Laugardagur 07.08.2021 - 06:01 - Rita ummæli

Hvað sögðu ráðunautarnir?

HalldorLaxnessGögn úr skjalasafni bandaríska útgefandans Alfreds A. Knopfs, sem Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur hefur grafið upp og birt á Moggabloggi sínu, afsanna þá kenningu, að Bjarni Benediktsson og bandarískir erindrekar hafi í sameiningu komið í veg fyrir, að bækur Laxness yrðu gefnar út í Bandaríkjunum á dögum Kalda stríðsins. Knopf gaf Sjálfstætt fólk út 1946, enda höfðu rithöfundarnir May Davies Martinet og Bernard Smith mælt sterklega með bókinni. Hún seldist vel, eftir að Mánaðarbókafélagið, Book-of-the-Month Club, gerði hana að valbók.

Knopf lét því skoða Sölku Völku, sem til var í enskri þýðingu. Starfsmaður hans, bókmenntafræðingurinn Roy Wilson Follett, las þýðinguna, en taldi söguna standa að baki Sjálfstæðu fólki, vera hráa og ruglingslega. Ákvað Knopf að gefa bókina ekki út. Ári síðar, 1947, var honum send dönsk þýðing á Heimsljósi ásamt nokkrum köflum á ensku. Hann bar ensku kaflana undir annan starfsmann sinn, rithöfundinn Herbert Weinstock, sem kvaðst ekki hafa verið hrifinn af Sjálfstæðu fólki og taldi þetta brot úr Heimsljósi ekki lofa góðu. Tímasóun væri að skoða verkið nánar.

Í árslok 1948 var Knopf send sænsk þýðing á Íslandsklukkunni, og nú var Eugene Gay-Tifft fenginn til að meta verkið, en hann hafði þýtt talsvert úr norsku fyrir Knopf. Hann skilaði rækilegri umsögn, var hrifinn af verkinu, en taldi vafamál, að það myndi höfða til bandarískra lesenda. Ákvað Knopf að gefa bókina ekki út. Enn var Knopf send þýsk þýðing á Íslandsklukkunni haustið 1951, og taldi rithöfundurinn Robert Pick (sem var austurrískur flóttamaður) ástæðulaust að endurskoða fyrri ákvörðun.

Snemma árs 1955 var Knopf send sænsk þýðing Gerplu. Nú var bókin borin undir sænska konu, Alfhild Huebsch, sem gift var bandarískum bókmenntamanni, og lagði hún til, að henni yrði hafnað. Sagan væri góð og gæti skírskotað til norrænna lesenda, en ekki bandarískra.

Þremur árum síðar las einn ráðunautur Knopfs, Henry Robbins, enska þýðingu Gerplu, og vildi hann líka hafna bókinni, enda væri hún misheppnuð skopstæling á Íslendinga sögum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. ágúst 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir