Mánudagur 22.02.2021 - 06:17 - Rita ummæli

Brellur Jóns Ólafssonar

Ritdómur minn í Morgunblaðinu 10. desember 2020 um bók Kjartans Ólafssonar, Drauma og veruleika, varð Jóni Ólafssyni, aðalyfirlesara bókarinnar, tilefni til harðrar árásar á mig í Kjarnanum 14. desember fyrir „geðvonsku, smásmygli og öfund“, þótt hann nefndi að vísu ekki einasta dæmi um, að ég færi rangt með. En hann sagði af mér sögu. Hann kvaðst hafa verið nemandi í Menntaskólanum í Hamrahlíð endur fyrir löngu, þegar ég hefði komið þangað til að andmæla sósíalisma. Ég hefði haft á reiðum höndum tilvitnanir í kenningasmiði marxismans og jafnvel nefnt blaðsíðutöl. „Hins vegar vildi svo ein­kenni­lega til að þegar sam­visku­samir mennta­skóla­nemar fóru að leita uppi til­vitn­an­irnar þá reynd­ist erfitt að finna þær. Það var ekki fyrr en löngu síðar að ein­hver benti mér á að hversu snjallt þetta mælsku­bragð væri – að nefna blað­síðu­töl út í loftið – því þannig fengju áheyr­endur á til­finn­ing­una að ræðu­mað­ur­inn gjör­þekkti text­ana sem hann vitn­aði í eftir minni. Og þótt ein­hver færi að grufla í bók­unum á eft­ir, þá breyt­ast fyrstu hug­hrif ekki svo auð­veld­lega.“

Svo vill til, að ég man vel eftir þessu. Ég hafði vitnað í fræg ummæli Levs Trotskíjs í Byltingunni svikinni: „Í landi, þar sem ríkið er eini atvinnurekandinn, er stjórnarandstæðingurinn dæmdur til hægs hungurdauða.“ Sósíalistarnir á fundinum efuðust um, að rétt væri eftir haft, og nefndi ég þá blaðsíðutalið. Ástæðan var einföld. Nokkru áður hafði ég háð kappræðu við Halldór Guðmundsson, þá æstan trotskísta og síðar ráðsettan bókaútgefanda. Hann hafði efast um, að Trotskíj hefði sagt þetta. Ég hafði haft þetta úr bók Friedrichs von Hayeks, Leiðinni til ánauðar, en þar hafði ekkert blaðsíðutal verið nefnt. Ég gerði mér þess vegna ferð upp á Landsbókasafn, fór yfir bók Trotskíjs og fann tilvitnunina á blaðsíðu 283 í frumútgáfunni frá 1937. Þess vegna hafði ég nú blaðsíðutalið á reiðum höndum. Hér er það ekki ég, heldur Jón, sem beitir mælskubragði. Ég nefni mörg önnur dæmi um brellur Jóns í svari mínu, sem birtist í Kjarnanum 14. febrúar. Jón virðist lítið hafa þroskast, frá því að hann sat fundinn í Norðurkjallaranum í Menntaskólanum í Hamrahlíð fyrir fjörutíu árum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. febrúar 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir