Laugardagur 27.02.2021 - 08:42 - Rita ummæli

Firrur Jóns Ólafssonar

Firrur eru hugmyndir, sem standast  bersýnilega ekki, ganga þvert gegn þeim veruleika, sem við höfum fyrir augunum, eða gegn röklegri hugsun. Nokkrar slíkar firrur getur að líta í verkum Jóns Ólafssonar heimspekikennara um sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar. Ein þeirra er, að þeir 23 Íslendingar, sem kommúnistaflokkurinn íslenski sendi á leyniskóla Kominterns, Alþjóðasambands kommúnistaflokka, í Moskvu árin 1929–1938 hafi ekki fengið neina teljandi hernaðarþjálfun. Rök Jóns fyrir þessu eru, að engin gögn séu til um það. En sú ályktun hans er röng af tveimur ástæðum. Samkvæmt námskrám og frásögnum annarra hlutu allir nemendur í þessum skólum þjálfun í undirbúningi byltingar, þar á meðal í vopnaburði, skipulagningu götuóeirða, fölsun vegabréfa og annarra gagna, meðferð ólöglegs fjarskiptabúnaðar og notkun dulmáls. Þurft hefði sérstaka heimild um undanþágu íslensku nemendanna frá því námi til að rökstyðja ályktun Jóns. Í öðru lagi greindu nokkrir íslensku nemendanna einmitt frá því, að þeir hefðu fengið þjálfun í vopnaburði, þar á meðal Andrés Straumland, Benjamín H. J. Eiríksson og Helgi Guðlaugsson. Tók einn nemandinn meira að segja þátt í borgarastríðinu á Spáni, Hallgrímur Hallgrímsson.
Önnur firra Jóns er, að haustið 1938 hafi Sósíalistaflokkurinn verið stofnaður í andstöðu við Komintern. Heimild hans er minnisblað, sem einn starfsmaður Kominterns sendi yfirmanni sínum, þar sem hann lýsti efasemdum um stofnun flokksins. En þetta innanhússplagg jafngilti ekki neinni ákvörðun Kominterns. Allt bendir til þess, að Komintern hafi látið sér vel líka stofnun Sósíalistaflokksins. Kommúnistaflokkar Danmerkur og Svíþjóðar sendu heillaóskaskeyti við stofnunina, og ég fann í skjalasafni Sósíalistaflokksins bréf frá Alþjóðasambandi ungra kommúnista í Moskvu til Æskulýðsfylkingarinnar, sem tók við af Sambandi ungra kommúnista, þar sem lýst er ánægju með stofnun fylkingarinnar og starfsskrá. Óhugsandi hefði verið, að allt þetta hefði verið gert í andstöðu við Komintern, sem laut öflugu miðstjórnarvaldi. Engin merki neins ágreinings sjást heldur í samskiptum íslenskra sósíalista við hina alþjóðlegu kommúnistahreyfingu frá öndverðu. Um er að ræða augljósa ofályktun. Ein fjöður verður að fimm hænum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. febrúar 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir