Margt er oft til í því, sem Týr skrifar í Viðskiptablaðið, en halda verður því til haga vegna nýlegra skrifa hans um mig, að Háskólinn fór aldrei eftir neinni kröfu um, að ég hætti að kenna. Sú krafa kom raunar aldrei fram á neinn hátt við mig. Þegar ég samdi fyrir nokkru um breytta tilhögun á rannsóknar-, stjórnunar- og kennsluskyldum mínum, var aldrei minnst einu orði á neinar slíkar kröfur. Eins og ég hafði oft lagt til áður, voru sameinuð tvö námskeið í stjórnmálaheimspeki: hafði annað verið kennt í stjórnmálafræði og hitt í heimspeki, og tóku heimspekingarnir að sér kennsluna, svo að ég gat helgað mig þeim rannsóknum, sem skiluðu á síðasta ári verki í tveimur bindum, TWENTY-FOUR CONSERVATIVE-LIBERAL THINKERS, samtals 884 bls. Fleira er væntanlegt á næstu árum. Framkoma yfirmanna Háskólans í minn garð (rektors og forseta félagsvísindasviðs) við þessar breytingar var óaðfinnanleg. En vissulega ríður holskefla ófrjálslyndis og umburðarleysis yfir vestræna háskóla þessi misserin, eins og Týr nefnir mörg dæmi um í grein sinni. Vísindin eiga að vera frjáls samkeppni hugmynda, og fræðimenn þurfa óttalausir að geta rakið hugmyndir og röksemdir út í hörgul, reynt á þanþol þeirra.
Rita ummæli