Föstudagur 03.09.2021 - 12:11 - Rita ummæli

Tómlátt andvaraleysi?

Skömmu eftir að Sigríður Benediktsdóttir var í árslok 2008 skipuð í rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu, sagði hún í bandarísku stúdentablaði: „Mér finnst sem þetta sé niðurstaðan af öfgakenndri græðgi margra sem hlut eiga að máli og tómlátu andvaraleysi þeirra stofnana sem hafa áttu eftirlit með fjármálakerfinu og sjá áttu um fjármálalegan stöðugleika í landinu.“ Sigríður átti við tvær stofnanir, Fjármálaeftirlitið, sem skyldi hafa eftirlit með fjármálakerfinu, og Seðlabankann, sem skyldi vinna að fjármálastöðugleika. Hún hafði þannig fellt dóm fyrirfram. Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndarinnar, hringdi því í Sigríði 22. apríl 2009 og bað hana að víkja úr nefndinni. Hún neitaði, og Páll glúpnaði.

En Seðlabankinn verður ekki sakaður um „tómlátt andvaraleysi“. Þegar Davíð Oddsson var nýorðinn seðlabankastjóri haustið 2005, varaði hann ráðherrana Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde við því, að bankakerfið gæti hrunið. Það væri orðið stærra en svo, að íslenska ríkið fengi bjargað því í lánsfjárkreppu. Hann stakk upp á því við bankastjóra viðskiptabankanna (eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar), að Kaupþing flytti höfuðstöðvar sínar úr landi, Glitnir seldi hinn stóra banka sinn í Noregi og Landsbankinn færði Icesave-reikninga í Bretlandi úr útbúi í dótturfélag. Auðvitað gat hann ekki látið áhyggjur sínar í ljós opinberlega. Í nóvember 2007 sagði Davíð þó á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs, að bankakerfið væri „örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma“. Í árslok 2007 varaði hann ráðherrana Geir H. Haarde og Þorgerði K. Gunnarsdóttur enn við hugsanlegu hruni bankakerfisins. Seðlabankinn fékk í febrúar 2008 enska fjármálafræðinginn Andrew Gracie til að gera skýrslu um vanda bankakerfisins, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að það gæti hrunið í október.

Fram eftir ári 2008 margreyndi Seðlabankinn að gera gjaldeyrisskiptasamninga við aðra seðlabanka, en var víðast hafnað. Bankinn ákvað því að bjarga því sem bjargað yrði með því að takmarka eftir föngum skuldbindingar hins opinbera. Stofnaður var í kyrrþey starfshópur um lausafjárstýringu, sem undirbjó neyðarráðstafanir. Bankinn þurfti að senda einkaþotu eftir fjármálaráðgjöfum J. P. Morgan, svo að þeir gætu sannfært hikandi ráðherra Samfylkingarinnar á næturfundi um þá lausn, sem valin var með neyðarlögunum 6. október 2008. Fátt af þessu vissi Sigríður, þegar hún tilkynnti dóm sinn um „tómlátt andvaraleysi“ í hinu bandaríska stúdentablaði.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. ágúst 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir