Laugardagur 11.09.2021 - 03:02 - Rita ummæli

Fyrir tuttugu árum

Sumar fréttir eru svo óvæntar og stórar, að allir muna, hvar þeir voru, þegar þeim bárust þær. Árið 1963 var ég tíu ára lestrarhestur á Laugarnesvegi 100. Hinar fjölmörgu bækur á heimili foreldra minna nægðu mér ekki, svo að ég laumaðist oft upp til vinafólks okkar í sama stigagangi og grúskaði í bókum. Ég sat þar við lestur síðdegis föstudaginn 22. nóvember, þegar annar sonur hjónanna í íbúðinni kom að mér og kallaði: „Hefurðu heyrt fréttirnar? Þeir hafa skotið Kennedy!“ Öllum var brugðið.

Haustið 1997 var ég á leið til Torino, þar sem ég skyldi vera gistifræðimaður í nokkra mánuði. Að morgni sunnudagsins 31. ágúst var ég nýlentur í Mílanó (sem fornmenn kölluðu Melansborg) og í leigubíl á leið til járnbrautarstöðvarinnar. Lágvært útvarp á ítölsku var í gangi. Skyndilega hrópaði ökumaðurinn: „Díana prinsessa er látin! Hún lenti í bílslysi!“ Ég var forviða. Það var ótrúlegt, að þessi þokkadís væri öll.

Þriðjudaginn 11. september 2001 var ég nýkominn á gistihús í Bratislava í Slóvakíu, þar sem halda átti svæðisþing Mont Pelerin-samtakanna, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna. Laust eftir klukkan þrjú síðdegis hringdi bandarískur kunningi í mig. Hann var í uppnámi: „Komdu upp í íbúðina til mín og horfðu á sjónvarpið með mér. Það er verið að gera loftárás á New York!“ Ég trúði ekki mínum eigin eyrum. „Eins og í kvikmynd?“ sagði ég. „Já, en þetta er ekki kvikmynd, þetta er veruleiki,“ svaraði hann. Ég fór upp í íbúð hans, við fengum okkur drykki og blönduðum sterkt, settumst fyrir framan sjónvarpið og horfðum þöglir á árásirnar í beinni útsendingu. Þegar áfengisbirgðir þraut úr kæliskápnum í íbúð hans, náði ég í það, sem til var í mínu herbergi.

Ólíkt hörmulegum andlátum Kennedys og Díönu markaði árásin á Bandaríkin tímamót. Þetta var í fyrsta skipti, sem fjandmenn höfðu ráðist inn í landið sjálft. En hryðjuverkasamtökin Al-Kaida höfðu vanmetið styrk Bandaríkjanna, sem lögðu þau að velli á nokkrum misserum, þótt ekki hafi þeim tekist með öllu að uppræta þau. Enginn skyldi samt vanmeta þennan styrk.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. september 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir