Firrur eru hugmyndir, sem standast bersýnilega ekki, ganga þvert gegn þeim veruleika, sem við höfum fyrir augunum, eða gegn röklegri hugsun. Nokkrar slíkar firrur getur að líta í verkum Jóns Ólafssonar heimspekikennara um sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar. Ein þeirra er, að þeir 23 Íslendingar, sem kommúnistaflokkurinn íslenski sendi á leyniskóla Kominterns, Alþjóðasambands kommúnistaflokka, í Moskvu árin 1929–1938 hafi ekki fengið neina teljandi hernaðarþjálfun. Rök Jóns fyrir þessu eru, að engin gögn séu til um það. En sú ályktun hans er röng af tveimur ástæðum. Samkvæmt námskrám og frásögnum annarra hlutu allir nemendur í þessum skólum þjálfun í undirbúningi byltingar, þar á meðal í vopnaburði, skipulagningu götuóeirða, fölsun vegabréfa og annarra gagna, meðferð ólöglegs fjarskiptabúnaðar og notkun dulmáls. Þurft hefði sérstaka heimild um undanþágu íslensku nemendanna frá því námi til að rökstyðja ályktun Jóns. Í öðru lagi greindu nokkrir íslensku nemendanna einmitt frá því, að þeir hefðu fengið þjálfun í vopnaburði, þar á meðal Andrés Straumland, Benjamín H. J. Eiríksson og Helgi Guðlaugsson. Tók einn nemandinn meira að segja þátt í borgarastríðinu á Spáni, Hallgrímur Hallgrímsson.
Önnur firra Jóns er, að haustið 1938 hafi Sósíalistaflokkurinn verið stofnaður í andstöðu við Komintern. Heimild hans er minnisblað, sem einn starfsmaður Kominterns sendi yfirmanni sínum, þar sem hann lýsti efasemdum um stofnun flokksins. En þetta innanhússplagg jafngilti ekki neinni ákvörðun Kominterns. Allt bendir til þess, að Komintern hafi látið sér vel líka stofnun Sósíalistaflokksins. Kommúnistaflokkar Danmerkur og Svíþjóðar sendu heillaóskaskeyti við stofnunina, og ég fann í skjalasafni Sósíalistaflokksins bréf frá Alþjóðasambandi ungra kommúnista í Moskvu til Æskulýðsfylkingarinnar, sem tók við af Sambandi ungra kommúnista, þar sem lýst er ánægju með stofnun fylkingarinnar og starfsskrá. Óhugsandi hefði verið, að allt þetta hefði verið gert í andstöðu við Komintern, sem laut öflugu miðstjórnarvaldi. Engin merki neins ágreinings sjást heldur í samskiptum íslenskra sósíalista við hina alþjóðlegu kommúnistahreyfingu frá öndverðu. Um er að ræða augljósa ofályktun. Ein fjöður verður að fimm hænum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. febrúar 2021.)
Rita ummæli