Ég hef hér farið yfir ýmsar brellur, firrur, gloppur og skekkjur í verkum Jóns Ólafssonar um íslensku kommúnistahreyfinguna. Ýmsar þjóna þær þeim tilgangi að gera lítið úr ofbeldiseðli hreyfingarinnar og tengslum við alræðisherrana í Mosku. En sumar villur Jóns virðast engum tilgangi þjóna. Strax í upphafi bókarinnar Kæru félaga (bls. 15) segir Jón til dæmis frá för Hendriks Ottóssonar og Brynjólfs Bjarnasonar á annað þing Kominterns 1920: „Ferðalangarnir þurftu að fara norður alla Svíþjóð og yfir landamæri Noregs til Rússlands. Þaðan svo aftur suður á bóginn, fyrst til Petrograd þar sem þingið var sett og svo austur til Moskvu.“ En samkvæmt frásögn Hendriks, sem ástæðulaust er að rengja, fóru þeir fyrst frá Kaupmannahöfn til Stokkhólms til að ná í gögn og farareyri hjá erindreka Kominterns þar í borg. Síðan sneru þeir aftur til Kaupmannahafnar og fóru með skipum vestur og norður Noreg til Múrmansk. Var þetta hin mesta svaðilför. Urðu þeir að smygla sér í litlum báti norður að landamærum Noregs, því að þeir höfðu ekki fararleyfi þangað, og þaðan til Rússlands. Þeir misstu raunar af fyrstu dögum þingsins í Pétursgarði, því að það hafði þá verið flutt til Moskvu. Komu þeir mjög seint á þingið og eru þess vegna ekki á skrá um þingfulltrúa, þótt þeir tækju fullan þátt í störfum þingsins.
Margar villur eru í sömu bók í frásögn Jóns af MÍR, Menningartengslum Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, sem Jón kallar stundum ranglega (bls. 181 og 340) Menningarsamband. Jón segir (bls. 185) um átök í MÍR árin 1958–1960: „Þessi átök enduðu með því að Kristinn E. Andrésson missti ítök sín í MÍR og var bolað út úr félaginu.“ Þessu var þveröfugt farið. Andstæðingar Kristins misstu ítök sín í MÍR og var bolað út úr félaginu. Eftir að Sigurvin Össurarson, Adolf Petersen og fleiri menn úr Reykjavíkurdeild MÍR höfðu haustið 1958 upplýst rússneska erindreka um, að þeir vissu af fjárhagslegum stuðningi Moskvumanna við MÍR, varð órói í félaginu. Beittu forystumenn Sósíalistaflokksins sér fyrir því, að Reykjavíkurdeild MÍR væri tekin úr höndum þessara manna á aðalfundi hennar 26. febrúar 1960. Þeim tókst ætlunarverk sitt. Varð Árni Böðvarsson formaður félagsdeildarinnar í stað Sigurvins, og annar bandamaður Kristins, Þorvaldur Þórarinsson, tók sæti í stjórninni. Einn þeirra manna, sem felldir voru úr stjórn, Adolf Petersen, skrifaði um þetta í blöð. Málið er líka rakið nokkuð í einni SÍA-skýrslunni, sem Jón Ólafsson vitnar sjálfur í (Rauða bókin (1984), bls. 126). Kristinn E. Andrésson og aðrir forystumenn Sósíalistaflokksins réðu alla tíð yfir sjálfum heildarsamtökunum, enda varð Kristinn forseti MÍR á eftir Halldóri Laxness 1968.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. mars 2021.)
Rita ummæli