Það hefur vakið athygli, að á ráðstefnu um löggæslu og afbrotavarnir á Akureyri 6. október síðast liðinn hélt ég því fram, að skattasniðganga væri frekar dygð en löstur. Skal ég hér rökstyðja mál mitt. Gera verður greinarmun á skattsvikum (tax evasion) og skattasniðgöngu (tax avoidance). Skattsvik eru, þegar maður reynir að fela sumar skattskyldar tekjur sínar eða falsar kostnað á móti tekjum. Hún er ólögleg og siðferðilega röng. Skattasniðganga er hins vegar, þegar maður (eða fyrirtæki) gerir allt, sem hann getur löglega til að lækka skattgreiðslur sínar, þar á meðal að tína til allan kostnað á móti tekjum eða flytja starfsemi úr háskattalandi í lágskattaland. Það er auðvitað villandi að nota þetta gildishlaðna orð. Þegar maður kaupir vöru í Bónus frekar en Hagkaup, af því að hún er þar ódýrari, er hann ekki að sniðganga Hagkaup.
Skattar eru það verð, sem ríkið setur upp fyrir þjónustu sína, en hún er fólgin í að veita þá þjónustu, sem er ekki á færi einstaklinga, af því að um er að ræða svokölluð samgæði, til dæmis landvarnir og löggæslu. Ekki er unnt að takmarka framleiðslu þeirra við þá, sem greiða fyrir þau. Annaðhvort hafa allir þau eða enginn. En hvernig fáum við að vita, hversu mikið af samgæðum fólk vill? Besta ráðið er að skoða, hvert fólk fer, svaraði bandaríski hagfræðingurinn Charles Tiebout í frægri ritgerð. Samkeppni ólíkra svæða um skattgreiðendur leiðir í ljós, hvað fólk vill í raun og veru. Þeir, sem andmæla þessu um eitthvert svæði, eru í raun að segja, að þar sé framleiðsla samgæða ákjósanleg, eins mikil (eða lítil) og skattgreiðendur vilja. Það á sjaldnast við.
Auðvitað mega menn ekki sniðganga lögin. Þeir hafa skyldur við samborgara sína. En það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að þeir reyni að spara sér skattgreiðslur umfram það, sem þeim er skylt. Með því sýna þeir sparsemi, og sparsemi er dygð.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. október 2021.)
Rita ummæli