Laugardagur 22.05.2021 - 07:00 - Rita ummæli

Kristján X. og Íslendingar

Í árslok 2018 kom út bók í Danmörku, Christian X og Island, en hún hefur að geyma dagbókarfærslur og athugasemdir Kristjáns X. um Ísland, en þær færði konungur til sérstakrar bókar, og sá prófessor Knud V. J. Jespersen um útgáfuna. Kristján var konungur Íslands frá 1918 fram að lýðveldisstofnun, því að með sambandslagasáttmálanum við Dani varð Ísland sjálfstætt og fullvalda konungsríki, þótt Danir færu til bráðabirgða eftir það með utanríkismál og landhelgisgæslu.

Mér þykir bókin öll hin merkilegasta. Konungur virðist hafa verið miklu samviskusamari og góðviljaðri maður en ég hafði talið, en hér uppi á Íslandi naut hann takmarkaðra vinsælda fyrir hranalega framkomu, og eru til af henni frægar sögur. En um leið skil ég betur, hvers vegna konungssambandið hlaut að slitna, þótt hvergi væri raunar gert ráð fyrir því í sambandslagasáttmálanum 1918, að það væri uppsegjanlegt. Konungur var Stórdani eins og það var iðulega kallað. Hann hafði takmarkaðan áhuga á hinum böldnu þegnum sínum í norðri og skildi illa viðleitni þeirra til sjálfstæðis. Hann var umfram allt konungur Danmerkur, ekki Íslands.

Þetta kemur meðal annars fram í tveimur samtölum, sem Kristján færir til bókar. Hið fyrra átti hann við Carl Theodor Zahle, forsætisráðherra Dana, 3. desember 1913. Þeir andvörpuðu báðir yfir kröfuhörku Íslendinga, en Zahle sagði, að hófsamir menn þar nyrðra hlytu að virða samstarfsvilja Dana. Án Danmerkur ætti Ísland sér engan bakhjarl. Norðmenn væru ágengir, en Bretar áhugalausir. Zahle taldi það kaldhæðni örlaganna, að háværustu Danahatararnir kæmu úr röðum íslensku stúdentanna í Kaupmannahöfn, sem notið hefðu rausnarlegra Garðstyrkja. Konungur var sammála forsætisráðherra sínum og varaði hann við að láta um of undan Íslendingum.

Seinna samtalið átti konungur 14. desember 1914 við danskan sjóliðsforingja, Paul Erhardt Saabye, sem gegnt hafði herþjónustu við strendur Íslands. Kvartaði sjóliðsforinginn undan Danahatri á Íslandi. Landsmenn væru almennt fáfróðir. Allir læsu þeir þó og kynnu Íslendingasögur, og það virtist ala á þvermóðsku þeirra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. maí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir