Laugardagur 30.10.2021 - 09:35 - Rita ummæli

Samhengið í íslenskum stjórnmálum

Í árslok 2020 gaf ég út bókina Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers í tveimur bindum. Fyrsti kaflinn er um Snorra Sturluson, enda kemur hann í Heimskringlu orðum að tveimur hugmyndum frjálslyndra íhaldsmanna, sem John Locke batt síðan í kerfi: að konungar ríktu aðeins með samþykki þegnanna og að þá mætti afhrópa, ef þeir skertu hefðbundin réttindi. Rauði þráðurinn í Heimskringlu er, að góðir konungar haldi friðinn og stilli sköttum í hóf, en vondir konungar fari með hernaði og kosti umsvif sín með auknum álögum á alþýðu. Í ræðu Einars Þveræings, sem á að hafa verið flutt á Alþingi árið 1024, gengur Snorri enn lengra og segir, að konungar séu misjafnir og Íslendingum fyrir bestu að hafa engan konung.

Sigurður Líndal prófessor hefur í merkri ritgerð í Úlfljóti 2007 sett fram svipaðan skilning á verki Snorra. En auðvitað stendur Snorri ekki einn. Því hefur ekki verið veitt næg athygli, að Ari fróði setur fram svipaða skoðun í ræðu þeirri, sem hann leggur Þorgeiri Ljósvetningagoða í munn á Alþingi árið 1000. Þorgeir hóf ræðu sína á því að vara við ósætti og barsmíðum manna í milli, eins og tíðkaðist í útlöndum: „Hann sagði frá því, að konungar úr Noregi og Danmörku hefðu haft ófrið og orrustur á milli sín langa tíð, til þess uns landsmenn gerðu frið á milli þeirra, þótt þeir vildu eigi.“

Ari sér konunga bersýnilega ekki sem virðulega umboðsmenn Guðs á jörðu, heldur sem ótínda ófriðarseggi, og þurfi þegnarnir að hafa á þeim taumhald. Hann gerir sér eins og Snorri glögga grein fyrir sérstöðu Íslendinga, sem höfðu lög í stað konunga. Íslendingabók Ara er fyrsta sjálfstæða íslenska bókmenntaverkið, því að áður höfðu aðeins verið færð í letur lögin, ættartölur og þýðingar helgirita. Vart er ofsagt, að með Ara vakni íslensk þjóðarvitund.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. október 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir