkjunum árið eftir. Í öðru lagi var Lipper að verða 25 ára, þegar hún kom til Moskvu vorið 1937. Hún var fædd í júlí 1912. Í þriðja lagi fór Lipper ekki til Moskvu í stutta heimsókn, heldur til að vinna í þágu byltingarinnar. Hún bjó á Hotel Lux og starfaði ásamt skráðum eiginmanni sínum, Konrad Vetterli, í bókaútgáfu erlendra bóka undir dulnefninu Ruth Zander. Í heimildaskrá er getið bókarinnar Elf Jahre in Sowjetischen Gefängnissen und Lagern eftir Lipper, Chicago 1950, hjá Oprecht. Hið rétta er, að þýska bókin kom út hjá Oprecht í Zürich. Hin bandaríska þýðing kom út hjá Henry Regnery í Chicago ári síðar. Jón virðist síðan ekki vita, að bæði Tíminn og Vísir birtu útdrætti úr bók Lippers árin 1951 og 1953. Gat ég þess í bók minni um íslenska kommúnista (bls. 149–150).

Þetta er raunar ekki eina dæmið um, að bókfræðiþekking Jóns sé gloppótt. Í þýðingu á skýrslu um starfsemi Máls og menningar frá 1959, sem birtist í Kæru félögum, notaði Jón sem eðlilegt er hin íslensku heiti á ýmsum útgáfuritum Máls og menningar (bls. 284), Jóhann Kristófer eftir Romain Rolland, Þrúgur reiðinnar eftir John Steinbeck og Vopnin kvödd eftir Ernest Hemingway. En tveimur blaðsíðum aftar voru talin upp nokkur útgáfurit Almenna bókafélagsins, og virtist Jón ekki vita af hinum íslensku heitum þeirra: Hann kallaði Hina nýju stétt eftir Milovan Djilas „Nýju stéttina“ og Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras „Sólmyrkva í Eystrasaltslöndum“. Raunar fór hann á sama stað rangt með nafn rússneska rithöfundarins Vladímírs Dúdíntsev, sem hann kallaði „Dudentev“, hvort sem um er að kenna rússneska frumtextanum eða glöpum Jóns sjálfs. Þá var bók Þórs Whitehead, Ófriður í aðsigi, nefnd í heimildaskrá (bls. 330) „Óveður í aðsigi“!

 

Skekkjur Jóns Ólafssonar

Gera má greinarmun á gloppum, skekkjum og villum. Gloppur verða, þegar eitthvað vantar í frásögn, sem á þó heima þar samhengisins vegna, og er oftast um að kenna vangá eða vanþekkingu. Skekkjur eru hins vegar ástæðulaus ónákvæmni og stundum líka ómarkviss og reikul frásögn. Mikið er um slíkar skekkjur í verkum Jóns Ólafssonar. Sumar virðast stafa af því, að hann treysti minni sínu og hirði ekki um að fletta upp staðreyndum. Í Appelsínum frá Abkasíu sagði Jón til dæmis svo frá Vetrarstríðinu (bls. 285). „Það var stríð Rússa við Finna en þeir fyrrnefndu réðust yfir landamærin haustið 1939 til að ná af Finnum þeim hluta Karelíu sem hafði fallið þeim í skaut 1918 þegar Finnland varð sjálfstætt ríki.“ Hér er flest skakkt. Vetrarstríðið skall ekki á haustið 1939, heldur í nóvemberlok, um hávetur, eins og nafnið sýnir. Það skiptir þó ekki eins miklu máli og hitt, að Finnland varð ekki sjálfstætt 1918, heldur 6. desember 1917, og viðurkenndu Kremlverjar sjálfstæði þess strax 18. desember það ár. Kjartan Ólafsson gerir sömu villu um sjálfstæði Finna í bók sinni (bls. 201), eflaust eftir Jóni. Í Tartu 1920 sömdu Finnar við Kremlverja um endanleg landamæri ríkjanna. Engin rússnesk svæði (önnur en Petsamo við Íshaf) féllu þá í skaut Finna. Kremlverjar viðurkenndu í Tartu-samningnum 1920 að langmestu leyti landamærin frá 1809, þegar Finnland gekk undan Svíum og varð stórhertogadæmi, sem laut Rússakeisara. Rússar höfðu þá skilað Finnlandi aftur svæðum í Kirjálalandi (Karelíu), sem þeir höfðu unnið á öndverðri átjándu öld eftir stríð við Svía. Þessi svæði voru byggð Finnum og hluti af Finnlandi nema tímabilið 1721–1809. Því fer þess vegna fjarri, sem var á Jóni að skilja, að í Vetrarstríðinu hefðu Rússar aðeins verið að endurheimta land, sem þeir hefðu misst.

Í verkum Jóns eru nöfn, tímasetningar og tilvísanir mjög á reiki. Hann sagði til dæmis í Kæru félögum (bls. 346), að „Verkalýðssamband norðurlands“ hefði verið „helsta vígi kommúnista í verkalýðshreyfingunni fyrir 1930“. En þetta hét Verklýðssamband Norðurlands og var ekki aðeins vígi kommúnista fyrir 1930, heldur ekki síður eftir 1930. Kjartan Ólafsson fer einnig rangt með þetta nafn í Draumum og veruleika (bls. 59, 87 og víðar), eflaust eftir Jóni. Þetta er auðvitað smáatriði, en ég leyfi mér að minna á, að í umsögn í Tímariti Máls og menningar 1993 um rit eftir Árna Snævarr um íslenska kommúnista var sérstaklega fundið að því, að hann hefði jafnan ranglega kallað málgagn þeirra „Verkalýðsblaðið“, ekki „Verklýðsblaðið“, eins og rétt er. Annað dæmi um ónákvæmni er, að Jón sagði í Kæru félögum (bls. 313), að Alþingi hefði svipt Halldór Kiljan Laxness rithöfundarlaunum 1948. Það er ekki rétt. Sérstök úthlutunarnefnd, sem Alþingi hafði valið, gerði það. Féll tillaga í nefndinni um að veita Laxness hæstu rithöfundarlaun á jöfnu, með tveimur atkvæðum gegn tveimur. Í sömu bók sagði Jón (bls. 315), að menningartengslastofnun Ráðstjórnarríkjanna, VOKS, hefði breytt um nafn 1952, en nýja nafnið hefði verið skammstafað SSDD. Af samhengi (hinu fulla rússneska nafni) er ljóst, að skammstöfunin hlýtur að vera SSOD, og sú var raunin. Nafnbreytingin á stofnuninni var auk þess ekki 1952, eins og Jón fullyrðir, heldur í febrúar 1958.

Fleiri dæmi má nefna um, hversu ósýnt Jóni virðist vera um að fara rétt með nöfn og tímasetningar. Í Kæru félögum kallaði hann einn erindreka Kominterns á Íslandi, Haavard Langseth, ekki einu sinni, heldur tvisvar (bls. 38 og 340) Langeseth. Jón sagði síðan á einum stað (bls. 38), að Langseth hefði komið hingað 1929, og á öðrum stað (bls. 340), að hann hefði komið hingað 1928. Hann kom hvorugt það ár til Íslands, svo að vitað sé. Hins vegar eru nægar heimildir til um, að Langseth kom hingað 1930, meðal annars frásögn Einars Olgeirssonar í minningabókinni Kraftaverki einnar kynslóðar frá 1983. Þetta er ónákvæmni, ekki meinlausar prentvillur. Hið sama er að segja um heimildir Jóns fyrir komu og störfum Langseths. Samkvæmt tilvísun nr. 49 við kaflann „Vinstrihreyfingin á tímum Komintern“ í Kæru félögum (bls. 38 og 307) eru heimildirnar þrjár. Í einni þeirra, bréfi frá 26. desember 1928, Komintern 495 177 16 (RSHS, nú RGASPI), kemur ekkert fram um Langseth. Í skjalamöppunni Komintern 495 3 79 (RSHS, nú RGASPI) er ekkert „bréf um hreinsanir á Akureyri“, sem á að vera til samkvæmt tilvísuninni. Þriðja skjalið, „Memorandum“ í Komintern 495 31 110 (RSHS, nú RGASPI), hef ég ekki fundið í þeim gögnum úr rússneskum skjalasöfnum, sem Jón vann úr fyrir verk sín og afhenti síðan handritadeild Þjóðarbókhlöðunnar.

Í Kæru félögum kallaði Jón Olav Vegheim, annan erindreka Kominterns á Íslandi, ranglega Olaf (bls. 23). Jón minntist í sömu bók þrisvar (bls. 123, 125 og 334) á breska þingmanninn William Gallacher, en kallaði hann ætíð Callagher, þótt hann vitnaði í bók Einars Olgeirssonar, þar sem rétt er farið með nafn hans. Jón kallaði í meginmáli sömu bókar (bls. 180) Fjodor Gúsjev sendifulltrúa réttu nafni, en í Nafna- og atriðisorðaskrá (bls. 336) var hann orðinn N. A. Gúsév. Einnig var hann sagður sendiherra, sem hann var ekki. Jón kallaði Ívan G. Kabanov aðstoðarráðherra (bls. 231 og 338) ranglega N. G. Kabanov.

Margvísleg ónákvæmni Jóns stafar bersýnilega af því, hversu lítt hann hefur lagt sig eftir að kynna sér sögu íslenskra kommúnista og vinstri sósíalista. Hann sagði til dæmis í Kæru félögum (bls. 334), að Eggert Þorbjarnarson hefði verið „einn helstu framámanna [svo] íslenskra kommúnista á þriðja og fjórða áratugnum“. En Eggert fæddist 1911 (ekki 1910, eins og Jón segir), svo að hann var aðeins 19 ára í lok þriðja áratugar. Hann var hins vegar frammámaður í flokki kommúnista og sósíalista á fjórða, fimmta og sjötta áratug, starfsmaður Kominterns og síðar framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins. Annað dæmi um ókunnugleika Jóns á innviðum íslensku kommúnistahreyfingarinnar er, að hann sagði í framlagi sínu til Guldet fra Moskva 2001 (bls. 191), að Hendrik S. Ottósson hefði verið „et af partiets mest aktive medlemmer i trediverne“. Það er ekki nákvæmt. Hendrik dró sig að mestu út úr starfi íslenskra kommúnista um og eftir miðjan fjórða áratug, og olli því hvort tveggja, annríki og ósætti við félaga. Einnig þarf að leiðrétta það, sem Jón sagði í Kæru félögum (bls. 340), að Lenínskólinn hefði starfað til 1937. Hann starfaði til 1938, þótt ekki væri margir nemendur þar síðasta árið. Einn þeirra var þó íslenskur, Ásgeir Blöndal Magnússon.

Fleiri dæmi má nefna um skekkjur Jóns. Hann virðist hafa farið mannavillt í frásögn sinni af fjárbeiðnum Einars Olgeirssonar og Kristins E. Andréssonar fyrir hönd Máls og menningar í ársbyrjun 1959. Hann sagði á einum stað (bls. 189), að þessar beiðnir Einars og Kristins hefðu verið bornar upp við Aleksandr Aleksandrov sendiherra. En einni blaðsíðu aftar er svo að sjá, að þær hafi verið bornar upp við Pavel Ermoshín, sem var sendiherra á undan Aleksandrov! Vitnaði Jón í bæði skiptin í sama skjal. Fyrri tilvísunin (um Aleksandrov) er SSH: 5 50 159, bls. 22 (nú RGANI). Seinni tilvísunin (um Ermoshín) er SSH: 5 50 159 18. 1 1959, bls. 22–23 (nú RGANI). Þar sem ég hef ekki rússnesku frumheimildirnar við hendina, get ég ekki skorið úr þessu máli, en svo virðist þó sem fyrri útgáfa Jóns sé rétt og beiðnir þeirra Einars og Kristins hafi verið bornar upp við Aleksandrov, því að hann var orðinn sendiherra á Íslandi í ársbyrjun 1959.

Ýmsar fleiri skekkjur, stórar og smáar, getur að líta í Kæru félögum. Jón sagði til dæmis (bls. 199 og 293), að fyrirtæki í Moskvu, Technoimport, hefði birt auglýsingar í íslenskum blöðum vorið 1954. En það var fyrirtækið Technopromimport, sem birti þessar auglýsingar í blöðum 21. og 23. febrúar, og vorið er ekki komið í febrúar, heldur heitir sá tími á útmánuðum. Einhver ruglingur er líka á neðanmálsgreinum á þessum blaðsíðum, sem eru um fyrirtækjarekstur sósíalista. Svo virðist sem fallið hafi niður tilvísun aftanmáls, sem ætti að vera nr. 58, en þess í stað tilvísun nr. 59 verið tvítekin og tilvísun nr. 61 færð aftar en ætti að vera (sú tilvísun er um skrif Einars Olgeirssonar um atburði ársins 1954, en hún er tímasett 1952!). Raunar er líka einkennilegt, að tilvísanirnar eru um viðræður Kristins E. Andréssonar við ráðamenn í Moskvu, og skýrslurnar eru þar tímasettar 1952, en í meginmáli segir, að viðræðurnar hafi farið fram vorið 1951 (og þá var Kristinn vissulega í Moskvu sem formaður sendinefndar MÍR). Þar sem ég hef ekki rússnesku frumheimildirnar við hendina, get ég ekki sagt til um, hver ruglingurinn er.

Þá sagði Jón (bls. 306), að gagnrýni hefði borist á Einar Olgeirsson frá aðalskrifstofu framkvæmdanefndar Kominterns 1921, en hún hefur væntanlega verið sett fram 1931. Skjal það, sem Jón vísaði í (495 18 897, RSHS, nú RGASPI), finnst ekki í Komintern-skjölum á Þjóðarbókhlöðu. Einnig sagði Jón frá ráðstefnu kommúnista á Siglufirði 1928 (bls. 307). Skjal það, sem hann vísaði í (495 33 373, RSHS, nú RGASPI), finnst ekki heldur í Komintern-skjölum á Þjóðarbókhlöðu, en þar er hins vegar fróðlegt skjal um ráðstefnu kommúnista á Siglufirði 1930 (Lbs. 5228 4to, a-b. Komintern 495 177 18, 9–12. Referat av den kommunistiske konference paa Siglufjord, d. 6. juli 1930). Í bók sinni vitnaði Jón tvisvar í skýrslu frá Brynjólfi Bjarnasyni frá 1937, „Bericht über die Lage in Island und die Aufgaben der Partei,“ í Komintern-skjölunum (bls. 310), en notar tvær ólíkar tölur, 495 15 105 og 495 18 1224. Í ritgerð sinni í Sögu 2007 (bls. 105) vísaði hann í sama skjal með fyrrnefndu tölunni. En í þeirri möppu á handritadeild Þjóðarbókhlöðunnar er engin skýrsla Brynjólfs, heldur skýrsla Kristins E. Andréssonar frá 1940, „Bericht des Genossen Andresson über die Lage in Island.“ Virðist Jón hafa ruglast á þessum tveimur skýrslum.

Jón fer ekki aðeins mannavillt og skýrsluvillt, heldur er tímatal hans líka mjög losaralegt, eins og ég hef þegar nefnt. Fleiri dæmi má tína til. Jón sagði í Kæru félögum (bls. 65), að Andrés Straumland hefði farið frá Moskvu 1932, en það gerði hann 1931. Í sömu bók sagði hann svo frá hræringum í kommúnistaflokknum árið 1934 (bls. 77, skáletur mitt): „Aðalskrifstofa framkvæmdanefndar sendi íslenskum félögum fyrirmæli um það í skeyti í júní 1934 hvernig skipa ætti forustu flokksins. Brynjólfur var áfram formaður, en Einar Olgeirsson var gerður að gjaldkera flokksins, Jón Rafnsson verkalýðsmálafulltrúi, Hjalti Árnason skyldi vera yfir áróðursmálum og Jens Figved yfir skipulagsmálum flokksins. Jens var kallaður til Moskvu um svipað leyti og honum kynnt stefna Kominterns. Hann flutti félögum sínum boðskapinn um sumarið.“ Lesandinn er litlu nær um hið sögulega samhengi. Hvað gerðist? Eftir hörð innanflokksátök á útmánuðum 1934 og brottrekstur margra flokksmanna var Jens Figved kallaður til Moskvu (samkvæmt ályktun Kominterns 11. maí) og síðan sendur heim með boðskapinn (sem var skilgreindur í bréfum til fjögurra einstaklinga, dags. 31. maí, og ályktun Kominterns 3. júní). Um miðjan júní hættu „hreinsanirnar“ í kommúnistaflokknum snögglega, eftir að ný lína hafði borist með Jens Figved. Raunar er það, sem Jón segir um þetta, ónákvæmt efnislega: Komintern setti með ályktun sinni 3. júní í raun miðstjórn kommúnistaflokksins af og skipaði nýja stjórnmálanefnd, þar sem sátu Brynjólfur Bjarnason formaður, Jón Rafnsson, sem sinnti verkalýðsbaráttu, Jens Figved, sem annaðist áróður, Einar Olgeirsson, sem sá um fjármál flokksins og útgáfumál, „Guðmundsson“ (væntanlega Þóroddur Guðmundsson) og „Stefánsson“ (væntanlega Benedikt Stefánsson). Hjalti Árnason átti að hafa á hendi ritstjórn flokksblaðsins (Verklýðsblaðsins) með þeim Brynjólfi Bjarnasyni og Einari Olgeirssyni.

Enn eitt dæmi um losaralegt tímatal er, að Jón skipti Kæru félögum í tvo hluta, Kominternár og Kaldastríðsár. Seinni hlutinn hefst á kafla um það, þegar menn úr leyniþjónustu flotans ræða við Einar Olgeirsson sumarið 1942! Þessi skipting er vitanlega óeðlileg. Deila má um, hvenær kalda stríðið hófst, en það var svo sannarlega eftir seinni heimsstyrjöldina. Jón sagði í Sögu 2007 (bls. 107), að bréf Einars Olgeirssonar til Kominterns 1938 hefði verið sent „snemma í ágúst“, en það var dagsett 21. ágúst. Hann vísaði í þrjú ólík safnmerki um það, á einum stað í bók hans frá 1999 (bls. 311) er það 495 15 105, á öðrum stað í sömu bók (bls. 267) er það 21 (1/4) 74 265, ágúst 1938, á þriðja staðnum, í ritgerðinni í Sögu 2007 (bls. 107) er það 495 24 265. Samkvæmt upplýsingum Jóns sjálfs er síðasta safnmerkið með prentvillu og á að vera 495 74 265, en munurinn á þeirri tilvísun og hinni fyrstu sé, að annað skjalið sé úr fórum Wilhelms Florins, en hitt samhljóða því frá Georgí Dímítrov. Má nærri geta, að erfitt er að sannreyna kenningar Jóns með því að skoða frumheimildir hans, þegar svo illa er að verki staðið.

Það má síðan kalla skekkjur frekar en gloppur eða villur, að orðalag Jóns Ólafssonar er iðulega ómarkvisst og einkennilegt, jafnvel viðvaningslegt. Hann sagði til dæmis í Kæru félögum (bls. 175) frá hinni frægu leyniræðu Khrústsjovs 1956. Þar slæddist raunar inn hjá honum smávilla, að kommúnistaflokkur Ráðstjórnarríkjanna hefði haldið þing sitt í mars. Þingið stóð 14.–24. febrúar. Jón hélt áfram: „Eggert [Þorbjarnarson] tók þessi tíðindi mjög nærri sér, enda var hann einn heilsteyptasti stalínistinn í flokknum og ákaft hataður af bandarískum sendimönnum sem fylgdust með þróun stjórnmála í landinu.“ Það er almennt talið lofsamlegt að vera „heilsteyptur“. Menn eru til dæmis ekki taldir „heilsteyptir nasistar“. Hér hefði verið eðlilegra að segja „eindreginn“ eða „harður“. Það er líka hæpið, að sendimenn Bandaríkjanna á Íslandi hafi „hatað“ Eggert, þótt þeir hafi eflaust talið hann hættulegan kommúnista. Annað dæmi um undarlegt orðalag er, þegar Jón sagði í sömu bók frá heimsmóti æskunnar, sem haldið var reglulega eftir stríð og ungliðasamtök Sósíalistaflokksins skipulögðu ferðir á (bls. 194): „Stundum voru svikarar í hópnum sem birtu níðgreinar eða jafnvel bæklinga um herlegheitin þegar heim var komið.“ Neðanmáls vísaði Jón í bækling Magnúsar Þórðarsonar, þá blaðamanns á Morgunblaðinu, Mótið í Moskvu, sem kom út 1957. En í hvaða skilningi var Magnús „svikari“? Öllu ungu fólki var frjálst að fara á mótið. Þátttaka var ekki bundin við sósíalista. Og greinaflokkur Magnúsar um mótið í Morgunblaðinu var síður en svo neitt níð, þótt þar væri gert góðlátlegt gys að ýmsu austan járntjalds.

Enn eitt dæmið um einkennilegt orðalag er, þegar Jón Ólafsson skrifaði í Kæru félögum (bls. 225): „Það er líklegra að óvissa um áform ríkisstjórnarinnar hafi valdið bakslagi sem kom í hernámsmálið í ársbyrjun 1957, en að það hafi stafað af linkind sósíalista í hermálinu.“ Fyrst í setningunni notaði Jón orðið „hernámsmál“, en síðan orðið „hermálið“. Ísland var hernumið af Bretum 1940–1941. Eftir það naut það herverndar Bandaríkjamanna samkvæmt samningum. Óeðlilegt var að nota orðið „hernámsmálið“ um deilurnar hérlendis um dvöl bandaríska varnarliðsins á Miðnesheiði. Af samhenginu má hins vegar ráða, að hugsanlega hafi átt að standa „lánamálið“ í stað „hernámsmálsins“, enda var kaflinn um umleitanir um lán frá Kremlverjum til íslenska ríkisins. Allt virðist hér skekkt og skælt og lesandanum látið eftir að geta sér til um merkingu textans.

 

Villur Jóns Ólafssonar

Ýmsar villur í verkum Jóns Ólafssonar er erfitt að skýra. Þær birtast eins og skrattinn í sauðarleggnum og þjóna ekki einu sinni þeim tilgangi að gera lítið úr ofbeldiseðli kommúnistahreyfingarinnar. Strax í upphafi meginmáls í Kæru félögum (bls. 15) er ranghermi. Jón sagði þar frá för Hendriks Ottóssonar og Brynjólfs Bjarnasonar á annað þing Kominterns 1920: „Ferðalangarnir þurftu að fara norður alla Svíþjóð og yfir landamæri Noregs til Rússlands. Þaðan svo aftur suður á bóginn, fyrst til Petrograd þar sem þingið var sett og svo austur til Moskvu.“ En samkvæmt frásögn Hendriks, sem ástæðulaust er að rengja, fóru þeir fyrst frá Kaupmannahöfn til Stokkhólms til að ná í gögn og farareyri hjá erindreka Kominterns þar í borg. Síðan sneru þeir aftur til Kaupmannahafnar og fóru með skipum vestur og norður Noreg til Murmansk. Var þessi för hin mesta svaðilför. Urðu þeir að smygla sér í litlum báti norður að landamærum Noregs, því að þeir höfðu ekki fararleyfi þangað, og þaðan til Rússlands. Þeir misstu raunar af fyrstu dögum þingsins í Pétursgarði, því að það hafði verið flutt til Moskvu. Komu þeir mjög seint á þingið, eins og ég minntist á hér á undan. Frásögn Hendriks er í minningabók hans, Frá Hlíðarhúsum til Bjarmalands (bls. 199–222), en Jón vísaði þó í þá bók á tveimur stöðum í Kæru félögum (bls. 15 og 305).

Jón sagði í Kæru félögum (bls. 26), að Brynjólfur Bjarnason hefði sótt þing Kominterns 1924 „fyrir hönd Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur“, en hann sótti það sem fulltrúi Sambands ungra kommúnista (sem átti ólíkt Jafnaðarmannafélagi Reykjavíkur óbeina aðild að Komintern, þar eð það var tengt Alþjóðasambandi ungra kommúnista, þó ekki sem fullgilt aðildarfélag, að því er virðist). Þetta er ekkert smáatriði, því að það rann upp fyrir Komintern-mönnum í Moskvu 1922, að Ólafur Friðriksson hafði á þinginu í Moskvu 1921 stórlega ýkt eðli og áhrif Jafnaðarmannafélagsins, þar sem hann hafði undirtökin. Enn fremur sagði Jón í Kæru félögum (bls. 338), að Jafnaðarmannafélag Reykjavíkur hefði verið „rekið úr Alþýðusambandinu eftir að kommúnistar komust í meirihluta í félaginu“. Þetta er rangt. Kommúnistar voru ásamt stuðningsmönnum Ólafs Friðrikssonar í meiri hluta þar allt frá 1922, og var það skýringin á því, að jafnaðarmenn gengu úr því félagi og stofnuðu Jafnaðarmannafélag Íslands. Jafnaðarmannafélag Reykjavíkur var ekki rekið úr Alþýðusambandinu fyrr en 1926 og þá vegna ógoldinna félagsgjalda. Þá lágu leiðir kommúnista og Ólafs Friðrikssonar ekki lengur saman. Samkvæmt nafna- og atriðisorðaskrá (bls. 338) virðist Jón ekki heldur gera greinarmun á þessu Jafnaðarmannafélagi Reykjavíkur, sem Ólafur Friðriksson hafði öll tök á, og Jafnaðarmannafélagi Reykjavíkur, eins og Jafnaðarmannafélag Íslands (sem svo hét 1922–1937) kaus að kalla sig frá 1937. Í nafna- og atriðisorðaskránni (bls. 343) segir enn fremur ranglega, að málgagn ungra íslenskra kommúnista, Rauði fáninn, hafi komið út 1924–1927. Hann kom einnig út 1930–1937.

Undarlegar villur eru einnig í Kæru félögum, þegar Jón birti bréf íslenskra kommúnista til Kominterns frá 1927 í heild sem viðauka (bls. 255–256). Jón sagði framan við viðaukann, að bréfið væri frá Brynjólfi Bjarnasyni og Hendrik Ottóssyni og skrifað í mars eða apríl 1927. Í meginmáli sagði hann hins vegar (bls. 30), að bréfið væri frá Brynjólfi Bjarnasyni og Ársæli Sigurðssyni og skrifað í apríl. Þýddi hann sömu klausu öðru vísi í meginmáli en í viðaukanum. Í gögnum Kominterns kemur hins vegar skýrt fram, að bréfið er skrifað 14. apríl 1927 og móttekið í Moskvu 6. maí sama ár (RGASPI 495 177 16, 11–13. Lbs. 5228 4to). Ónákvæmni Jóns hefur slæðst inn í (óprentaða) doktorsritgerð Skafta Ingimarssonar, en þar segir Skafti, að Brynjólfur og Ársæll hafi skrifað bréfið.

Furðumargar villur Jóns í Kæru félögum tengjast Menningartengslum Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, MÍR, sem Jón kallar ranglega (t. d. bls. 181 og 340) „Menningarsamband Íslands og Ráðstjórnarríkjanna“ (þótt hann fari rétt með nafnið á bls. 179). Jón segir (bls. 181) og vísar um það í rússneska skýrslu, að í sendinefnd MÍR til Ráðstjórnarríkjanna haustið 1951 hafi verið Sigvaldi Thordarson húsateiknari, Jón Magnússon fréttastjóri, Bolli Thoroddsen verkfræðingur, Arnfinnur Jónsson skólastjóri og „Björn Jóhannsson verkfræðingur“. Enginn Björn var í sendinefndinni haustið 1951. Fimmti maðurinn var Áskell Snorrason tónlistarkennari, sem skrifaði síðan bók um ferðina, Í landi lífsgleðinnar, og lætur Jón þess einmitt getið á öðrum stað (bls. 192), að sendiráð Ráðstjórnarríkjanna í Reykjavík hafi greitt útgáfukostnað hennar. Björn Jóhannesson jarðvegsfræðingur (ekki Jóhannsson) fór hins vegar í ferð nokkurra íslenskra vísindamanna á vegum MÍR 1954. Þá er þess að geta, að tilvitnanir frá þessari blaðsíðu (181) og hinum næstu á undan og eftir virðast hafa ruglast. Ráða má af samhenginu, að tilvísanir aftanmáls nr. 17 og 18 eigi að vera nr. 13 og 14, en síðan eigi nr. 13 til 16 að vera nr. 15 til 18. Jón er þó ekki alveg skilinn að skiptum við sendinefndina 1951. Í myndatexta á móts við bls. 129 í bókinni Kæru félagar segir Jón, að myndin sé af Íslendingum í Moskvu 1951. En hún er af sendinefnd, sem fór til Ráðstjórnarríkjanna vorið 1953. Raunar gerir Jón enga tilraun til að nafngreina alla á myndinni, þótt það sé auðvelt, þar eð vitað er, hverjir nefndarmenn voru: Níu manns auk kventúlks, en það má kalla gloppu frekar en villu.

Fleira hefur brenglast í kafla Jóns Ólafssonar um MÍR, til dæmis tilvísanir í rússnesk skjalasöfn (sjá aftanmálsgreinar nr. 27, 28 og 29 og síðan 47, 48 og 49). Enn fremur sagði Jón (bls. 185) um átök í MÍR árin 1958–1960: „Þessi átök enduðu með því að Kristinn E. Andrésson missti ítök sín í MÍR og var bolað út úr félaginu.“ Þessu var þveröfugt farið, eins og nægar opinberar heimildir eru til um. Andstæðingar Kristins misstu ítök sín í MÍR og var bolað út úr félaginu. Eftir að Sigurvin Össurarson, Adolf Petersen og fleiri menn úr Reykjavíkurdeild MÍR höfðu haustið 1958 upplýst menn frá Ráðstjórnarríkjunum um, að þeir vissu frá Kristni af fjárhagslegum stuðningi Moskvumanna við MÍR, varð órói í félaginu. Beittu forystumenn Sósíalistaflokksins sér fyrir því, að Reykjavíkurdeild MÍR væri tekin úr höndum þessara manna á aðalfundi hennar 26. febrúar 1960. Þeim tókst ætlunarverk sitt. Varð Árni Böðvarsson formaður félagsdeildarinnar í stað Sigurvins, og annar bandamaður Kristins, Þorvaldur Þórarinsson, tók sæti í stjórninni. Einn þeirra manna, sem felldir voru úr stjórn, Adolf Petersen, skrifaði um þetta í blöð. Málið er líka rakið nokkuð í einni SÍA–skýrslunni, sem Jón Ólafsson vitnar raunar sjálfur í (Rauða bókin (Rvík 1984), bls. 126). Kristinn E. Andrésson og aðrir forystumenn Sósíalistaflokksins réðu alla tíð yfir sjálfum heildarsamtökunum, enda varð Kristinn forseti MÍR á eftir Halldóri Laxness 1968.

Hitt er annað mál, að svo virðist eftir skjölum þeim, sem Jón Ólafsson rakti efnislega, að sendimenn Ráðstjórnarríkjanna í Reykjavík hafi um skeið tekið meira mark á andstæðingum Kristins úr Reykjavíkurdeild MÍR en á honum sjálfum. Jón gefur eftirfarandi skýringu á því (bls. 186): „Í stað þess að halda í lengstu lög tengslum við þá forustumenn sem eitthvað var í spunnið og ráku sjálfstæða stefnu, voru hinir þægu og undirgefnu teknir fram yfir þá.“ En þessi skýring átti ekki við á Íslandi. Kristinn E. Andrésson og liðsmenn hans voru jafnundirgefnir Kremlverjum og hópurinn í kringum Sigurvin Össurarson. Ástæðan til þess, að sendiráðsmenn undu um skeið illa vinnubrögðum Kristins E. Andréssonar, var bersýnilega sú, að hann notaði MÍR sem féþúfu. Rekur Jón þá sögu í bók sinni án þess þó að virðast átta sig á henni. Í lok sjötta áratugar var mánaðarlegt framlag sendiráðsins til MÍR átján þúsund krónur. Það nægði vel fyrir tveimur starfsmönnum og húsnæðiskostnaði, en félagið hafði á leigu húsnæði í Þingholtsstræti 27, sem var í eigu fyrirtækisins Hóla hf. Kristinn E. Andrésson rak það fyrirtæki, og var það eins konar hliðarfyrirtæki Máls og menningar. Það var með öðrum orðum Kristinn E. Andrésson, sem leigði MÍR og safnaði húsaleiguskuldum. Sendiráðsmenn hlutu að spyrja: Hvert rann þá féð, sem hann fékk mánaðarlega til MÍR? Jafnframt tilkynnti Kristinn sendiráðsmönnum, að viðgerð á húsnæðinu hefði kostað 107 þúsund krónur, sem var stórfé á þeirri tíð, og skuldaði MÍR það fé. Það auðveldar lesandanum að vísu ekki að skilja málið, að tímaröð í þeim skýrslum sendiráðsins um MÍR–málið, sem Jón ræðir um (bls. 182–185), er óljós. Þó virðast þessar skýrslur vera frá hausti 1958 til sumars 1959, en þá var Mál og menning að undirbúa og smíða stórhýsi sitt við Laugaveg 18 og mjög fjár þurfi.

 

Óáreiðanleg verk Jóns Ólafssonar

Af þessu yfirliti um brellur, firrur, gloppur, skekkjur og villur í verkum Jóns Ólafssonar, sem ég hef tekið saman í tilefni greinar hans í Kjarnanum, má svo sannarlega sjá, að hann er í hópi þeirra, sem „hjálpa erroribus á gáng“, eins og Árni Magnússon orðaði það forðum. Verkum hans er alls ekki að treysta, og leiðinlegar villur slæðast inn hjá þeim, sem fara eftir þeim. Er ærið verk að leiðrétta missagnir hans og þeirra, sem honum treysta. „Hafa svo hverjir tveggja nokkuð að iðja.“

(Grein í Kjarnanum 14. febrúar 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir