Föstudagur 03.09.2021 - 12:13 - Rita ummæli

Styrmir Gunnarsson

Sá Styrmir Gunnarsson, sem ég kynntist ungur, var ólíkur hinni opinberu mynd af Morgunblaðsritstjóranum, en hann átti að vera klækjarefur með alla þræði í hendi sér. Sá Styrmir, sem ég þekkti, hafði þrjár eiginleika til að bera í meira mæli en flestir aðrir: hann var trygglyndur, vinnusamur og tilfinninganæmur. Hann var um árabil einn nánasti trúnaðarmaður Geirs Hallgrímssonar, enda sagði Geir mér úti í Lundúnum haustið 1981, að hann vildi helst, að Styrmir tæki við formennsku af sér. Er bók Styrmis um átökin í Sjálfstæðisflokknum á áttunda og níunda áratug hin fróðlegasta. En Styrmir var ekki síður tryggur æskuvinum sínum, jafnvel þótt þeir hefðu haslað sér völl annars staðar, og þótti okkur sjálfstæðismönnum stundum nóg um.
Styrmir var afar vinnusamur, vakinn og sofinn á Morgunblaðinu, en um leið jafnan reiðubúinn að eyða löngum tíma í spjalli yfir hádegisverði eða kaffibolla, og kom þá í ljós, hversu áhugasamur hann var um fólk. Hann hugsaði miklu frekar í mönnum en málefnum, fannst mér stundum. Þó var hann eindreginn fylgismaður lýðræðisþjóðanna í Kalda stríðinu og stundaði þá upplýsingaöflun fyrir Vesturveldin, eins og hann lýsir í einni bók sinni. Hann sagði mér, að þeir Matthías Johannessen hefðu ákveðið eftir sigurinn í Kalda stríðinu að beita ekki hinu mikla afli Morgunblaðsins til að gera upp við íslenska kommúnista. Græða þyrfti sár frekar en stækka. En hann efaðist samt stundum um, að sú ákvörðun hefði verið rétt, sérstaklega eftir að hann las bækur okkar Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar um kommúnistahreyfinguna.
Styrmir var í þriðja lagi mjög tilfinninganæmur. Hann var í hjarta sínu, fannst mér, enginn sérstakur stuðningsmaður hinna ríku og voldugu, eins og margir héldu, heldur hafði hann óskipta samúð með lítilmagnanum, hver sem hann var. Hann tók alltaf svari smákapítalistanna gegn stórlöxunum. Jafnframt átti hann til mikla blíðu. Við sátum stundum að skrafi á skrifstofu hans á Morgunblaðinu, og var hann þá hinn ákveðnasti, en ef dætur hans hringdu, tók hann alltaf símann og málrómurinn breyttist, röddin lækkaði og mýktist. Hann reyndist fjölskyldu sinni og vinum mjög vel, og hann elskaði land sitt og þjóð fölskvalaust. Hann var þjóðernissinni í bestu merkingu þess orðs.
(Minningargrein í Morgunblaðinu 3. september 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir