Laugardagur 15.05.2021 - 09:11 - Rita ummæli

Þrælar í íslenskri sagnritun

Einn helsti sérfræðingur Bandaríkjanna um þrælahald er hagfræðingurinn Thomas Sowell, sem hefur ef til vill frjálsari hendur en flestir aðrir um djarflegar kenningar, af því að hann er dökkur á hörund. En þrennt í bókmenntum og sögu Íslands styrkir kenningar hans.

Ein kenningin er, að þrælahald sé líklegt til að deyja út við venjulegar aðstæður, enda sé þræll meira virði frjáls en í ánauð. Hann sé þá líklegri til að láta uppskátt um hæfileika sína og njóta þeirra. Eins og Anna Agnarsdóttir sagnfræðingur og Ragnar Árnason hagfræðingur hafa bent á, lagðist þrælahald á Íslandi fljótlega niður, og nærtækt er að álykta, að það sé, af því að það borgaði sig ekki. Í upphafi var skortur á fólki, en ekki landi, en þetta snerist við, þegar landið var fullbyggt og allar jarðir numdar. Þá lækkuðu laun frjálsra verkamanna í hlutfalli við afrakstur af landi, og ekki borgaði sig lengur að halda þræla.

Önnur kenningin er, að varða þurfi færan veg úr þrælahaldi í frelsi. Þessu lýsir sagnritarinn Snorri Sturluson vel í Heimskringlu, þegar hann segir frá Erlingi Skjálgssyni, sem leyfði þrælum sínum að hirða afrakstur af aukavinnu sinni og kaupa sig frjálsa, en með því fé keypti hann aðra þræla, sem unnu síðan til frelsis. Vísaði hann leysingjum sínum til fiskveiða eða í búskap. „Öllum kom hann til nokkurs þroska.“

Þriðja kenningin er, að þrælahald sé ekki í eðli sínu kúgun hvítra manna á svörtum, heldur hafi það tíðkast að fornu og á öðrum menningarsvæðum. Til dæmis voru líklega fleiri hvítir þrælar í Tyrkjaveldi soldánsins en svartir þrælar á ekrum Suðurríkjanna. Þetta ættu Íslendingar að vita öðrum fremur, því að hingað komu sjóræningjar frá Salé og Algeirsborg árið 1627, rændu um 400 Íslendingum og seldu í þrældóm. Varð aðeins um fimmtíu þeirra endurkomu auðið. Séra Ólafur Egilsson skrifaði merka bók um Tyrkjaránið, en hann var sendur frá Algeirsborg til Danmerkur að útvega lausnargjöld. Í bók hans kemur raunar fram, að Íslendingur hafi verið á einu skipinu og aðstoðað sjóræningjana.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. maí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir