Fimmtudagur 19.08.2021 - 18:15 - Rita ummæli

Sjálfstæði dómarans

Carl Baudenbacher, forseti EFTA-dómstólsins 2003–2017, gerir harða hríð að eftirmanni sínum, Páli Hreinssyni, í Morgunblaðinu 31. júlí 2021. Nefnir hann nokkur dæmi, þar sem hann telur dómstólinn undir forystu Páls draga taum norska ríkisins, en Páll hafi auk þess tekið að sér launaða ráðgjöf fyrir forsætisráðuneytið íslenska og skert með því sjálfstæði sitt. Ég þekki ekki hin norsku mál, en kann eitt íslenskt dæmi.

Í árslok 2008 var Páll skipaður formaður rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu. Með honum í nefndinni skyldu sitja Tryggvi Gunnarsson lögfræðingur og Sigríður Benediktsdóttir hagfræðingur. Hinn 31. mars 2009 birtist í bandarísku stúdentablaði viðtal við Sigríði, þar sem hún sagði um bankahrunið: „Mér finnst sem þetta sé niðurstaðan af öfgakenndri græðgi margra sem hlut eiga að máli og tómlátu andvaraleysi þeirra stofnana sem hafa áttu eftirlit með fjármálakerfinu og sjá áttu um fjármálalegan stöðugleika í landinu.“ Með „tómlátu andvaraleysi“ gat Sigríður ekki átt við nema tvær stofnanir, Fjármálaeftirlitið, sem átti að hafa eftirlit með fjármálakerfinu, og Seðlabankann, sem átti að sjá um fjármálastöðugleika. Hún hafði þannig fellt dóm fyrirfram.

Eftir þessu var strax tekið. Ásmundur Helgason, aðallögfræðingur Alþingis, taldi Sigríði hafa gert sig vanhæfa með þessum ummælum. Þeir Páll og Tryggvi voru sömu skoðunar, en Páll er sérfræðingur í hæfisreglum stjórnsýslu, sem hann hafði skrifað um heila doktorsritgerð. Í símtali 22. apríl 2009 báðu Páll og Tryggvi Sigríði um að víkja úr nefndinni. Hún neitaði, og hófst vel skipulögð fjölmiðlaherferð henni til stuðnings. Við svo búið skiptu þeir Páll og Tryggvi um skoðun og kváðu nú ummæli Sigríðar hafa verið almenns eðlis, enda hefði hún ekki nafngreint neinar stofnanir. Hún gæti því setið áfram í nefndinni. Þessi rökstuðningur var fráleitur. Lögum samkvæmt hefur ein stofnun eftirlit með fjármálakerfinu, Fjármálaeftirlitið, og önnur stofnun sér um fjármálastöðugleika, Seðlabankinn. Auðvitað var Sigríður að tala um þessar stofnanir og engar aðrar. Doktorsritgerð Páls var þegjandi og hljóðalaust sett upp í hillu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. ágúst 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir