Laugardagur 27.03.2021 - 19:36 - Rita ummæli

Vormaður og sálufélag

Fyrir nokkrum misserum var gerð könnun um fallegasta orðið á íslensku, og varð „ljósmóðir“ fyrir valinu. Það var eðlilegt. Hvort tveggja er, að orðið sjálft er fallegt og þjált og að mikil birta hvílir yfir merkingarsviði þess: ný börn að koma í heiminn, mikil blessun fámennri þjóð. Hvernig ætti að þýða þetta orð? Hver tunga á sér einmitt orð, sem örðugt er að þýða, vegna þess að merkingarsvið þeirra vísa til sérstakrar sögu og menningar, hugsunarháttar og aðstæðna. Dæmi eru enska orðið „gentleman“ og danska orðið „hygge“.

Hér bendi ég á tvö önnur sérstök orð í íslensku. Annað er „vormaður“. Það skírskotar til kynslóðarinnar, sem hóf að láta að sér kveða eftir aldamótin 1900 og var ráðin í að koma Íslandi, þá fátækasta landi Vestur-Evrópu, í fremstu röð. Þetta voru vormenn Íslands og auðvitað af báðum kynjum. Þetta voru verkfræðingar, sem lögðu vegi, hlóðu stíflur, smíðuðu brýr, reistu hús og bægðu frá óhreinindum, kulda og myrkri með vatns-, hita- og rafmagnsveitum, læknar, sem skáru burt mein og bólusettu gegn farsóttum, kennarar, sem vöktu áhuga nemenda sinna á sögu Íslands og einstæðum menningararfi og brýndu fyrir þeim að vanda mál sitt, kveiktu í þeim metnað fyrir Íslands hönd, útgerðarmenn, sem ráku vélbáta og togara og öfluðu drjúgra gjaldeyristekna, iðnrekendur, sem veittu fjölda manns atvinnu og skírðu fyrirtæki sín rammíslenskum nöfnum. Orðið „vormaður“ lýsir von íbúanna á norðurhjara veraldar um meiri birtu.

Hitt orðið er „sálufélag“. Í íslenskum þjóðsögum er hermt, að Sæmundur prestur í Odda hafi heyrt í fornum spám, að honum væri ætlað sálufélag með fjósamanni á Hólum. Eitt sérkenni Íslendinga er, að þeir eru miklu fastmótaðri heild en flestar aðrar þjóðir. Stéttamunur er hér minni og kjör jafnari en víðast annars staðar, eins og nýjustu alþjóðlegu mælingar staðfesta. Íslendingar tala ekki ótal mállýskur, og þeir geta hæglega lesið þá tungu, sem töluð hefur verið hér frá öndverðu. Hver maður á því sálufélag við alla aðra Íslendinga, frá fyrstu landnámsmönnunum, Ingólfi Arnarsyni og Hallveigu Fróðadóttur, til þeirra nýfæddu barna, sem ljósmæðurnar taka á móti þessa stundina. Mikill skaði væri að því að rjúfa þetta sálufélag eins og nú er reynt að gera í nafni fjölmenningar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. mars 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir