Laugardagur 27.03.2021 - 19:18 - Rita ummæli

Villur Jóns Ólafssonar

Ég hef hér farið yfir ýmsar brellur, firrur, gloppur og skekkjur í verkum Jóns Ólafssonar um íslensku kommúnistahreyfinguna. Ýmsar þjóna þær þeim tilgangi að gera lítið úr ofbeldiseðli hreyfingarinnar og tengslum við alræðisherrana í Mosku. En sumar villur Jóns virðast engum tilgangi þjóna. Strax í upp­hafi bókarinnar Kæru félaga (bls. 15) segir Jón til dæmis frá för Hend­riks Ottós­sonar og Brynj­ólfs Bjarna­sonar á annað þing Kom­interns 1920: „Ferða­lang­arnir þurftu að fara norður alla Sví­þjóð og yfir landa­mæri Nor­egs til Rúss­lands. Þaðan svo aftur suður á bóg­inn, fyrst til Petr­ograd þar sem þingið var sett og svo austur til Moskvu.“ En sam­kvæmt frá­sögn Hend­riks, sem ástæðu­laust er að rengja, fóru þeir fyrst frá Kaup­manna­höfn til Stokkhólms til að ná í gögn og farar­eyri hjá erind­reka Kom­interns þar í borg. Síðan sneru þeir aftur til Kaup­manna­hafnar og fóru með skipum vestur og norður Noreg til Múr­m­ansk. Var þetta hin mesta svað­il­för. Urðu þeir að smygla sér í litlum báti norður að landa­mærum Noregs, því að þeir höfðu ekki far­ar­leyfi þang­að, og þaðan til Rúss­lands. Þeir misstu raunar af fyrstu dögum þings­ins í Pét­urs­garði, því að það hafði þá verið flutt til Moskvu. Komu þeir mjög seint á þing­ið og eru þess vegna ekki á skrá um þingfulltrúa, þótt þeir tækju fullan þátt í störfum þingsins.

Margar villur eru í sömu bók í frásögn Jóns af MÍR, Menningartengslum Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, sem Jón kallar stundum ranglega (bls. 181 og 340) Menningarsamband. Jón segir (bls. 185) um átök í MÍR árin 1958–1960: „Þessi átök end­uðu með því að Krist­inn E. Andr­és­son missti ítök sín í MÍR og var bolað út úr félaginu.“ Þessu var þver­öf­ugt far­ið. Andstæð­ingar Krist­ins misstu ítök sín í MÍR og var bolað út úr félag­inu. Eftir að Sigurvin Össurarson, Adolf Pet­er­sen og fleiri menn úr Reykja­vík­ur­deild MÍR höfðu haustið 1958 upplýst rússneska erindreka um, að þeir vissu af fjár­hags­legum stuðn­ingi Moskvumanna við MÍR, varð órói í félag­inu. Beittu for­ystu­menn Sós­í­alista­flokks­ins sér fyrir því, að Reykjavíkurdeild MÍR væri tekin úr höndum þess­ara manna á aðal­fundi hennar 26. febr­úar 1960. Þeim tókst ætl­un­ar­verk sitt. Varð Árni Böðv­ars­son for­maður félags­deild­ar­innar í stað Sig­ur­vins, og annar banda­maður Krist­ins, Þorvaldur Þór­ar­ins­son, tók sæti í stjórn­inni. Einn þeirra manna, sem felldir voru úr stjórn, Adolf Pet­er­sen, skrif­aði um þetta í blöð. Málið er líka rakið nokkuð í einni SÍA-skýrsl­unni, sem Jón Ólafs­son vitnar sjálfur í (Rauða bókin (1984), bls. 126). Kristinn E. Andr­és­son og aðrir for­ystu­menn Sós­í­alista­flokks­ins réðu alla tíð yfir sjálfum heild­ar­sam­tök­un­um, enda varð Krist­inn for­seti MÍR á eftir Hall­dóri Laxness 1968.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. mars 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir