Þriðjudagur 10.08.2021 - 07:18 - Rita ummæli

Leiðréttingar við grein Reynis Traustasonar um mig

Reynir Traustason birti í gær grein um mig í nettímaritinu Mannlífi. Margt er ónákvæmt eða rangt í þessari grein, og hefði honum verið í lófa lagið að hafa samband við mig til að fá staðreyndir málsins réttar.

1) Útivistardómurinn yfir mér í Bretlandi fyrir meiðyrði var ógiltur af þarlendum dómstólum, vegna þess að mér hafði ekki verið stefnt eftir réttum reglum. Málinu lauk svo, að Jón Ólafsson sótti bætur til breskra stjórnvalda vegna þessarar handvammar. Hins vegar kostuðu þessi málaferli mig um 25 milljónir, jafnvel þótt ég hlyti að lokum engan dóm. Hvorki Rithöfundasambandið né Blaðamannafélagið ályktuðu mér til stuðnings, þótt eftir því væri leitað. Málfrelsið er aðeins fyrir vinstri menn. New York Times og Sunday Times skrifuðu hins vegar mér til stuðnings, og meiðyrðalöggjöfinni hefur verið breytt í Bretlandi, meðal annars vegna þessa máls, sem vakti mikla athygli þar ytra og þótti furðulegt.

2) Ég hlaut engan dóm fyrir ritstuld, heldur fyrir brot á höfundarrétti, enda gerði ég enga tilraun til að leyna því, að í bók um æskuverk Laxness studdist ég að miklu leyti við endurminningar Laxness frá æsku. Ég notaði sömu aðferðir og Laxness í bókum eins og Heimsljósi og Íslandsklukkunni og Pétur Gunnarsson í bókum sínum um Þórberg. En auðvitað giltu aðrar reglur um þá en mig. Þeir máttu það, sem ég mátti ekki. Bókmenntafræðingar sögðu í aðdáunartón, að eitt einkenni Laxness væri, hvernig hann ynni eigin texta úr texta annarra! Ég sýndi raunar fjölskyldu Laxness handritið, og sátu tvær dætur hans í tvo daga yfir því, eins og starfsmaður útgáfunnar, Bjarni Þorsteinsson, bar fyrir Héraðsdómi. Guðný Halldórsdóttir var ekki stödd í réttarsal, þegar Bjarni bar vitni, og þegar hún bar síðan vitni og var spurð, hversu lengi hún hefði setið með handritið, svaraði hún, um það bil kortér! Viðstaddir, sem hlustað höfðu áður á framburð Bjarna, tóku andköf. Þeir vissu, að hún var að setja ósatt. Það var ekki nema von, að Héraðsdómur sýknaði mig. En Hæstiréttur virðist ekki hafa litið á þessa hlið málsins. Fyrir mér vakti auðvitað alls ekki að brjóta höfundarrétt á Laxness-fjölskyldunni, sem hefur raunar nýlega tilkynnt skattyfirvöldum, að höfundarrétturinn sé einskis virði, svo að hún eigi ekki að greiða erfðaskatt af honum.

En bæði þessi dómsmál voru óskemmtileg, og sagði ég stundum nemendum mínum, að eini dómurinn, sem ég hefði hlotið og væri stoltur af, væri fyrir að reka Frjálst útvarp. Okkur tókst að brjóta á bak aftur einokun ríkisins á útvarpsrekstri.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir