Liðin eru 409 ár, frá því að Arngrímur lærði birti rit sitt, Anatome Blefkeniana (Verk Blefkens krufin), þar sem hann andmælti alls konar furðusögum um Ísland, sem þýski farandprédikarinn Dithmar Blefken hafði sett saman. Mér sýnist ekki vanþörf á að endurtaka leikinn, því að Þorvaldur Gylfason prófessor hefur farið víða um lönd og prédikað gegn þjóð sinni, sérstaklega útgerðarmönnum. Þorvaldur stofnaði sem kunnugt er stjórnmálaflokk um baráttumál sín, og fékk hann 2,5% í kosningunum 2013 og engan þingmann. Í skýrslu, sem Þorvaldur tók nýlega saman um stjórnarfar á Íslandi fyrir Bertelsmenn stofnunina í Þýskalandi, segir hann, að lög um fjármál stjórnmálaflokka hafi verið sett á Íslandi, eftir að Ríkisendurskoðun hafi ljóstrað upp um, að útgerðarfyrirtæki hafi styrkt Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn tífalt á við aðra flokka árin 2008–2011.
Þetta er fjarstæða. Lög um fjármál stjórnmálaflokka voru sett árið 2006, fyrir það tímabil, sem Þorvaldur nefnir. Ég hef hvergi rekist á neina uppljóstrun um, að árin 2008–2011 hafi útgerðarfyrirtæki styrkt Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn tífalt á við aðra flokka. Ríkisendurskoðun kannast ekki heldur við málið. Þessi tala gæti að vísu verið nálægt sanni, því að útgerðarfyrirtæki styrkja vissulega frekar þessa flokka en vinstri flokkana. En í lögunum frá 2006 um fjármál flokka eru settar strangar almennar skorður um styrki fyrirtækja til flokka, og kemur meginhluti tekna flokkanna frá ríki og sveitarfélögum.
Ég skoðaði málið á heimasíðu Ríkisendurskoðunar. Árin 2008–2011 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 804,8 millj. kr. í framlög, aðallega frá ríkinu, en 15,2 millj. kr. af þessu fé kom frá útgerðarfyrirtækjum, innan við 2% af heildarframlögum. Framsóknarflokkurinn fékk 319,2 millj. kr. samtals, þar af 8,2 millj. kr. frá útgerðarfyrirtækjum, um 2,5% af heildarframlögum. Samfylkingin fékk 620,6 millj. kr. samtals, þar af 2,3 millj. kr. frá útgerðarfyrirtækjum. Vinstri grænir fengu 402,3 millj. kr. samtals, þar af innan við 500 þús. kr. frá útgerðarfyrirtækjum.
Af tekjum stjórnmálaflokkanna kom með öðrum orðum aðeins brot frá útgerðarfyrirtækjum, um 2,5%, þar sem hlutfallið var hæst. Samtals námu framlög útgerðarfyrirtækja til Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þetta tímabil 23,4 millj. kr., en til Samfylkingar og Vinstri grænna á sama tímabili 2,7 millj. kr. Samtals voru því framlögin í þessu dæmi rösklega áttföld, ekki tíföld. En sú tala skiptir vitanlega engu máli, því að tekjur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks af framlögum útgerðarfyrirtækja voru aðeins örlítið brot af heildartekjum þeirra. Það var lægra hlutfall en Þorvaldur fékk í kosningunum 2013, og var það þó lágt.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. apríl 2021.)
Rita ummæli