Laugardagur 29.05.2021 - 10:04 - Rita ummæli

Afhrópun Kristjáns X.

Þegar ég las nýlega Íslandsdagbækur Kristjáns X., velti ég enn fyrir mér, hvers vegna Íslendingar afhrópuðu kónginn. Það var hvergi gert ráð fyrir því í sambandslagasáttmálanum frá 1918, að konungssambandið væri uppsegjanlegt.

Ég hef rakið ýmsar sögur um hranalega framkomu Kristjáns X. við Íslendinga. En setjum svo, að konungur hefði verið sami Íslandsvinurinn og faðir hans Friðrik VIII., heimsótt landið reglulega og orðið hvers manns hugljúfi. Ríkið hefði keypt Bessastaði fyrir konungssetur og dönsku konungshjónin unað sér þar vel. Hefði konungur þá verið afhrópaður? Nýja Sjáland er enn í konungssambandi við Stóra Bretland, þótt það sé hinum megin á hnettinum, og Elísabet II. er þjóðhöfðingi margra annarra samveldisríkja.

Þetta dæmi geymir eitt svar. Þótt Nýja Sjáland sé langt frá Bretlandseyjum, byggðist það þaðan. Nýsjálendingar og Bretar tala sama tungu og deila sömu menningu. Ísland byggðist ekki frá Danmörku. Við tölum ekki dönsku, og menning okkar er ekki dönsk, þótt vissulega megi greina hér margvísleg menningaráhrif frá Danmörku, flest heldur til bóta.

Annað ræður þó líklega úrslitum. Nýja Sjáland, Ástralía og Kanada hafa jafnan fylgt Stóra Bretlandi í stríði og friði, þótt sjálfstæð séu. Í fyrri heimsstyrjöld kom hins vegar áþreifanlega í ljós, að Ísland var á valdsvæði Breta, þótt það teldist dönsk hjálenda. Bretar sendu hingað ræðismann, sem tók utanríkisviðskiptin í sínar hendur og ritskoðaði fréttir þrátt fyrir yfirlýst hlutleysi Danmerkur. Þetta varð enn skýrara í seinni heimsstyrjöld, þegar Danmörk var hernumin af Þjóðverjum og Ísland af Bretum. Danmörk gerðist jafnvel 1941 aðili að sáttmála Þýskalands, Japans, Ítalíu og Spánar gegn Alþjóðasambandi kommúnista, Komintern.

Þegar dró að lokum stríðsins, vildu Íslendingar skiljanlega vera óbundnir af því, sem kynni að verða í Danmörku. Öðru máli hefði gegnt, hefði ákvörðun um konungssambandið verið tekin, eftir að Danmörk og Ísland voru bæði orðin aðilar að Atlantshafsbandalaginu og undir vernd Bandaríkjanna. Þá hefði það hugsanlega getað gengið upp.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. maí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir